Lagt er til í fjárlagafrumvarpi næsta árs að framlög til utanríkismála verði aukin um nokkuð hundruð milljónir. Þetta hefur verið gagnrýnt á þeim forsendum að fjármununum hefði verið betur varið í aðra mikilvæga málaflokka. Því er til að svara að vægi utanríkismála hefur aukist umtalsvert þar sem umgjörð öryggismála í Evrópu hefur gjörbreyst á síðustu mánuðum. Ástæðan er allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu í febrúar. Áhrifin af átökunum á Íslendinga munu verða víðtækari en marga kann að gruna. Í fyrsta lagi breytist öryggisumhverfið á íslensku yfirráðasvæði. Þetta kemur til af óförum rússneska heraflans í Úkraínu. Þar hefur komið í ljós vanhæfi landhers þeirra og flughers. Þá stendur eftir sjóherinn sem Rússar munu í auknum mæli beita til að reyna að sýna að þeir séu mikilvægt herveldi. Stór hluti flota þeirra er staðsettur í Norður-Rússlandi. Til að komast út á heimshöfin verða skipin og kafbátarnir að sigla fram hjá Íslandi. Atlantshafsbandalagið (NATO) og þá sérstaklega Bandaríkin munu vilja fylgjast með þessum flotaferðum. Þegar við bætist að Ísland er mikilvægur hlekkur milli Norður-Ameríku og Evrópu nú þegar NATO ætlar að efla varnir sínar í Austur-Evrópu má reikna með að Bandaríkin hafi áhuga á að efla starfsemi sína í Keflavík á næstu árum.
Ýmsar breytingar eru líka að verða á öryggismálum í okkar heimshluta sem munu hafa áhrif hér á landi. Framtíð Heimskautsráðsins (e. Arctic Council) er óviss. Samstarf Rússlands, sem er mikilvægur hlekkur í því vegna legu landsins, við önnur ríki í ráðinu er í uppnámi. Fjandskapur Rússa og hinna heimskautsríkjanna sjö mun leiða til frekari hernaðaruppbyggingar á svæðinu. Rússar hafa í talsverðan tíma verið að efla herafla sinn þar og nú eru miklar líkur á því að Bandaríkin láti til sín taka þarna. Líklegt er að samvinna Vesturveldanna á norðurslóðum færist meira undir forræði NATO, bæði vegna þess að Kanada hefur látið af andstöðu sinni við afskipti bandalagsins af svæðinu og ekki síður vegna þess að Svíþjóð og Finnland eru á leið inn í Atlantshafsbandalagið.
Afstaða almennings
Hér hefur aðeins verið vikið að helstu breytingunum sem eru að verða á öryggismálum á Norður-Atlantshafssvæðinu. Við Íslendingar eigum að reyna að hafa eins mikil áhrif á þessi mál og við getum, þjóðinni til heilla. Mikilvægur þáttur í því ferli er að þeir sem telja sig hafa eitthvað til málanna að leggja hiki ekki við að láta í sér heyra. Þetta á ekki síst við um ungt fólk því líklegt er að þeim sem ólust upp eftir kalda stríðið finnist utanríkismál ekki jafn mikilvægur málaflokkur og eldri kynslóðum. Eðlilegt er að landsmenn deili um áherslur á þessu sviði en ákjósanlegt er að umræðan sé á málefnalegum grunni. Fyrir nokkrum árum samþykkti Alþingi þjóðaröryggisstefnu þar sem grundvallaratriði utanríkisstefnu landsins eru sett fram. Þeir sem vilja láta taka sig alvarlega í umræðunni um þennan málaflokk ættu að ræða öryggismál á þeim grundvelli sem þar er settur fram. Svo þarf að varast eins og hægt er ótraustar eða beinlínis ósannar upplýsingar sem því miður er nóg framboð af í nútímasamfélagi. Nái landsmenn að ræða málin ítarlega og af skynsemi eigum við að geta haft meiri áhrif á þróun öryggismála í okkar heimshluta en ætla mætti af fjölda landsmanna.
Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur. kvaldimars@yahoo.com