Árni Sigurðsson skrifar á Boðnarmjöð: „Afar góð vinátta var með þeim Jóni Ingvari og sr. Hjálmari Jónssyni, fyrrv. dómkirkjupresti, og ortu þeir mikið hvor til annars. Líkt og margir muna þá fékk Hjálmar hastarlega fyrir hjartað fyrir nokkrum...

Árni Sigurðsson skrifar á Boðnarmjöð: „Afar góð vinátta var með þeim Jóni Ingvari og sr. Hjálmari Jónssyni, fyrrv. dómkirkjupresti, og ortu þeir mikið hvor til annars. Líkt og margir muna þá fékk Hjálmar hastarlega fyrir hjartað fyrir nokkrum árum. Jón Ingvar sendi honum þessa hjartastyrkjandi vísu:

Hjálmar má þola hremmingu stranga

og heilsufarsbresti.

Drottinn minn láttu nú dæluna ganga

Í Dómkirkjupresti.

En nokkru seinna fékk Hjálmar svo blóðtappa. Jón vitjaði vinar í stað:

Hjálmar er traustur og heiðurskarl mesti

og hefur það sannað.

Drottinn minn taktu nú tappann úr presti

og trodd' onum annað.“

Þetta var góður texti og góð upprifjun.

Hjálmar orti á leið til útlanda og að vanda var bréfsefnið það nærtækasta:

Þegar búið er lestum að loka

og láta af stressi og hroka

er mín uppáhaldsiðja,

fyrir utan að biðja,

að yrkja á ælupoka.

Hjálmar var á norðurleið og orti þegar hann sá norður af:

Á Holtavörðuheiði syng

og hef ei neins að sakna.

Horfi ég yfir Húnaþing

og hendingarnar vakna.

Hjálmar segist muna eftir því þegar fjölmiðlamarkaðurinn var sem fjölskrúðugastur að dögum oftar birtust nýjar skoðanakannanir á fylgi flokkanna. Einhvern tíma á óróatíð fyrir kosningar:

Könnun eða beinskeytt boðun

bítur og særir auma kviku.

Margir hafa skipt um skoðun

og skipta aftur í næstu viku.

Ingólfur Ómar Ármannsson horfir bjartsýnn til annars heims:

Af syndum mínum segir fátt

síst mér neitað getur.

Hliðið eflaust upp á gátt

opnar Lykla-Pétur.

Magnús Halldórsson er ráðagóður:

Gakktu hratt um Gullna-hlið,

gleði fasi brýndur.

En láttu finna lásasmið,

ef lykillinn er týndur.

Tryggvi Jónsson heldur áfram:

Trúin þín er traust og fín

ég trúi að Lykla-Pétur

ef að birtist ævi þín

opn'ann hliðið betur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is