Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 650 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í samræmi við tillögur stjórnar sjóðsins. Fram kemur í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins að hæstu framlögin renni til hjúkrunarheimila Sjómannadagsráðs, alls um 250 milljónir króna til 14 mismunandi verkefna. „Þar af vega þyngst úrbætur á Hraunvangi í Hafnarfirði þar sem m.a. verða gerðar endurbætur á 50 baðherbergjum í einkarýmum íbúa. Einnig verður þar ráðist í innleiðingu nýjungar sem felur í sér hæðarstillanleg salerni og handlaugar og færanleg sturtusett sem auðveldar íbúum að sinna persónulegu hreinlæti og bætir vinnuaðstöðu starfsfólks.“
Styrkir eru veittir til endurbóta- og viðhaldsverkefna á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið. Fær Sveitarfélagið Ölfus tæpar 29 milljónir vegna framkvæmda við nýja dagdvöl fyrir 16 einstaklinga.