Safnarinn Markús Ívarsson vélsmiður í portretti eftir Jón Stefánsson frá árinu 1934.
Safnarinn Markús Ívarsson vélsmiður í portretti eftir Jón Stefánsson frá árinu 1934. — Listasafn Íslands
Listin í smiðju Héðins er heiti sýningar sem verður opnuð í Vélsmiðjunni Héðni á Gjáhellu 4 í Hafnarfirði kl. 13 á laugardag. Verður sýningin einungis opin þann eina dag, til kl. 17.
Listin í smiðju Héðins er heiti sýningar sem verður opnuð í Vélsmiðjunni Héðni á Gjáhellu 4 í Hafnarfirði kl. 13 á laugardag. Verður sýningin einungis opin þann eina dag, til kl. 17. Um er að ræða samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Héðins í tilefni af hundrað ára afmælis fyrirtækisins. Sýnd eru verk úr merkri listaverkagjöf fjölskyldu Markúsar Ívarssonar, sem stofnaði Héðin ásamt Bjarna Þorsteinssyni árið 1922.

Markús var fæddur 1884. Hann var járnsmiður og ástríðufullur safnari verka eftir marga helstu myndlistarmenn síns tíma. Studdi hann þannig meðvitað með kaupum á verkum við ýmist listafólk sem bjó við kröpp kjör við upphaf ferils síns en átti síðar eftir að njóta hylli.

Markús féll frá árið 1943, aðeins 59 ára gamall. Hann skildi eftir sig mjög umfangsmikið safn, um 200 myndverk, olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar og höggmyndir. Árið 1951 færðu ekkja Markúsar, Kristín Andrésdóttir, og dætur þeirra Listaverkasafni ríkisins 56 verk úr þessu stóra safni.

Tilkynnt var um gjöfina 27. ágúst, sama dag og Listasafn Íslands var formlega opnað í nýjum húsakynnum við Suðurgötu á efstu hæð byggingarinnar þar sem Þjóðminjasafnið er nú á öllum hæðum.

Fjölskylda Markúsar lét ekki þar við sitja. Árið 1966 færði hún safninu að auki eitt verk eftir Jóhannes S. Kjarval, Sjá roðann á hnjúkunum háu , frá 1930, árið 1997 gaf hún safninu verkið Dettifoss eftir Svein Þórarinsson í tilefni af 75 ára afmæli Vélsmiðjunnar Héðins, og árið 2007 bættist frá fjölskyldunni í safneign Listasafns Íslands málverk af Markúsi Ívarssyni eftir Jón Stefánsson, málað 1934.

Mörk lykilverk listasögunnar

Í frétt frá Listasafni Íslands segir að Markús hafi byrjað markvissa söfnun á mikilvægum tímapunkti þegar nýjar kynslóðir listamanna voru að koma fram á sjónarsviðið á fjórða áratugnum en áttu erfitt uppdráttar á kreppuárunum, og þá skipti stuðningur hans oft sköpum. Þá segir að almennt feli safn Markúsar í sér mjög gott úrval íslenskrar myndlistar frá fyrri hluta síðustu aldar. Þar séu lykilverk ýmissa mikilvægustu listamanna þjóðarinnar.

Efnistökin og viðfangsefnin eru fjölbreytt í verkunum á sýningunni í Héðni, til að mynda mannamyndir, fallegar sveitalífsmyndir, dramatískar myndir af öræfalandslagi, hafnar- og bæjarlífsmyndir. Verkin eru meðal annars eftir Mugg, Ásgrím Jónsson, Finn Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhann Briem, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Jón Þorleifsson, Karen Agnete Þórarinsson, Snorra Arinbjarnar, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og Þórarin B. Þorláksson.