6. september árið 2013 varð ákveðinn viðsnúningur hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í Bern í Sviss. Ég man ágætlega eftir þessum degi, eða meira leiknum sem fór fram það kvöld. Sviss og Ísland áttust við í undankeppni HM 2014.
6. september árið 2013 varð ákveðinn viðsnúningur hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í Bern í Sviss. Ég man ágætlega eftir þessum degi, eða meira leiknum sem fór fram það kvöld. Sviss og Ísland áttust við í undankeppni HM 2014. Ísland komst yfir í leiknum með marki frá Jóhanni Berg Guðmundssyni strax á 3. mínútu en Svissararnir voru fljótir að jafna metin og eftir 54 mínútna leik var staðan orðin 4:1 fyrir Sviss.

Íslenska liðið minnkaði muninn í 2:4, 3:4 og loks 4:4 þegar Jóhann Berg jafnaði metin í uppbótartíma en títtnefndur Jóhann Berg skoraði þrennu í leiknum. Fram að leiknum gegn Sviss hafði liðið hálfpartinn unnið og tapað til skiptis en eftir jafnteflið í Bern virtist koma ákveðinn stöðugleiki í íslenska liðið. Jöfnunarmark Mikaels Andersonar á þriðjudaginn gegn Albaníu í Tirana minnti mig aðeins á jöfnunarmark Jóhanns Berg.

Það er orðið ansi langt síðan maður sá leikmenn íslenska karlalandsliðsins fagna marki jafn innilega og þeir gerðu á þriðjudaginn. Hvort þetta mark verði jafn sögulegt og markið hans Jóhanns Berg var, þarf svo bara að koma í ljós en karlalandsliðið er allavega ósigrað í síðustu sex leikjum sínum sem er ágætis afrek. „Arnar Þór Viðarsson er að smíða vél“ sagði einhver eftir leikinn í Tirana.

Það hefur verið ákveðinn mótvindur hjá íslenska liðinu síðan Arnar Þór tók við en núna virðist loksins vera smá meðvindur. Það voru allavega klár batamerki á spilamennsku liðsins gegn Albaníu og maður gerir sér vonir um það, þegar liðið verður „fullmannað“ á nýjan leik, að hagstæð úrslit gætu farið að detta í hús.