Vinsældir Ragnar Jónasson hefur selt yfir eina milljón bóka í Frakklandi.
Vinsældir Ragnar Jónasson hefur selt yfir eina milljón bóka í Frakklandi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Íslensku glæpasagnahöfundarnir Arnaldur Indriðason og Ragnar Jónasson eiga tvær af bestu bókum síðustu 50 ára í Frakklandi ef marka má könnun sem hleypt verður af stokkunum þar í landi í dag.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Íslensku glæpasagnahöfundarnir Arnaldur Indriðason og Ragnar Jónasson eiga tvær af bestu bókum síðustu 50 ára í Frakklandi ef marka má könnun sem hleypt verður af stokkunum þar í landi í dag.

Útgáfan Points í Frakklandi sem sérhæfir sig í kiljum og tímaritið Le Point, sem munu vera ótengdir aðilar þrátt fyrir svipuð nöfn, ákváðu að efna til sérstakra verðlauna í tilefni af 50 ára afmæli tímaritsins. Tilnefndar eru átján bækur í þremur flokkum frá þessum tíma: skáldsögur, glæpasögur og bækur almenns efnis. Af sex glæpasögum könnumst við Íslendingar sérstaklega við tvær: Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson og Mýrina eftir Arnald Indriðason. Lesendur tímaritsins munu kjósa milli þessara sex bóka í flokkunum þremur. Í flokki bóka almenns efnis er m.a. að finna Gúlag-eyjarnar eftir Alexander Solzhenitsyn og Where the Crawdads Sing eftir Deliu Owens í flokki skáldsagna svo ljóst má vera að það er ákveðin upphefð fyrir okkar menn að komast á listann.

„Þessi verðlaun eru mjög athyglisverð og höfundarnir sem eru tilnefndir afar ólíkir, þó að slagsíðan sé að sjálfsögðu nokkuð frönsk,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi Ragnars hjá Bjarti/Veröld.

„Í flokki glæpasagna eru lagðar fram bækur eftir Bandaríkjamann, Króata, tvo Frakka og tvo Íslendinga. Það segir sína sögu um stöðu íslenskra glæpasagna í Frakklandi og þá sérstaklega um veg Arnaldar og Ragnars. Arnaldur sló rækilega í gegn með Mýrinni á sínum tíma og hafa vinsældir hans allar götur síðan verið ómældar þar í landi og bækur hans verið þaulsætnar á metsölulistum. Í kjölfarið tóku Frakkar síðan Ragnari Jónassyni opnum örmum. Snjóblinda kom út sumarið 2016 undir nafninu Snjór upp á íslensku. Bækur Ragnars hafa sömuleiðis toppað metsölulista í Frakklandi og í vor var því fagnað í sendiráði Íslands í París að ein milljón eintaka hefði selst af bókum Ragnars í Frakklandi,“ segir Pétur Már.

Bækur Arnaldar hafa um langt árabil notið fádæma vinsælda í Frakklandi og selst í milljónatali. Arnaldur var sæmdur frönsku riddaraorðunni fyrir listir og bókmenntir, Chevalier des Arts et des Lettres, fyrir nokkrum árum.

Þeir Ragnar og Arnaldur keppa ekki við neina aukvisa um þessi frönsku verðlaun. Á listanum eru Jurica Pavicic, króatískur höfundur sem hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir glæpasögur sínar, þar á meðal Rautt vatn , sem tilnefnd er til þessara verðlauna. Jake Adelstein er bandarískur blaðamaður og glæpasagnahöfundur. Tokyo Vice er minningasaga hans frá því að hann var glæpafréttamaður í Japan á tíunda áratugnum, fyrsti vestræni blaðamaðurinn hjá japönsku dagblaði. Franski glæpasagnahöfundurinn Hannelore Cayre er margverðlaunuð fyrir Guðmóðurina sem er tilnefnd til verðlaunanna. Hún var gestur á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík árið 2019. Að síðustu er það svo franski rithöfundurinn Romain Slocombe sem hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir glæpasögur sínar.