Harðarmenn frá Ísafirði, sem leika í fyrsta sinn í úrvalsdeild karla í handknattleik í vetur, hafa fengið til liðs við sig tvo brasilíska leikmenn til viðbótar.

Harðarmenn frá Ísafirði, sem leika í fyrsta sinn í úrvalsdeild karla í handknattleik í vetur, hafa fengið til liðs við sig tvo brasilíska leikmenn til viðbótar. Þeir sömdu fyrr í vikunni við Jonathan Dos Santos og í dag tilkynntu Ísfirðingar komu tveggja landa hans til félagsins.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Guilherme De Andrade, 21 árs rétthent skytta, sem kemur frá Nacional Handebol í Brasilíu en hann hefur verið fastamaður í U21-árs landsliði þjóðarinnar. Þá hefur hann einnig spilað með U23-ára landsliðinu. Jose Esteves Lopes Neto er svo örvhentur leikmaður sem kemur frá Corinthians Guarulhos og leikur með U23-ára landsliði Brasilíu. Lið þeirra mættust á dögunum í úrslitaleikjum um brasilíska meistaratitilinn þar sem Guilherme og félagar í Nacional höfðu betur.

Hörður hefur leikið tvo leiki í deildinni og tapað báðum, gegn Val og KA, og mætir ÍR í nýliðaslag í Breiðholtinu annað kvöld.