Segulsvið Ýsuseiði, sem notuð voru í rannsókn á áhrifum segulsviðs raflína á hreyfingu þeirra, fengust skammt frá rannsóknastöð á Austevoll í Noregi.
Segulsvið Ýsuseiði, sem notuð voru í rannsókn á áhrifum segulsviðs raflína á hreyfingu þeirra, fengust skammt frá rannsóknastöð á Austevoll í Noregi. — Ljósmynd/Havforskningsinstitutt
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Segulsvið raflína í sjó hefur áhrif á áttaskyn ýsuseiða og dregur úr hreyfingu þeirra. Þetta getur um sinn haft áhrif á lífslíkur þeirra.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Segulsvið raflína í sjó hefur áhrif á áttaskyn ýsuseiða og dregur úr hreyfingu þeirra. Þetta getur um sinn haft áhrif á lífslíkur þeirra. Þetta er niðurstaða vísindamanna hjá norsku hafrannsóknastofnunni, Havforskningsinstituttet.

Undanfarið hefur stofnunin gert rannsóknir á áhrifum af uppbyggingu og rekstri vindorkuvera til hafs á lífríki sjávar, sem hluti af umfangsmiklu rannsóknarverkefni. Þar í landi eru uppi umfangsmikil áform um uppbyggingu slíkrar orkuframleiðslu. „Vindorkuver á hafi úti og önnur orkumannvirki til hafs eru tengd háspennustrengjum sem framleiða segulsvið. Þetta getur haft áhrif á fiska sem synda eða rekur nálægt – sérstaklega seiði sem hafa minni getu til að synda í burtu frá strengjunum,“ segir í grein sem birt hefur verið á vef stofnunarinnar.

Nýleg rannsókn undir stjórn Alessandro Cresci, vísindamanns hjá Havforskningsinstituttet, miðaði sérstaklega að því að meta áhrifin á ýsuseiði, en ýsan er mikilvægur nytjastofn við Noregsstrendur líkt og við Ísland. „Við vildum kanna hvort þau seiði sem rekur á svæði þar sem vindmyllur eru fyrirhugaðar gætu orðið fyrir áhrifum af segulsviðum af sama styrk og þeim sem myndast af sæstrengjum sem tengja hverflana saman,“ segir Cresci í greininni.

Sund háð áttavita

Tilraun var gerð þar sem ýsuseiði voru látin reka eða synda framhjá raflínu í sjó, í sérstökum tanki á tilraunastofu. „Að verða fyrir segulsviði minnkaði sundvirkni meirihluta ýsuseiðanna um meira en helming. Það dró einnig verulega úr hröðun þeirra. Slík minnkun á sundvirkni getur haft áhrif á útbreiðslu og lífslíkur seiðanna í náttúrunni,“ útskýrir Cresci.

Í fyrri rannsóknum hefur hann ásamt samstarfsfólki sínu sýnt fram á að ýsuseiði rekur ekki bara í hafstraumum, heldur synda þau til norðvesturs eftir innbyrðis segulstýrðum áttavita. Sund seiðanna hefur áhrif á það hvert þau rata eftir hrygningu. Ef hægt er á sundvirkninni með sæstrengjum getur það því haft áhrif á útbreiðslu seiðanna og dregið úr lífslíkum þeirra, að því er fram kemur í greininni.

„Niðurstöður okkar veita nokkrar af fyrstu vísbendingum um hugsanleg vistfræðileg áhrif af þróun vindorkuvera til hafs. Þessa tegund rannsókna ber að hafa í huga þegar hugað er að því hvað frekari þróun gæti þýtt fyrir lífríkið í sjónum,“ segir Cresci.

Engin áhrif á sandsíli

Fyrr á árinu sagt frá niðurstöðum úr rannsókn á áhrifum segulsviðs raflína á sandsílaseiði, en Cresci leiddi einnig þá rannsókn. Með tilraunum komust vísindamenn að því að segulsvið háspennustrengja laðar hvorki að né hrindir frá sér sandsílaseiði. Segulsviðið hefur heldur ekki áhrif á sundhegðun þeirra.

Vísindagreinar hafa verið birtar vegna beggja rannsókna, annars vegar í Marine Environmental Research um sandsílin og PNAS Nexus vegna ýsuseiðanna.