Sjálfboðaliðar Guðni Th. Jóhannesson heilsaði upp á öflugt prjónafólk sem tekið hefur til hendinni.
Sjálfboðaliðar Guðni Th. Jóhannesson heilsaði upp á öflugt prjónafólk sem tekið hefur til hendinni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Síðdegis í gær tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hús á rúmlega þrjátíu prjónakonum sem hafa undanfarið setið við og prjónað ullarsokka sem sendir verða á vígstöðvar í Úkraínu í lok október. Prjónakonurnar komu saman í félagsmiðstöð eldri borgara í Gjábakka í Kópavogi.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Síðdegis í gær tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hús á rúmlega þrjátíu prjónakonum sem hafa undanfarið setið við og prjónað ullarsokka sem sendir verða á vígstöðvar í Úkraínu í lok október. Prjónakonurnar komu saman í félagsmiðstöð eldri borgara í Gjábakka í Kópavogi.

Þær eru þátttakendur í verkefninu Sendum hlýju frá Íslandi sem er átaksverkefni sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur og miðast að því að prjóna sokka úr íslenskri ull á hermenn í Úkraínu.

„Verkefnið fór af stað í byrjun september að lokinni fyrstu smölun og stendur yfir þar til í lok október,“ segir Heiðrún Hauksdóttir, prjónakona og sjálfboðaliði í Sendum hlýju frá Íslandi.

„Það er dálítið erfitt að segja til um hversu margir prjónararnir eru og sama má segja um fjölda sokkapara akkúrat núna, en þeir eru að byrja að tínast í móttökukassana sem hafa verið settir upp víðs vegar um landið, í verslunum Samkaupa, Krónunnar og N1, og verður forvitnilegt að sjá fjöldann þegar kössum verður skilað inn.“

Á heimasíðu verkefnisins, sendumhlyju.is, geta prjónarar skráð sig til leiks og eru nú 155 þátttakendur skráðir. Það er þó engin skylda að skrá sig og því ekki ólíklegt að fleiri prjónaglaðir þátttakendur leynist úti í samfélaginu.

Hvert sokkapar skiptir máli

„Fjöldinn allur af prjónafólki hefur sýnt verkefninu áhuga og tekið til hendinni, bæði þaulvön og ekki síður þau sem sjaldnar hafa tekið upp prjónana, enda má segja að prjónaskapur sé ákveðið þjóðarsport okkar Íslendinga,“ segir Heiðrún.

„Við þekkjum líka vel gæði íslensku ullarinnar, hún hefur haldið á okkur hita í gegnum ansi krefjandi tíma og við vitum að sokkarnir koma sér vel á vígstöðvum, þar sem frost getur farið allt niður í 30 stig.

Hvert einasta sokkapar skiptir máli og það skiptir líka máli að með þessu erum við ekki aðeins að senda hlýju til Úkraínu í formi ullarleistanna sjálfra, heldur einnig í formi þess að hér á Íslandi, lengst í burtu frá þessum skelfilegu aðstæðum, er fjöldi fólks sem lætur sig málefni fólksins á svæðinu varða og vill sýna stuðning. Við finnum vel fyrir þessum stuðningi og velvilja hérna heima og við prjónarar sem höfum verið að hvetja fleiri til að vera með höfum alls staðar fengið frábær viðbrögð og finnum að fólk virkilega vill leggja verkefninu lið.“