„Farsældarlögin, sem lúta að velferð barna, unglinga og fjölskyldna, sem sett voru fyrir nokkrum misserum, eru kærkomin. Því miður hafa þó nægir fjármunir ekki fylgt þeim svo öll markmiðin náist í gegn.

„Farsældarlögin, sem lúta að velferð barna, unglinga og fjölskyldna, sem sett voru fyrir nokkrum misserum, eru kærkomin. Því miður hafa þó nægir fjármunir ekki fylgt þeim svo öll markmiðin náist í gegn. Þarna hafa stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, því mikið verk að vinna,“ segir Björn Már Sveinbjörnsson Brink, félagsráðgjafi í Hafnarfirði. Hann starfrækir Vopnabúrið, þjónustu við börn og ungmenni sem glíma við fjölþættan vanda. Úrræði þetta er aðlagað hverju barni og tekur jafnt á andlegum sem líkamlegum þáttum í lífi þeirra sem styrkja þarf. Hreyfing, næring og svefn eru grunnatriðin í þessu starfi.

Þjónusta Vopnabúrsins felur í sér ráðgjafar- og stuðningsviðtöl, meðferðarvinnu, líkamsrækt, tómstundir og félagslega virkni, talsmannsþjónustu og fræðslu. Þá er unnið meðal annars út frá ýmsum meðferðaráætlunum sem fyrir liggja.

„Reynslan er góð og hefur sannað gildi sitt,“ segir Björn sem byggir vinnu sína á rannsóknum og gagnreyndum aðferðum í félagsráðgjöf. „Stuðningi við ungt fólk í vanda er annars oft sinnt af sjálfstætt starfandi fagfólki og frjálsum félagasamtökum, sem jafnvel fjármagna starfsemi sína með því að sækja styrki út í bæ. Slíkt gengur auðvitað ekki upp til lengdar. Mikilvægt samfélagslegt starf þarf fyrirsjáanleika og föst framlög frá hinu opinbera. Öðruvísi er varla hægt að þróa þessa starfsemi áfram og koma með nýjungar. Sjálfur hef ég til dæmis talað fyrir því að koma þurfi með sértækt úrræði þar sem betur er hugað að sjálfstrausti ungmenna og að þeim sé veitt aðstoð við tengslamyndun og félagslega virkni. Horfa til styrkleika hvers og starfa út frá því. Þátttaka fagfólks sem þekkir til lífs og líðanar ungmenna er mikilvæg í slíkri vinnu.“

Margir krakkar sem standa á krossgötum og finna sig ekki í daglegu lífi hafa mikla hæfileika á ákveðnum sviðum sem mikilvægt er að horfa til, segir Björn. „Að gefa þeim til dæmis tækifæri með stuðningi úti í atvinnulífinu getur verið snjall leikur. Því miður er sá rammi sem skólakerfið starfar eftir mjög ferkantaður, sem hamlar því að hægt sé að styðja þessa krakka sem vera skyldi, sem þó skiptir svo óendanlega miklu máli fyrir líðan þeirra og í raun samfélagið allt. Hver króna úr opinberum sjóðum, sem varið er í starf með ungu fólki, skilar sér margfalt á seinni stigum.“