4 Bjarki Már Elísson hefur farið vel af stað með ungversku meisturunum í Veszprém á tímabilinu en hann gekk til liðs við félagið frá Lemgo í sumar.
4 Bjarki Már Elísson hefur farið vel af stað með ungversku meisturunum í Veszprém á tímabilinu en hann gekk til liðs við félagið frá Lemgo í sumar. — Ljósmynd/Eurohandball
Bjarki Már Elísson átti góðan leik fyrir Veszprém þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Dinamo Búkarest í A-riðli Meistaradeildar karla í handknattleik í Ungverjalandi í gær.

Bjarki Már Elísson átti góðan leik fyrir Veszprém þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Dinamo Búkarest í A-riðli Meistaradeildar karla í handknattleik í Ungverjalandi í gær. Leiknum lauk með 33:30-sigri Veszprém en Bjarki Már var næstmarkahæstur í ungverska liðinu með fjögur mörk.

Þá var Ómar Ingi Magnússon næstmarkahæstur hjá Magdeburg þegar liðið tapaði með sjö marka mun gegn París SG í Þýskalandi, 22:27. Ómar Ingi skoraði fimm mörk í leiknum og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt. Veszprém er í efsta sæti riðilsins með sex stig eða fullt hús stiga en Magdeburg er í þriðja sætinu með fjögur stig.

Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Kielce þegar liðið vann 30:28-sigur gegn Aalborg í Íslendingaslag í B-riðli keppninnar. Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Aalborg en Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari danska liðsins. Kielce og Aalborg eru með fjögur stig í öðru og þriðja sæti riðilsins. Barcelona er einnig með fjögur stig og á leik til góða á bæði Íslendingaliðin.