Samtök iðnaðarins sendu í gær frá sér afar athyglisverða og vandaða skýrslu um íslenskt efnahags- og samkeppnisumhverfi með 26 tillögum um það sem betur mætti fara svo að frekari árangur náist í að bæta lífskjör í landinu. Auk umfjöllunar um tillögurnar er farið yfir stöðuna í tengslum við komandi kjaraviðræður og þar kemur ýmislegt athyglisvert fram. Samtök iðnaðarins benda á að farsæl niðurstaða nýrra kjarasamninga sé „lykilþáttur í því að ná tökum á verðbólgu og vaxtastigi. Meginmarkmiðið ætti að vera að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði og varðveita þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum, en frá árinu 2012 hefur kaupmáttur launa aukist um 55-57% á sama tíma og kaupmáttur hefur aukist um 2-10% á hinum Norðurlöndunum.“
Þarna munar gríðarlega miklu og það er líka athyglisvert sem bent er á að þrátt fyrir efnahagsáföllin, sem dundu yfir frá gerð síðustu kjarasamninga árið 2019, þá jókst kaupmáttur launa um 8,6% og kaupmáttur lægsta launataxta enn meira, eða um 9,7%.
Þessi mikla kaupmáttaraukning síðastliðinn áratug hefur leitt til þess að laun og tengd gjöld sem hlutfall af landsframleiðslu eru hvergi hærri en hér á landi í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í skýrslunni segir að í fyrra hafi launakostnaður á unna stund verið um 30% hærri hér en að meðaltali í Evrópu og bent er á að samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hafi versnað og sé þung um þessar mundir.
Verulegt áhyggjuefni er að hið opinbera, einkum þó sveitarfélögin, hefur á síðustu árum leitt launaþróunina hér á landi á sama tíma og ríki og sveitarfélög hafa þanið út starfsemi sína. Í skýrslu SI er bent á að á „tíma Lífskjarasamningsins frá mars 2019 hafa laun hjá opinberum starfsmönnum hækkað um 18,7% samanborið við 14% á almenna markaðinum. Á þessum tíma hefur opinberum starfsmönnum líka fjölgað umtalsvert eða um 12% á sama tíma og starfsmönnum á almennum vinnumarkaði fækkaði um 2%.“
Allir hljóta að sjá að þessi þróun getur ekki haldið áfram. Fyrirtæki á almennum markaði leggja grunninn að því með verðmætasköpun sinni að hægt sé að halda úti starfsemi hins opinbera. Það að sífellt fjölgi í hópi opinberra starfsmanna á sama tíma og fækkun verður á almenna markaðnum, samhliða því að laun opinberra starfsmanna séu hækkuð langt umfram það sem almenni markaðurinn ræður við, getur ekki endað nema með ósköpum.
Stjórnvöld, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, verða að taka starfsemi hins opinbera til gagngerrar endurskoðunar. Báknið hefur bersýnilega þanist út langt umfram það sem þjóðfélagið stendur undir til lengri tíma og þessi þróun er veruleg ógn við lífskjör í landinu til lengri tíma.
Um leið og hið opinbera þarf að taka til hjá sér, draga úr umsvifum og fækka verkefnum og starfsfólki, þarf það að bæta aðstæður almennra fyrirtækja. Þar er að mörgu að hyggja líkt og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu, en eitt er að lækka tryggingagjaldið. Í könnun sem SI létu gera meðal fyrirtækja kom fram að lækkun tryggingagjalds er sú aðgerð sem stjórnvöld gætu gripið til sem mundi skipta hvað mestu máli fyrir reksturinn.
Tryggingagjaldið er skattur á launagreiðslur og er mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki og dregur úr möguleikum til launagreiðslna og launahækkana. Tekjur ríkisins af gjaldinu voru innan við 100 milljarðar króna í fyrra en í ár er gert ráð fyrir að gjaldtakan verði komin í 118 milljarða og í 127 milljarða á næsta ári.
Þessi mikla hækkun á því sem tryggingagjaldið skilar ríkissjóði ætti að vera skýr skilaboð um að tímabært sé að ráðast í verulega lækkun þess. Hingað til hafa verið stigin smá skref í þeim efnum en þróun þessara tveggja ára sýnir að nú er þörf á mun myndarlegri aðgerðum. Ríkið telur sig eflaust ekki aflögufært frekar en fyrri daginn, en fyrirtækin í landinu eru það ekki heldur og þau þarf að setja í forgang til að hér sé unnt að halda uppi verðmætasköpun og lífskjörum.