Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson: "Ástæða þess að ég greip til þessara róttæku aðgerða var sú ákvörðun stríðsglæpamannsins Pútíns forseta Rússlands að ráðast inn í nágrannaland sitt Úkraínu."

Að morgni 7. júní sl., er ég var rétt að koma heim á bíl mínum, tók ég eftir því að lögreglubíll var á eftir mér. Erindi lögreglunnar var að spyrja mig hvort það væri ég sem rétt áður hefði skvett rauðri málningu á skiltið á vegg sendiráðs Rússlands í Garðastræti. Játti ég því að sjálfsögðu og bætti við í framhaldinu að ég væri einnig sá sem það hefði gert áður eða hinn 3. mars sl. Að því búnu fóru þeir, þannig að ekki var ég þá spurður hvort það kynni líka að hafa verið ég sem í apríl sl. og aftur í maí sl. málaði rauðri málningu yfir skiltið við sendiráðsbygginguna í Túngötu 24, sem leiddi til þess að það var tekið niður mönnum til mikils ánægjuauka.

Ástæða þess að ég greip til þessara róttæku aðgerða var sú ákvörðun stríðsglæpamannsins Pútíns forseta Rússlands að ráðast inn í nágrannaland sitt Úkraínu. Þá ekki síst vegna þeirra svívirðilegu stríðsglæpa og fjöldamorða sem rússneski herinn varð síðan í framhaldinu uppvís að og öllum er kunnugt um og ekki þarf að tíunda frekar hér. Var mér öllum lokið við að vera upplýstur um þessi óhæfuverk rússneskra hermanna á saklausum nágrönnum sínum. Af þeim ástæðum var mér því gjörsamlega ómögulegt að sitja aðgerðalaus með hendur í skauti og fylgjast daglega í fjölmiðlum með hryllilegri framgöngu rússneska innrásarliðsins og fjöldamorðum, hverjar svo sem afleiðingarnar kynnu síðar að verða fyrir mig vegna viðbragða minna.

Allir bera ábyrgð á gerðum sínum og taka út þá refsingu er íslensk lög bjóða ef út af er brugðið. Menn skemma ekki eigur annarra t.d. með málningu eða á annan hátt eða valda skaða með öðrum beinum eða óbeinum hætti án afleiðinga fyrir þá. Hér skal nefna sérstaklega sendiráð erlendra ríkja, sem njóta sérstakrar verndar, en í 1. mgr. 95. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940 segir þetta orðrétt: „Hver sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að sex árum.“

Fram hefur komið tillaga á Alþingi um að fella skuli þessa lagagrein út, sem ég tel sjálfur að ekki skuli gera. Sé litið hlutlægt á málið, þá þurfa erlend sendiráð að geta notið verndar og friðhelgi í því landi sem þau starfa í, hverjar og hvernig sem pólitískar væringar kunna að vera í heiminum á hverjum tíma. Þetta snýst fyrst og fremst um vernd og öryggi sendiráðsfólksins, hvað svo sem gagnrýna má stjórnvöld viðkomandi ríkis fyrir. Þetta hefur mönnum alls staðar í heiminum verið ljóst lengi. Það sem þó mætti hugleiða hér er það hvort refsirammi þessarar lagagreinar sé ekki of víður og ætti að þrengja. Hvað mínar áðurnefndu aðgerðir snertir og hugsanleg viðbrögð við þeim, þá mun tíminn leiða í ljós hvert framhaldið verður þar.

Að endingu vil ég árétta hve aðdáunarverð mér þykir barátta Úkraínumanna við að reyna að vernda sjálfstæði lands síns vegna innrásar rússnesku heimsvaldasinnanna. Ber öllum þjóðum heims svo og ríkisborgurum þessara landa skylda til að styðja varnarbaráttu Úkraínumanna af öllum mætti. Megi Úkraínumönnum ganga allt í haginn í baráttu sinni.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jónas Haraldsson