Þingsetning Þingið fer fram á Akureyri og stendur yfir í þrjá daga. Seturétt eiga 152 fulltrúi frá 63 sveitarfélögum.
Þingsetning Þingið fer fram á Akureyri og stendur yfir í þrjá daga. Seturétt eiga 152 fulltrúi frá 63 sveitarfélögum. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Miklar breytingar hafa orðið á verkefnum sveitarfélaga og kröfum sem gerðar eru til kjörinna fulltrúa og starfsmanna á síðustu árum og áratugum. Halldór Halldórsson, fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að enginn geti sagt annað en að þessu hafi fylgt aukið álag á kjörna fulltrúa. Hann telur að það eigi ekki að leiða sjálfkrafa til fjölgunar fulltrúa.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Miklar breytingar hafa orðið á verkefnum sveitarfélaga og kröfum sem gerðar eru til kjörinna fulltrúa og starfsmanna á síðustu árum og áratugum. Halldór Halldórsson, fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að enginn geti sagt annað en að þessu hafi fylgt aukið álag á kjörna fulltrúa. Hann telur að það eigi ekki að leiða sjálfkrafa til fjölgunar fulltrúa.

Fram kemur í skýrslu verkefnisstjórnar um vinnuaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum að álag á fulltrúa hafi farið vaxandi á síðustu árum. Er það rakið til aukinnar ábyrgðar sveitarfélaganna á opinberri þjónustu og eftirliti af ýmsu tagi, ásamt auknum kröfum íbúa til starfseminnar. Kemur þetta ekki síst fram í minni sveitarfélögum. Meðal úrbóta sem verkefnisstjórnin leggur til er að skoðað verði hvort ástæða sé til að rýmka reglur laga um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum í þeim tilgangi að draga úr álagi.

Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, þekkir þróun mála í nærri þrjá áratugi eða frá því hann tók sæti í bæjarstjórn Grindavíkur á árinu 1994 en hann hætti sem borgarfulltrúi í Reykjavík 2018. Hann segir að miklar breytingar hafi orðið á þessum tíma. Nefnir hann auknar kröfur í nýjum sveitarstjórnarlögum, strangari kröfur um fjármál, stjórnsýslu- og upplýsingalög sem höfðu áhrif á stjórnsýslu sveitarfélaga og ný skipulags- og byggingalög. Umfangið hafi aukist með yfirfærslu grunnskólans og málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. „Allir ferlar eru miklu flóknari og taka lengri tíma en áður var,“ segir Halldór.

Fram kemur í lokadrögum að skýrslu um tekjustofna sveitarfélaga sem fjallað er um á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga þessa dagana að umfang sveitarstjórnarstigsins er minna á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu en annars staðar á Norðurlöndum.

Á hlaupum um bæinn

Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar í Árborg, kannast við aukið álag. „Bæjarfulltrúi sem tekur þátt í bæjarlífinu, fer í sund og er virkur þátttakandi í menningarlífinu finnur vel þessa miklu nálægð við íbúana. Auk þess vinn ég á rakarastofu þar sem allir eru velkomnir. Ég er því beintengdur við fólkið og vinnustaður minn sem bæjarfulltrúi er á hlaupum um bæinn,“ segir Kjartan. Hann tekur fram að þetta kunni að vera misjafnt á milli fólks, hvað það setji sig mikið inn í málin og vilji leggja mikið á sig.

Segir hann að álagið sé ef til vill meira í Árborg en víða annars staðar vegna hins mikla vaxtar í bæjarfélaginu. Kjartan segir ekki gott að bæjarfulltrúar þurfi að svara símtölum og tölvupóstum heima hjá sér á kvöldin. Ekki sé pláss í ráðhúsinu til að útbúa vinnuaðstöðu fyrir bæjarfulltrúa. Þess vegna hafi verið gengið til samninga um aðstöðu í fjarvinnustofu þar sem bæjarfulltrúar geti unnið og haldið fundi. Gerir hann sér vonir um að það geri starfið skilvirkara.

Laun bæjarfulltrúa í Árborg voru hækkuð í lok síðasta kjörtímabils til þess að bæjarfulltrúar geti notað hluta af dagvinnutíma sínum í þágu bæjarins. Segir Kjartan ekki vanþörf á því. Sjálfur sé hann nú í burtu í tólf daga á einum mánuði vegna funda.

Borgarfulltrúarnir í Reykjavík eru einu kjörnu fulltrúarnir sem eru í fullu starfi og á launum samkvæmt því. Komið hefur fram að svo er ekki endilega í höfuðborgum hinna norrænu landanna. Þannig eru ekki allir borgarfulltrúar í Kaupmannahöfn í fullu starfi.

Halldór Halldórsson segir að sú aðgerð að setja bæjar- eða borgarfulltrúa í fullt starf sé ekki endilega svarið við auknum verkefnum sveitarfélaga. „Ég hef aldrei verið mikið fyrir það því ég tel að gott sé að hafa fólk úr atvinnulífinu í bæjarstjórninni,“ segir hann.

Fulltrúum fjölgar

Með nýjum sveitarstjórnarlögum frá árinu 2011 breyttust viðmið um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Tilgangurinn var fyrst og fremst að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 23. Það var rökstutt með því að í raun væri hluti varamanna í borgarstjórn virkur sem borgarfulltrúar. Þeir hefðu ríka aðkomu að stjórnun borgarinnar. Miðað við íbúafjölda í Reykjavík skulu vera þar 23-31 aðalmenn. Borgarstjórn samþykkti að talan yrði 23 og tók það gildi við kosningarnar 2018.

Áður en ákvæðið kom til framkvæmda voru flutt frumvörp á Alþingi um að afnema þá lagaskyldu að fjölga skuli borgarfulltrúum í 23 heldur yrði það aftur fært í hendur borgarstjórnar sjálfrar að ákveða hvort þörf væri á fjölgun. Frumvörpin voru svæfð í nefnd.

Lögin hafa einnig haft þau áhrif að þurft hefur að fjölga fulltrúum í bæjarstjórnum nokkurra stórra sveitarfélaga, þar sem íbúum hefur verið að fjölga. Fjölgað hefur verið í bæjarstjórnum Garðabæjar, Vestmannaeyja, Mosfellsbæjar og Árborgar úr níu fulltrúum í ellefu. Í Árborg ákvað bæjarstjórn að nýta sér ekki frest til ársins 2026 heldur samþykkti að fjölgunin tæki gildi við síðustu kosningar.

Segir fulltrúa ríkisins hafa skilað auðu

Aldís Hafsteinsdóttir, fráfarandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fjallaði, við setningu landsþings sambandsins í gær, um mikilvægi þess að tryggja sveitarfélögum aukna tekjustofna. Hún gagnrýndi ríkið sem hún sagði ekki hafa skilað tillögum í Tekjustofnanefnd sveitarfélaga og ríkisins. Nefndin hefur skilað af sér drögum að lokaskýrslu. Fulltrúar ríkisins í nefndinni hafi skilað auðu. „Einu tillögurnar í skýrslunni eru frá fulltrúum sambandsins. Þær eru vel rökstuddar, fjölbreyttar og nákvæmlega útfærðar. Hluti þeirra fjallar að sjálfsögðu um að ríkið auki fjárframlög til þjónustu við fatlað fólk um meira en 10 milljarða,“ sagði hún. Nú verði ríkisstjórnin og Alþingi að taka á málinu.

omfr@mbl.is