Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Mig langaði að gefa út prjónabók sem væri meira en „bara“ uppskriftabók. Ég vildi að hún innihéldi líka bókmenntalegan texta og vísaði þannig út fyrir sig í ýmislegt annað sem gæfi henni meiri dýpt,“ segir Bergrós Kjartansdóttir en hún sendi nýlega frá sér Sjalaseið , bók sem geymir uppskriftir hennar að sjölum, en einnig frumsamin ljóð og fróðleik úr norrænni goðafræði.
„Ég lærði bókmenntafræði og þjóðfræði í háskólanum og fann mig virkilega vel í þeim fræðum en ég hef líka lengi verið í prjónaheiminum. Ég var ekki nema 25 ára þegar Auður Kristinsdóttir fóstraði mig með því að ráða mig sem verslunarstjóra hjá garnbúðinni Tinnu,“ segir Bergrós og bætir við að þegar hún fór í háskólanámið hafi hún skynjað sterkt skilin á milli bóklegs náms og handverks.
„Handverkið hafði ekkert vægi í háskólanum, en mig hafði alltaf langað að tengja þetta saman, enda eru báðir þessir heimar áhugasvið mitt. Þegar ég lauk háskólanámi fór ég í Iðnskólann og lærði að vera gullsmiður, þá var ég komin með próf úr báðum geirum; huga og hendi. Þótt ég sé ekki skólalærð í prjónahönnun hef ég unnið mest fyrir mér á því sviði og haft mestu ástríðuna þar. Í mínum huga tengist þetta allt saman; að vera akademíker og prjónahönnuður, að vera gullsmiður og prjóna,“ segir Bergrós sem er ástríðufull í því sem hún tekur sér fyrir hendur.
„Ég er trúboði sem vill koma því til skila hversu mikilvægt er að rækta bæði sviðin, hið akademíska og handverkið. Ég ólst upp við ljóð og aðrar bókmenntir enda mikill ljóðaáhugi í minni ætt, sérstaklega þeirri sem tengist Hornströndum. Ég lít á þessa prjónabók mína sem ljóðaseið sem samtvinnaður er úr sjölum, sögum og ljóðum, enda finnst mér ljóð og prjón vera mjög líkt. Ljóð byggist upp af takti, rími, stuðlum og höfuðstöfum og verður að einni heild, og það sama á við um prjónauppskrift, þar eru ákveðnir stuðlar, höfuðstafir og rím sem raðast saman og ég finn fyrir taktinum þegar ég prjóna. Hrynjandi er bæði í ljóði og prjóni, rétt eins og texti og textíll er mjög skylt,“ segir Bergrós og bætir við að upplagt sé fyrir prjónara að hlusta á upplesinn texta meðan prjónað er.
„Mér finnst merkilegt að við náum að einbeita okkur betur að texta sem við hlustum á, ef við prjónum á meðan.“
Með níu sjöl í aftakaveðrum
Sjölin í bók Bergrósar hafa sterka tengingu við náttúruna og hún gefur þeim nöfn sem hún segir frá hvernig eru til komin. Eitt af sjölunum heitir Hornstrandir, en Bergrós hannaði það sem óð til formæðra sinna sem bjuggu á því afskekkta og harðbýla svæði allt frá landnámi. Hún segir í bókinni m.a. frá yfirsetukonum þaðan sem gengu á milli bæja í aftakaveðrum með níu sjöl sér til hlífðar þegar aðstoða þurfti konur í barnsnauð.„Fyrsta tenging mín í þessa veru kemur úr bók frænku minnar, Fríðu Á. Sigurðardóttur, Meðan nóttin líður , en Fríða var frá sama bæ og pabbi minn, Hælavík á Hornströndum. Í þeirri bók rifjar hún upp sögu formæðra okkar, en ein þeirra, Sunneva, hitti franskan sjómann á Hornströndum á sautjándu öld. Við aðskilnaðinn þegar hann hélt aftur heim til Frakklands gaf hann henni sjal með glitrandi þráðum, úr útlendu efni. Þetta sjal verður tákn fyrir sjálfstæði kvenna, því Sunneva lét ekki vaða yfir sig og bar sjalið með stolti. Sjalið með glitþræðinum gekk í erfðir alt fram til konunnar sem skrifar söguna í bók Fríðu. Mér finnst þetta heillandi og fyrir tuttugu árum hannaði ég sjal sem heitir Sunneva, eins og þessi formóðir mín í sögunni. Mér finnst gaman að taka áfram eitthvað sem heillar mig og láta hversdaginn flæða inn í mína sköpun. Ég vil láta sjölin mín segja sögu og mér finnst skemmtilegt þegar upp úr djúpunum koma alls konar tengingar og frásagnir,“ segir Bergrós og bætir við að bókin hennar, Sjalaseiður , hafi líka komið út á ensku á sama tíma og sú íslenska.
„Ég held að það sé frekar óvenjulegt fyrir prjónauppskriftabók og það stækkar heiminn heilmikið fyrir mig og Sjalaseiðinn. Sérhæfður þýðandi var fenginn til að þýða sögurnar og ljóðin yfir á ensku, þýðandi sem þekkir vel til fornaldarsagna og til norrænu goðafræðinnar. Mér finnst það mikils virði.“