Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson: "Trúfrelsi innifelur rétt til trúarsannfæringarinnar, en einkum til trúariðkunar. Annars er það meiningarlaust hugtak. – Verða fermingar næst bannaðar?"

Heimsókn frá grunnskólabörnum í Laugarneskirkju verður afþökkuð á komandi aðventu vegna þeirrar andstöðu og sundrungu (sic) sem heimsóknirnar hafa skapað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kirkjunni sem Davíð Þór Jónsson sóknarprestur skrifar undir. Að mínu mati er sundrung sem heimsóknirnar hafa skapað ekki næg ástæða til að svipta foreldra og börn þeirra sem eru annars sinnis (kristin) trúfrelsi sínu. Fjarri því. Ég hvet því sóknarprestinn til að standa vörð um trúfrelsi sóknarbarna sinna. Og galopna kirkjudyrnar á aðventunni fyrir unga sem aldna til að fagna fæðingu frelsarans.

Trúfrelsi er mannréttindi

Það er miður að sundrung skuli nú ríkja í sókn sér Davíðs. Vonandi er hún ekki umfram þá sem jafnan ríkir. En honum ber sem presti heilög skylda til að taka slaginn eða víkja. „ Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi .“ – Sem sé; sundrung nema andstæðingar Krists ráði ferðinni. Því skulu „börnin ekki fá að koma til þín“, séra Davíð. Og raunar hefur presturinn ekki verið þekktur að viðkvæmni fyrir afstöðu annarra. Sum orð verða ekki öðruvísi skilin en hann álíti okkur sem höfum aðra pólitíska afstöðu en hann vera bandamenn hins illa.

Verður næst fermingarbann?

Þetta trúfrelsi ber kirkjunni ekki bara stjórnarskrárbundin heldur heilög skylda til að verja. Trúfrelsi innifelur ekki einungis rétt til trúarsannfæringarinnar, heldur einkum til trúariðkunar. Annars er það meiningarlaust hugtak. Fyrir börn er bann við trúariðkun á skólatíma bann við kristinni trú. Svo einfalt er það. Það kapp sem örfáir þeirra sem heiðnir eru leggja á að koma í veg fyrir að kristið fólk fái að tilbiðja Jesúm Krist er óskiljanlegt. Fólk sem er annarrar trúar vill nefnilega oftast virða rétt annarra til tilbeiðslu. Megum við ekki bara fá að vera í friði með okkar gjörðir og aðrir með sínar? Svo er þetta sama fólk alveg ofboðslega umburðarlynt þegar að öðrum trúarbrögðum kemur. M.a.s. kúgun kvenna verður allt í einu ásættanleg vegna „menningarlegs fjölbreytileika“. – Nú bíður maður eftir að einhver prestur hætti við fermingar af tillitssemi við Siðmennt og Vantrú.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.