Evrópa Cyera Hintzen og Simona Necidová eigast við í fyrri leik Vals og Slavia Prag á Origo-vellinum að Hlíðarenda í síðustu viku.
Evrópa Cyera Hintzen og Simona Necidová eigast við í fyrri leik Vals og Slavia Prag á Origo-vellinum að Hlíðarenda í síðustu viku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Meistaradeild Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Valur er úr leik í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu kvenna eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Slavia Prag í síðari leik liðanna í 2. umferð undankeppninnar í Tékklandi í gær.

Meistaradeild

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valur er úr leik í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu kvenna eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Slavia Prag í síðari leik liðanna í 2. umferð undankeppninnar í Tékklandi í gær.

Slavia vann fyrri leikinn að Hlíðarenda 1:0 og einvígið því samanlagt með sömu markatölu. Með sigri í einvíginu tryggðu tékknesku meistararnir sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en Valskonur ná ekki að leika sama leik og Breiðablik gerði í fyrra og lengja tímabilið hjá sér fram í desember.

Leikurinn í gær var nokkuð kaflaskiptur en eftir að Slavia hafði byrjað af krafti unnu Valskonur sig vel inn í hann og réðu lögum og lofum síðasta stundarfjórðunginn í fyrri hálfleik.

Cyera Hintzen komst nálægt því að koma Val í forystu eftir rúmlega hálftíma leik þegar hún slapp í gegn eftir stungusendingu Önnu Rakelar Pétursdóttur en Olivie Lukásová í marki Slavia varði skot hennar úr nokkuð þröngri stöðu út í vítateiginn áður en boltanum var komið frá.

Ásdís Karen Halldórsdóttir átti þá hörkuskot rétt fyrir utan vítateig skömmu fyrir leikhlé en aftur var Lukásová vandanum vaxin og varði með naumindum yfir markið.

Í síðari hálfleik áttu Valskonur erfitt uppdráttar framan af þar sem Slavia setti Íslands- og bikarmeistarana undir pressu, skapaði sér nokkur hættuleg færi og skoraði auk þess tvö mörk, sem voru þó bæði dæmd af. Fyrra markið var dæmt af vegna rangstöðu og það síðara eftir að brotið var á Örnu Sif Ásgrímsdóttur í aðdragandanum.

Arna Sif fékk besta færið

Elín Metta Jensen, sem kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik, frískaði aðeins upp á sóknarleik Vals í síðari hálfleik og kom sér í fínt færi eftir góðan sprett um hann miðjan en táarskot hennar fór í hliðarnetið utanvert.

Á 77. mínútu fékk Arna Sif svo besta færi Valskvenna í leiknum. Anna Rakel tók þá aukaspyrnu frá hægri, fann Örnu Sif eina á fjærstönginni en skot hennar af markteig, þar sem hún þurfti að teygja sig í boltann, fór yfir markið.

Leikurinn fjaraði svo út og niðurstaðan sár vonbrigði fyrir Val.

Valur hefur oft leikið betur en í gær en það er ekki þar með sagt að liðið hafi leikið illa.

Tékkneska liðið var einfaldlega skynsamt í sinni nálgun og lokaði á nánast allar leiðir að marki sínu, þá sér í lagi í síðari hálfleik.

Besta færi Vals í leiknum kom eftir fast leikatriði og hefði liðið almennt þurft að nýta sér þau betur.