Bílatorgið Mynd tekin á Hlemmi fyrir liðlega hálfri öld. Torgið fullt af bílum og bílatengda starfsemi þar að finna.
Bílatorgið Mynd tekin á Hlemmi fyrir liðlega hálfri öld. Torgið fullt af bílum og bílatengda starfsemi þar að finna. — Ljósmynd/Jón Jónsson ©Ljósmyndasafn Reykjavíkur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Framkvæmdir eru hafnar við að umbreyta nágrenni Hlemmtorgs. Laugavegi hefur verið lokað fyrir bílaumferð á kaflanum frá Hlemmi að Snorrabraut og verður sú lokun til frambúðar.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Framkvæmdir eru hafnar við að umbreyta nágrenni Hlemmtorgs. Laugavegi hefur verið lokað fyrir bílaumferð á kaflanum frá Hlemmi að Snorrabraut og verður sú lokun til frambúðar. Fólksbílar munu því ekki framar aka framhjá Hlemmtorgi, sem í eina tíð var helsta bílatorg Reykjavíkur.

Hjáleið verður um Rauðarárstíg, Grettisgötu og Snorrabraut, fyrir ökumenn sem koma niður Laugaveg og vilja halda akstri áfram niður Laugaveginn í átt að miðbænum.

Á bílabloggi.is, sem er afar öflugur vefur um bíla, hefur Jóhannes Reykdal blaðamaður rifjað upp sögu Hlemms. Hér skulu nokkur atriði nefnd úr sögu Hlemms, með góðfúslegu leyfi Jóhannesar.

Hlemmur var á árum áður áningarstaður í hestaferðum til og frá Reykjavík. Þar var byggð vatnsþró árið 1912. „Þarfasti þjónninn fékk lífsnauðsynlega brynningu í vatnsþrónni á Hlemmi, á sama tíma var arftaki hestsins að taka sér bólfestu við Hlemmtorg sem á skömmum tíma varð miðpunktur bílvæðingar þjóðarinnar með stórfyrirtækin Egil Vilhjálmsson við suðurhlið og Svein Egilsson við vesturhlið Hlemmtorgs,“ segir Jóhannes.

Árið 1919 kom til bæjarins Vestur-Íslendingur, Reykvíkingur sem hafði flutt til Bandaríkjanna árið 1910. Hann hét fullu nafni Sigursveinn Egilsson og var 29 ára gamall. Sigursveinn gekk undir nafninu Sveinn vestra og ætlaði ekki að dveljast lengi á Íslandi í heimsókn sinni. Hann var útskrifaður vélfræðingur frá Chicago og kom brátt í ljós að mikil eftirspurn var að myndast í bænum eftir tækniþekkingu hans. Sveinn afréð að fara ekki aftur utan heldur setjast að í Reykjavík. Fyrirtæki hans varð umsvifamikið í innflutngi bíla og á sviði bílaviðgerða. Það hafði m.a. umboð fyrir Ford-bílana bandarísku.

Bróðir Sveins var Jón Egilsson, aðalbókari og gjaldkeri gasstöðvarinnar við Hlemm. Strax um haustið 1919 sótti Jón, bróðir Sveins, um lóð fyrir steinsteypt einlyft hús. Þetta hús, sem nú heitir Laugavegur 105, var byggt upp í áföngum. Það var fullbyggt 1947, glæsilegt stórhýsi vestan Hlemms, og setur mikinn svip á torgið. Þarna er nú veitingastarfsemi á 1. hæð og til stendur að innrétta íbúðir á efri hæðum.

Tvö öflug bifreiðaumboð

Við suðurhlið Hlemmtorgs fór af stað árið 1932 sambærileg starfsemi og við vesturhlið torgsins. Egill Vilhjálmsson, sem lært hafði bílaviðgerðir í Bandaríkjunum, hóf byggingu fyrsta hluta byggingasamstæðu árið 1932 sem að lokum myndaði samfellda heild frá Rauðarárstíg að Snorrabraut. Árið 1953 lauk fyrirtækið byggingu húss á hornlóðinni Snorrabraut/Laugavegur 114.

Í þessum húsum við Laugaveg eru í dag starfandi verslanir, veitingastaðir og spilakassasalur.

Þannig höfðu þessi tvö bifreiðaumboð um miðja öldina reist tvö af stærstu húsum höfuðborgarinnar, gatna á milli við Hlemmtorg.

Fyrirtækið Egill Vilhjálmsson sá um árabil um smíði yfirbygginga á strætisvögnum bæjarins auk smíði svokallaðra Egilshúsa sem voru aðallega smíðuð á Willys-jeppa, sem Egill flutti inn. Bílasmiðju Egils Vilhjálmssonar við Hlemmtorg mátti um tíma kalla bílaverksmiðju.

Fyrsta ferð hlutafélagsins Strætisvagna Reykjavíkur hf. var farin 31. október árið 1931. Endastöð vagns á leið númer eitt var við vatnsþróna á Hlemmi. Árið 1944 keyptu bæjaryfirvöld hlutafélagið. Hlemmur varð síðan aðaltengistöð strætisvagna um langt árabil og á endanum var byggt þar stórt þjónustuhús, teiknað af Gunnari Hanssyni. Þetta hús nýttist vel fyrir Strætó og farþega vagnanna. Fyrir nokkrum árum var innréttuð mathöll í húsinu og farþegarnir eiga þar ekki lengur skjól.

Stætisvagnar aka enn um Hlemm og munu gera framvegis, þ.e. eftir Hverfisgötunni, og þá sem borgarlínuvagnar.

Loks er þess að geta að leigubílastöðin Hreyfill var með afgreiðslu á Hlemmi um áratuga skeið og þar rak Olíuverslun Íslands (BP) lengi bensínstöð.

Mikil umsvif á Hlemmi

Meðfylgjandi mynd tók Jón Jónsson (1908-1990) frá Þjórsárholti og sýnir hún vel umsvifin á Hlemmi fyrr á árum. Þarna eru tvö bílaumboð, leigubílstöð, bensínstöð og biðstöðvar strætisvagna. Lögregluþjónn stjórnar umferð, líklega í tengslum við umferðarbreytingarnar 26. maí 1968, þegar hægri umferð var tekin upp á Íslandi. Jón Jónsson var flinkur ljósmyndari. Hann starfaði sem leigubílstjóri og var mikill áhugaljósmyndari. Ljósmyndasafn Reykjavíkur varðveitir margar mynda hans.

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að verktakinn við framkvæmdirnar nú, Alma verk ehf., hafi lokað götukaflanum neðan Hlemms. Gangstéttum beggja vegna verður haldið opnum en unnið í götunni til áramóta. Þá verður gert hlé á verkinu. Í apríl 2023 hefst svo vinna aftur og unnið á því svæði þar sem gangstéttirnar liggja. Gangandi og hjólandi geta farið um götuna meðan á því stendur.

Tilboð í verkið voru opnuð í júní sl. Sjö tilboð bárust og innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum 7. júlí 2022 að ganga að tilboði Alma Verks ehf. Það hljóðaði upp á tæpar 190 milljónir, sem var nánast sama upphæð og kostnaðaráætlun verksins.