„Jöfn tækifæri til náms eru afar mikilvæg og þau verða stjórnmálamenn að tryggja,“ segir Andrea Edda Guðlaugsdóttir, formaður nemendafélagsins, Inspector Scholae, við Menntaskólann í Reykjavík. „Námslán geta verið nauðsynleg.

„Jöfn tækifæri til náms eru afar mikilvæg og þau verða stjórnmálamenn að tryggja,“ segir Andrea Edda Guðlaugsdóttir, formaður nemendafélagsins, Inspector Scholae, við Menntaskólann í Reykjavík.

„Námslán geta verið nauðsynleg. Hins vegar kemur alltaf að skuldadögum og margir vilja því ekki taka slík lán. Fara frekar að vinna og slá frekari skólagöngu á frest, sem er varhugavert. Mörg dæmi eru um að þau sem hverfa frá námi snúi ekki aftur og festist í láglaunastörfum. Slíkt er öllum dýrt. Betra væri því að taka upp námsstyrki.“

Umhverfismál eru ungu fólki ofarlega í huga, segir Andrea Edda, sem kallar eftir raunverulegum aðgerðum í málaflokknum. „Sumar ráðstafanir í umhverfismálum eru sýndarmennska og breyta litlu í stóra samhenginu. Að banna notkun plaströra á veitingahúsum og plastpoka í verslunum og innleiða pappír þess í stað skiptir litlu fyrir umhverfi okkar á meðan bensínbílar aka um göturnar og mengandi álver og verksmiðjur eru starfræktar. Slíka starfsemi og samgöngumál almennt þarf að endurskoða með meiri samfélagsfræðslu í framhaldsskólunum.“