Unnið hefur verið að því að undanförnu að koma fyrir færanlegum húsum, svokallaðri Ævintýraborg, fyrir leikskóla Vogabyggðar við Naustavog. Hverfið hefur byggst hratt upp síðustu misseri. Þegar það verður fullbyggt verða þar allt að 1.900 íbúðir.
Leikskólinn er á tanga í Elliðaárósum sem kallast Fleyvangur (Vogabyggð 5) en yst á tanganum er Snarfarahöfnin. Göngu- og hjólabrú yfir Ketilbjarnarsíki mun í framtíðinni tengja Fleyvang við aðra hluta Vogabyggðar.
Ævintýraborg í Vogabyggð verður sex deilda leikskóli sem rúma mun 100 börn á aldrinum 1-6 ára. Leikskólastjóri er Ragna Kristín Gunnarsdóttir.
Framkvæmdir við Ævintýraborgina hafa tafist nokkuð frá fyrstu áætlunum. Fyrsta skóflustunga var tekin 29. júní og um miðjan september var lóðafrágangur boðinn út. Tilboð verða opnuð 4. október. Nú er stefnt að því að leikskólinn verði tilbúinn í desember.
Fyrstu fimm börnin, sem voru innrituð í Ævintýraborg í Vogabyggð, hófu aðlögun 12. september síðastliðinn í húsnæði leikskólans Bakka í Grafarvogi.
Leikskóli í Vogabyggð mun síðar rísa ásamt nýjum grunnskóla og rúma 140 börn. Stefnt er að því að hann taki til starfa á árinu 2025, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar. Hann mun leysa af hólmi Ævintýraborgina. sisi@mbl.is