Fótboltinn
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Yfirstandandi tímabil hjá karlaliði Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu hefur verið einstakt hvað leikjafjölda á einu tímabili varðar. Óhætt er að fullyrða að ekkert íslenskt lið muni hafa leikið jafn marga keppnisleiki á einu tímabili, en þegar tímabilinu lýkur verður Víkingur búinn að spila alls 41 leik í öllum keppnum frá 10. apríl til loka október.
„Þetta hefur bara verið mjög skemmtilegt heilt yfir. Ég held að allir séu svolítið ánægðir, að það sé enginn ósáttur við að hafa fleiri leiki. Ég held að það sé bara því fleiri leikir, því betra. Þetta tímabil hefur verið forréttindi, að fá að taka þátt í Evrópukeppni og á öllum vígstöðvum,“ sagði Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings, í samtali við Morgunblaðið.
Sjálfur hefur hann leikið alla leiki liðsins á tímabilinu nema einn til þessa, alls 34 leiki af 35, og þeim leik í Bestu deildinni missti Júlíus af vegna leikbanns sem hann var úrskurðaður í eftir að hafa fengið fjórar áminningar. Vegna þessa mikla leikjaálags segir Júlíus að endurheimt hafi gjarna verið í fyrirrúmi á æfingum hjá Víkingum.
„Það hefur svolítið verið sú uppskrift í sumar. Maður hefur verið að spila og síðan hefur verið endurheimt næstum því fram að næsta leik. Það hefur ekki verið oft sem við höfum verið að æfa af fullum krafti eins og við viljum. En að sama skapi förum við af fullum krafti í leikina og lærum af reynslunni, það er bara skemmtilegra upp á það að gera,“ útskýrði hann.
Vantar ekki mikið upp á
Stór hluti af því aukna leikjaálagi sem Víkingur stóð frammi fyrir á tímabilinu kom til vegna Evrópuævintýris, þar sem liðið lék alls átta leiki í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, þá undankeppni hennar og loks undankeppni Sambandsdeildar UEFA. Árangurinn var afar góður þar sem liðið vann fjóra leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur leikjum. Þar á meðal var grátlegt tap í framlengdum leik gegn Lech Poznan í Póllandi þar sem Víkingur var nálægt því að komast í umspil fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.Hvað vantar upp á til þess að íslensk lið nái loks að taka það skref að komast í riðlakeppni í Evrópukeppni?
„Ég held að það hafi sýnt sig í ár að það vantar ekki mikið upp á. Ég ætla ekki að segja að við og Breiðablik höfum verið hársbreidd frá því að komast í riðlakeppni en við vorum ekki svo langt frá því. Við vorum einum leik frá því að fara í umspil þannig að það þarf klárlega ekki mikið.
Ég get ekki komið með eitt fullkomið svar við því hvað það er sem vantar en að sama skapi þarf bara hársbreidd hér og þar. Það þarf kannski smá heppni líka, það verður eitthvað að falla fyrir liðin eða hvernig sem það er, eins og gerðist kannski með Stjörnuna fyrir nokkrum árum. Maður þarf kannski líka eitthvað svoleiðis. Að sama skapi er hægt að byggja á þessum árangri og nýta hann sem eldsneyti fyrir næsta ár,“ sagði Júlíus.
Gátum alltaf mannað hópinn
Fyrir tímabilið styrkti Víkingur liðið með því að fá til sín sex leikmenn og ekki var vanþörf á því þar sem sex leikmenn höfðu horfið á braut. Um mitt sumar var Kristall Máni Ingason svo seldur til Rosenborg og Danijel Dejan Djuric var fenginn í staðinn.Júlíus sagði það mikilvægt að vera með sem breiðastan hóp þegar leikið er í mörgum keppnum. „Ég held að það hafi alveg skilað sér í sumar að vera með stóran hóp og að það sé bara lífsnauðsynlegt fyrir svona félög sem eru að spila á mörgum vígstöðvum.“
Fyrir um 5-6 vikum var hins vegar farið að þynnast nokkuð í hópnum vegna meiðsla. „Svona getur gerst en við vorum kannski fullóheppnir með meiðsli og höfum verið það síðustu vikur, eins og þegar tveir bakverðir meiddust í sama leiknum og gátu ekki spilað næsta leik,“ bætti hann við.
