Í Nauthólsvík Tímarnir byrja á upphitun og öndunaræfingum.
Í Nauthólsvík Tímarnir byrja á upphitun og öndunaræfingum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sjóböð njóta vaxandi vinsælda og arkitektinn og heilsumarkþjálfinn Margrét Leifsdóttir er óþreytandi við að kynna kosti baðanna.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sjóböð njóta vaxandi vinsælda og arkitektinn og heilsumarkþjálfinn Margrét Leifsdóttir er óþreytandi við að kynna kosti baðanna. Þær Guðrún Tinna Thorlacius, sem er líka heilsumarkþjálfi, byrjuðu með námskeiðið „Glaðari þú“ í Nauthólsvík í nóvember 2020, þegar nánast allt snerist um kórónuveirufaraldurinn. „Við erum að frá september fram í lok apríl, en í maí tekur við ævintýranámskeið sem við höldum víða, eins og til dæmis á Álftanesi, í Hvalfirði og Kjalarnesi til að undirbúa sjálfstæð sjóböð þátttakenda um sumarið.“

Mikill áhugi

Námskeiðin urðu að veruleika fyrir tilviljun. Margrét segir að Tinna hafi stungið upp á því að þær héldu saman námskeið um föstur. Hún hafi slegið til og lagt áherslu á að hafa sjóböð með. „Við byrjuðum með fyrirlestra og verkefni og sjóbað í gulri viðvörun í nóvember. Ætlunin var að hafa sjóbað einu sinni í viku, en eftir það fyrsta spurðu þátttakendur hvort þeir ættu virkilega að bíða í heila viku eftir því að fara næst í sjóinn. Þá ákváðum við að vera með sjóbað þrisvar í viku.“

Dagskráin gekk ekki áfallalaust fyrir sig í byrjun. Margrét segir að veðrið hafi verið hryssingslegt og aðstaða til að skipta um föt verið lokuð.

„Fötin okkar fuku út um allt en það jók bara á skemmtunina. Í desember ákváðum við að vera bara með sjóbaðsnámskeið, því ekki er mikill áhugi fyrir því að fasta í jólamánuðinum. Við fengum um 15 þátttakendur en í janúar 2021 voru þeir 70 og síðan hefur eiginlega verið uppselt.“

Upphitun og öndunaræfingar

Boðið er upp á skipulagða tíma í Nauthólsvík fimm sinnum á þriðjudögum og fimmtudögum, tvo tíma í hádeginu og þrjá tíma seinnipartinn, auk fjögurra tíma á laugardagsmorgnum. Fólk getur keypt mánaðaráskrift eða til lengri tíma. Næsta sjóbaðsnámskeið hefst 4. október og er skráning hafin (gladari.namskeid@gmail.com).

„Þátttakendur mæta þegar þeir vilja og við erum með samtals um 80 manns á þessum námskeiðum,“ segir Margrét og leggur áherslu á að hver tími hefjist á upphitun og öndunaræfingum. „Núna erum við um fimm mínútur í sjónum og förum niður í tvær til þrjár mínútur, þegar sjórinn er sem kaldastur. Þegar við komum upp úr erum við sjúklega glöð, því líkaminn byrjar að spýta gleðihormónunum um sig allan. Þá dönsum við á ströndinni og leikum okkur aðeins ef veður leyfir, sem er reyndar oftast.“

Á sumrin er Margrét í fríi frá námskeiðunum og fer þá reglulega í sjóinn neðan við grásleppuskúrana við Ægisíðu. „Hérna er hverfisaðstaðan okkar, stutt að fara og þægilegt.“

Nýlega byrjaði hún jafnframt að fara með vinum sínum þar í sjóinn klukkan tíu mínútur yfir sjö á mánudags- og miðvikudagsmorgnum. „Það er svo stórkostlegt að byrja daginn á þessu,“ segir Margrét, en vekur athygli á að dæling skolps í sjóinn að undanförnu hafi sett strik í reikninginn. „Í síðustu viku var umræða um að skolphreinsistöð í Faxaskjóli væri á yfirfalli vegna viðgerða. Það er mjög miður þegar það gerist og mikilvægt að samskipti milli Veitna og þeirra sem stunda sjóböð séu skýr og góð. Heilbrigðiseftirlitið mælir reglulega sjógæði í Nauthólsvík og við höfum hingað til ekki þurft að aflýsa tímum vegna mengunar,“ segir Margrét.

Hún brýnir fyrir fólki að setja ekkert annað en líkamlegan úrgang og salernispappír í klósettið. „Mjög mikilvægt er að við áttum okkur á því að það sem við setjum í klósettið getur farið beint út í sjó.“

Hljómsveitin Á móti sól söng um Auðbjörn, sem fór í ljós þrisvar í viku og mætti reglulega í líkamsrækt. Margrét fer markvisst í sjóinn fimm daga í viku en hvað gerir hún á föstudögum og sunnudögum?

„Þetta eru frjálsir dagar en ef sjórinn kallar fer ég út í.“