Ólafur Jón Ólafsson fæddist 31. mars 1981 á Akranesi. Hann lést 15. september 2022.

Foreldrar Óla Jóns, eins og hann var ætíð kallaður, eru Ólína Sigþóra Björnsdóttir, f. 19.11. 1959, og Ólafur Ingimar Jónsson, f. 9.8. 1957, d. 3.5. 2021.

Unnusta Óla Jóns er Gyða Björg Þórsdóttir, f. 31.1. 1987.

Systkini hans eru Elín, f. 7.11. 1978, Jakob, f. 21.1. 1986, Ólöf Kristín, f. 29.5. 1993, Björn Sigþór, f. 7.6. 1995, Ómar Ari, f. 31.7. 2005, og Justin Leifur, f. 12.4. 2007. Dætur Elínar eru Guðrún Eydís, Hekla Rakel og Heiður Kristín.

Óli Jón ólst upp á Akranesi og í Bandaríkjunum. Hann varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands og stundaði síðar nám í sálfræði. Óli Jón vann fjölbreytt störf í ólíkum geirum. Meðal starfa má nefna iðnaðarvinnu hjá Norðuráli á Grundartanga, hótelstörf á Englandi og þjónustustörf hjá Arion banka. Lengst af starfaði hann þó í velferðarþjónustu. Hann var meðal annars frístundaleiðbeinandi fyrir fötluð börn, ráðgjafi á bráðageðdeild Landspítalans og teymisstjóri á sambýli fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda.

Óli Jón var fróðleiksfús og víðsýnn maður sem hafði áhuga á körfubolta, tölvum, tækjum og tónlist. Áhugi hans á fólki var þó einna einlægastur. Hann hafði einstaka hæfileika til að nálgast fólk og sýna því virðingu og kærleik. Honum gafst vel að veita fólki sem til hans leitaði áheyrn og stuðning og gaf gjarnan ráð úr sínum viskubrunni. Óli Jón tókst sjálfur á við ýmsar áskoranir á lífsleiðinni, en mætti þeim af æðruleysi og auðmýkt.

Útför Óla Jóns fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 29. september 2022, kl. 13.

Elsku fallegi sjarmörinn minn hann Óli Jón litli bróðir minn.

Ég var sú eina sem gat kallað þig litla bróður og mér fannst það svo gaman þegar þú varst hæsti maðurinn í mínu lífi, tveir metrar tæpir. Ég man ekki öðruvísi eftir mér en að eiga þig að, enda tæplega tvö og hálft ár á milli okkar. Ég skil ekki hvernig ég er komin hingað, að skrifa minningargrein um þig, eldklára góðmennið mitt, aðeins rúmu ári eftir að við kvöddum pabba okkar.

Þegar þú varst lítill sást þú mestmegnis um að tala, mér fannst það bara fínt enda varstu alltaf svo skemmtilegur. Þú sást líka um að klára nammið mitt á laugardögum og ég sé þig ennþá fyrir mér að suða í mér að fá nammið mitt því þú varst löngu búinn með þitt. Ég gat sjaldnast neitað þér, enda varstu sætastur. Ævintýrin okkar voru mörg og voru árin okkar í Bandaríkjunum einstök. Við höfðum einstakt lag á að blóta á ensku því það var ekkert alvörunni blót því það var á ensku. Svo vorum við stundum að hlæja að mömmu og pabba fyrir enskuna sína. Við urðum eiginlega fyrst foreldrar þegar litlu systkini okkar, þau Ólöf Kristín og Björn Sigþór, fæddust '93 og '95. Við kepptumst um að fá að vera með þau, svæfa þau og dúllast með þau. Enda sagði mamma alltaf að þau ættu tvær mömmur og tvo pabba.

Þú varst einn helsti stuðningsmaður minn í lífinu, alltaf að segja við mig hvað ég væri klár, dugleg og hvað þú litir mikið upp til mín. Ég fæ mig ekki til að opna skilaboðin frá þér ennþá, það er of sárt. Við áttum svo mörg djúp og löng samtöl á fullorðinsárum og mig vantar svo að fá að tala við þig núna. Þú varst svo klár, góður og tilfinningaríkur maður. Kærleikurinn og góðmennskan skein af þér.

