[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Ísland er í fimmta sæti af 169 þjóðum í árlegri mælingu Social Progress Imperative á vísitölu félagslegra framfara sem birt var í gær.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ísland er í fimmta sæti af 169 þjóðum í árlegri mælingu Social Progress Imperative á vísitölu félagslegra framfara sem birt var í gær. Vísitalan mælir velmegun og lífsgæði þjóða en við mælingu hennar er horft til félagslegra og umhverfislegra þátta. Mælingin hefur verið gerð síðan 2011 og hefur Ísland jafnan verið meðal efstu þjóða. Í fyrra var Ísland í fjórða sæti.

Ísland þykir leiðandi á ýmsum sviðum þegar vísitala félagslegra framfara, SPI, er reiknuð út. Þar á meðal eru þættir er lúta að aðgengi að vatni, mat og hreinlæti. Hér eru lífslíkur ungbarna mestar og gott aðgengi að menntun. Þá þykir hér á landi vera áberandi lítið um ofbeldi gegn minnihlutahópum, hátt hlutfall farsímaáskrifta og greitt aðgengi að upplýsingum og samskiptum. Eins búa Íslendingar við einna minnstu loftmengun allra og sem fyrr skörum við fram úr í nýtingu hreinna orkugjafa.

Afturför í 52 löndum í ár

Eins og síðustu ár eru það Norðmenn sem tróna á toppi SPI-listans. Á eftir þeim koma Danir, þá Finnar og Svisslendingar eru í fjórða sæti á undan Íslendingum. Svíar og Hollendingar feta svo í fótspor okkar. Suður-Súdan situr á botni listans.

Þegar horft er á heildarniðurstöður mælingarinnar má sjá að heilt yfir hefur vísitalan hækkað um 0,37% milli ára. Hins vegar máttu 52 þjóðir horfa upp á afturför og er Ísland þar á meðal. Í fyrra mældist vísitalan hér á landi 89,57% miðað við uppfærða tölu SPI en í ár er hún 89,54%.

Blikur á lofti fyrir næsta ár

Í samantekt Social Progress Imperative segir að þó niðurstöður þessa árs sýni að þjóðir heims séu heilt yfir á uppleið, þegar kemur að velmegun og lífsgæðum, hafi hægt á framförum. Fari sem horfi muni vísitalan í fyrsta sinn lækka á næsta ári. Auk þess eigi áhrif kórónuveirufaraldursins enn eftir að skila sér að fullu inn í þessar mælingar sem auki enn á óvissuna um framhaldið.