[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Húsnæðismarkaðurinn hér á landi hefur snöggkólnað á síðustu vikum. Þetta staðfestir nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar.

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Húsnæðismarkaðurinn hér á landi hefur snöggkólnað á síðustu vikum. Þetta staðfestir nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs hækkar um 0,09% milli mánaða og húsnæðisliður mælingarinnar stendur því sem næst í stað.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, er gestur Dagmála. Hann segir að nýlegar tölur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi valdið því að bankinn hafi þá þegar lækkað verðbólguspá sína. Hins vegar hafi fleiri þættir þrýst á móti verðbólgunni að þessu sinni. Einn þeirra sé mikil lækkun flugfargjalda en einnig lækkun eldsneytisverðs.

Gæti sveiflast upp á við

„Sumpart er þar ekki á vísan að róa, eins og með flugfargjöldin. Það er markaður sem er enn að læra á verðlagninguna upp á nýtt eftir faraldurinn,“ segir Jón Bjarki. Hann segir hins vegar að góð tíðindi felist í þessum breytta takti verðbólgunnar. Bankinn spái því nú að verðbólgan verði komin undir 9% um áramótin.

„Ef við berum saman við spá Seðlabankans, sem hann birti í ágústlok, var þar gert ráð fyrir nærri 11% verðbólgu undir lok árs. Það er mikil breyting til batnaðar. Það veldur stemningsbreytingu. Verðbólgan er enn há [...] en ég held að ef við erum komin yfir þessa brekku, að því gefnu að 12 mánaða takturinn haldi áfram að þokast niður á við, að það muni strax stappa stálinu í heimili og fyrirtæki um að það verði léttbærari vetur en margir voru farnir að hafa áhyggjur af.“

Ásamt Jóni Bjarka er Gísli Freyr Valdórsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, gestur Dagmála. Hann bendir á að Seðlabankinn búi nú við breyttar aðstæður frá fyrri tíð. Nú sé stór hluti landsmanna með lánaskuldbindingar í óverðtryggðum lánum og að vaxtatæki bankans bíti því fastar og fyrr á fólki en þegar verðbætur jöfnuðu höggið yfir langan tíma.

„Til lengri tíma litið er þetta heilbrigðara hagkerfi og heilbrigðara heimilisbókhald ef út í það er farið.“ Segir hann að Seðlabankinn sé nú í betra talsambandi við þjóðina en oft áður. Þá hafi fólk vakandi áhuga á þeim greiningum sem t.d. bankarnir senda frá sér með reglulegu millibili.

Jón Bjarki bendir á að verðbólguvæntingar og verðbólguálag sé enn hátt á markaði. Því sé ljóst að Seðlabankinn sé enn mjög áhyggjufullur yfir stöðu mála. Því gerir hann ráð fyrir, þrátt fyrir nýjustu verðbólgumælingu, að stýrivextir eigi enn eftir að þokast eitthvað upp á við á komandi mánuðum.

„Hvort sem það verður við 5,5%, 6% eða rúmlega 6% þá virðist tækið farið að bíta það vel að tveggja stafa tala í stýrivöxtum er mjög ólíklega að fara að gerast,“ segir Jón Bjarki. Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir næstu vaxtaákvörðun sína á miðvikudag í næstu viku. Meginvextir bankans standa nú í 5,5% en fóru lægst í 0,75% í miðjum stormi kórónuveirufaraldursins.

Stöðugleiki og ekki
» Fjármálastöðugleikaráð kynnti skýrslu sína í gær.
» Staða bankanna sterk en lausafé þeirra hefur minnkað og fjármögnun þeirra hefur orðið þyngri á síðustu mánuðum.
» Heimilin standa sterkt og vanskil í sögulegu lágmarki. Lánahlutföll heimila og fyrirtækja með lægsta móti.
» Seðlabankinn segir húsnæðisverð hátt, á alla mælikvarða.