„Það er náttúrlega ekki beint venjuleg staða en þetta getur alltaf gerst þegar maður er með svona marga leiki. Það þarf bara að undirbúa sig fyrir tímabilið eins og við gerðum. Við lentum aldrei í því að geta ekki mannað hópinn, við vorum alltaf með ferska menn á bekknum.
En auðvitað fer það eftir þessu leikjaálagi hvernig liðið síðan stendur eftir það. Ég held að við höfum gert vel í því að rótera liðinu og ná mönnum, sem fengu kannski ekki sénsinn fyrst en fengu svo að sýna sig, í takt við liðið og það hefur skinið í gegn. Þeir hafa sprungið út á síðustu vikum og nýtt tækifærin,“ sagði Júlíus einnig.
Gott að fá smá andrými
Þó að Víkingar vilji spila sem flesta leiki sagði hann það vissulega kærkomið að hafa fengið smá hlé í landsleikjaglugganum sem lauk í vikunni.„Ég held að í svona fríum frá leikjum fáirðu alltaf fínt súrefni. Upp á næstu vikur er það bara fínt þannig séð, að ná endurheimt og geta æft af góðum krafti. Að geta núllstillt sig úr deildinni yfir í bikarinn og síðan aftur yfir í deildina. Það er bara mjög gott að fá smá andrými.“
Júlíus minntist á bikarinn, en Víkingur er á leið í sinn þriðja bikarúrslitaleik í röð þegar liðið mætir FH í úrslitum Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli á laugardag. Að honum loknum taka við fimm leikir í efri hluta Bestu deildarinnar, þar sem sex efstu lið hennar mætast innbyrðis í októbermánuði.
„Það er bara tilhlökkun held ég. Eftir að hafa spilað svona marga leiki í röð fær maður kannski smá andrými á milli leikja núna og getur svolítið stillt sig af fyrir hvern leik fyrir sig. Það er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir síðustu leikina sem eftir eru,“ sagði hann um leikina sex sem eru eftir á löngu tímabili.
Verður algjör aumingjavæðing
Í deildinni eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Víkings í öðru sæti sem stendur, átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks. Spurður hvernig hann mæti möguleika Víkinga á að skáka Blikum sagði Júlíus að lokum:„Við verðum bara að taka einn leik fyrir í einu og setja vonandi einhverja pressu á þá vegna þess að það er ekki auðvelt að vera að elta allt sumarið og mega ekki misstíga sig.
Við verðum bara að leggja allt í sölurnar, gefa allt í þetta. Við megum ekki sýna nein veikleikamerki, það má enginn gefast upp því þetta verður algjör aumingjavæðing ef svo fer. Það þarf að stilla sig af fyrir hvern einasta leik sem eftir er.“
Tímabilið 2022 hjá Víkingum
APRÍL (4) : Meistarakeppnin og þrír leikir í Bestu deildinni.MAÍ (7) : Sex leikir í Bestu deildinni og einn í Mjólkurbikarnum.
JÚNÍ (4) : Tveir Evrópuleikir, einn leikur í Bestu deildinni og einn í Mjólkurbikarnum.
JÚLÍ (8) : Fjórir leikir í Bestu deildinni og fjórir Evrópuleikir.
ÁGÚST (8) : Fjórir leikir í Bestu deildinni, tveir Evrópuleikir og tveir í Mjólkurbikarnum.
SEPTEMBER (4) : Fjórir leikir í Bestu deildinni.
OKTÓBER (6) : Bikarúrslitaleikurinn og fimm leikir í Bestu deildinni.
Samtals 41 leikur á 202 dögum frá 10. apríl til 29. október.