Við fórum saman til að vera hjá pabba í Tékklandi í fyrra hans síðustu daga, sem er tími sem ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa átt með þér. Við ræddum allt, staðfestum einu sinni enn að við borðuðum sama matinn, talan 7 auðvitað besta talan, hugsuðum eins, með sama lífsviðhorf og gildi, þrátt fyrir að vera orðin fullorðin. Þú þakkaðir mér fyrir þennan tíma okkar saman aftur og aftur og eftir hann snerust samtölin okkar svo mikið um þá djúpu sorg sem við vorum að reyna að læra að lifa með eftir að hafa misst pabba. Eins og þú sagðir: „Ella, hann var ekki bara pabbi okkar, hann var besti vinur okkar.“ Þú kunnir svo vel að færa allt í orð. Einn mesti pælari sem ég hef kynnst.

Dætur mínar elskuðu Óla Jón frænda mikið og er sorg þeirra þung. Þegar þær voru litlar skriðu þær alltaf beinustu leið í fangið þitt, enda stórt og mikið fang. Hrifning þín á þeim var ekkert minni. „Ella, þær eru svo fullkomnar allar,“ sagðir þú iðulega.

Ég mun aldrei gleyma því þegar þú hélst svo fast utan um mig á svölunum á hótelinu í Tékklandi þar sem ég hélt að ég væri búin að fela mig grátandi og enginn myndi sjá mig, en þú auðvitað fannst mig og hélst utan um mig. Eina huggunin við þetta allt saman er að núna ertu kominn til pabba. Við erum öll viss um að þið séuð mikið að spjalla með ís við höndina. Elska þig ætíð.

Þín stóra systir,

Elín.

Mágur minn, Óli Jón, lést hinn 15. september langt fyrir aldur fram. Hann var litríkur karakter sem hristi á vissan hátt upp í fjölskyldunni okkar. Hann kom sér alltaf beint að efninu og við áttum mörg djúp og falleg samtöl sem ég er þakklát fyrir í dag. Óli Jón barðist við nokkra innri drauga og lífið var ekki alltaf auðvelt en hann hélt í gleðina og góðmennskuna. Ég kveð hjartans vin og á eftir að sakna hans.

Ingileif Bryndís Þórsdóttir.

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

(Ólöf frá Hlöðum)

Við hittum Óla Jón fyrst fyrir um sjö árum þegar Gyða Björg dóttir okkar kynnti hann fyrir okkur sem kærasta sinn. Það var snemma ljóst að þarna var um einstaka tengingu að ræða. Á þessum árum kynntumst við góðum mannkostum hans alltaf betur og betur og hans fersku sýn á tilveruna.

Hann var viðræðugóður og vel að sér um alls konar málefni og oft um hluti sem voru ekki á vitorði margra. Tæknikunnátta hans var mjög góð, sem okkar heimili naut góðs af. Þá hafði Óli Jón brennandi áhuga á íþróttum, sérstaklega körfubolta og fótbolta. Við höfðum gaman af því að hlusta á fáheyrðar sögur og fróðleik hans um einstaka leikmenn og þjálfara.

Óli Jón var þó sérstaklega áhugasamur um fólk og átti auðvelt með að kynnast samferðamönnum sínum, þar sem hann setti sig inn í líf þeirra og gat hlustað á sögur þeirra. Þegar við ferðuðumst saman hér innanlands og erlendis, þá sagði hann okkur oft frá því hvað bílstjórinn, þjónustustúlkan eða dyravörðurinn á hótelinu voru að fara að gera eða hvað þau voru að glíma við.

12 dagar liðu frá því að fjölskyldan okkar fagnaði brúðkaupi Ingu og Florians í síðustu utanlandsferð okkar til Bayern nú í september, þar til Óli Jón varð bráðkvaddur. Öldur lífsins báru okkur upp í gleði og svo snögglega í öldudal.

Efst er okkur í huga þakklæti fyrir samveruna á liðnum árum, örlæti hans á hrós og uppörvun og hlýtt faðmlag. Eftir stendur minningin um góðan dreng sem yfirgaf þennan heim allt of fljótt.

Við á Lynghaganum kveðjum hann með söknuði og kærleik í hjarta.

Hvíl í friði Óli Jón.

Áslaug og Þór.