Skúmur Svo virðist sem margir skúmar hafi fallið í fuglaflensu hér og erlendis og fáir ungar komist upp í sumar.
Skúmur Svo virðist sem margir skúmar hafi fallið í fuglaflensu hér og erlendis og fáir ungar komist upp í sumar. — Morgunblaðið/RAX
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Skúmastofninn hefur orðið fyrir miklu höggi,“ segir dr. Lilja Jóhannesdóttir, vistfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands. „Ég fann fjörutíu dauða skúma á mínum ferðum í sumar allt fram undir lok ágúst, mestmegnis á Breiðamerkursandi og aðeins í Ingólfshöfða. Eins heyrði ég að það hefðu fundist að minnsta kosti þrjátíu dauðir skúmar á Úthéraði.“

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Skúmastofninn hefur orðið fyrir miklu höggi,“ segir dr. Lilja Jóhannesdóttir, vistfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands. „Ég fann fjörutíu dauða skúma á mínum ferðum í sumar allt fram undir lok ágúst, mestmegnis á Breiðamerkursandi og aðeins í Ingólfshöfða. Eins heyrði ég að það hefðu fundist að minnsta kosti þrjátíu dauðir skúmar á Úthéraði.“

Fuglaflensan reyndist skæð

Þá er vitað að fuglaflensan hefur einnig drepið marga skúma í Skotlandi og Færeyjum. Súlur drepast enn unnvörpum og eins hafa margir helsingjar fallið fyrir fuglaflensunni í Skaftafellssýslu. Lilja segir að sumir telji að allt að 90% skúmastofnsins á Bretlandseyjum hafi drepist.

Hún segir að 47 skúmsungar hafi verið merktir í Ingólfshöfða í sumar en þar hafa verið merktir allt að 150 skúmsungar á sumri í venjulegu árferði. Á Breiðamerkursandi voru merktir aðeins tveir skúmsungar í sumar. Lilja segir að hún og fulltrúar Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands á Höfn hafi séð í mesta lagi samtals tíu skúmsunga á Breiðamerkursandi. Engar vísbendingar eru um hvort þeir komust á legg. Varpið gekk því afar illa í sumar.

Skúmur í útrýmingarhættu? var yfirskrift erindis Lilju á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2022 í gær. En er skúmurinn í útrýmingarhættu? „Það er erfitt að svara því núna,“ segir Lilja. „Það verður mjög áhugavert að sjá hvað gerist í vor þegar skúmarnir eiga að skila sér á varpstöðvarnar.“ Skúmurinn er farinn út á úthafið þar sem hann dvelur yfir veturinn og því ekki hægt að segja til um hvort fuglar eru enn að drepast í stórum stíl. Vetrarstöðvar skúmsins eru í Norður-Atlantshafi allt frá Nýfundnalandi og austur að Spánarströndum.

Langlífir en fjölga sér hægt

Skúmurinn verpir aðallega á eyjum í norðaustanverðu Atlantshafi, allt frá Skotlandi í suðri og norður á Svalbarða og frá Íslandi og austur til Skandinavíu. Heimsstofn skúmsins var metinn vera 30-35 þúsund fuglar. Þá var talið að um þriðjungur stofnsins verpti á Íslandi.

Skúmar geta orðið allt að 40 ára gamlir en fjölga sér hægt. Þeir byrja varp á 5. til 8. ári og verpa 1-2 eggjum á ári. Fuglaathugunarstöðin hefur merkt talsvert marga skúmsunga í gegnum árin en fáir hafa endurheimst hér á landi. Raunar fréttist af einum íslenskum skúmi norður á Svalbarða.