Ferna Fern bókmenntaverðlaun verða veitt á Bessastöðum á nýju ári.
Ferna Fern bókmenntaverðlaun verða veitt á Bessastöðum á nýju ári. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég er mjög spenntur fyrir þessari breytingu og finnst hún afar áhugaverð.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég er mjög spenntur fyrir þessari breytingu og finnst hún afar áhugaverð. Þessi breyting gerir glæpasögunni hærra undir höfði, sem er góð hvatning fyrir bæði höfunda og útgefendur,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda (Fíbút), en félagið hyggst í samstarfi við Hið íslenska glæpafélag stofna til nýrra bókmenntaverðlauna samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum, sem nefnast Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn.

„Þetta mun lyfta glæpasögunni á hærri stall, skapa meiri umræðu um um hana, auk þess sem milljón króna verðlaunafé er upphæð sem enginn glæpón slær hendinni við,“ segir Ævar Örn Jósepsson, foringi Hins íslenska glæpafélags. Tillaga stjórnar félagsins um breytt fyrirkomulag Blóðdropans var samþykkt á félagsfundi fyrr í vikunni og samþykktum félagsins breytt í samræmi við það. Ævar nefnir sem dæmi að í stað þess að allar glæpasögur séu sjálfkrafa gjaldgengar til verðlaunanna þurfi útgefendur að leggja bækur formlega fram og greiða með hverri bók.

Svar við ákveðinni gagnrýni

Að sögn þeirra Heiðars og Ævars á breytingin sér langan aðdraganda. Fara þeir ekki dult með það að hún sé ákveðið svar við þeirri gagnrýni að glæpasögur hafi í gegnum tíðina átt erfitt uppdráttar í flokki skáldverka. „Aðeins tvær glæpasögur hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í gegnum tíðina og engin unnið. Ég leyfi mér að stórefa að þetta gefi rétta mynd af gæðum íslenskra glæpasagna,“ segir Ævar.

Breytingin á verðlaununum felur í sér að Fíbút mun bera ábyrgð á framkvæmd, fyrirkomulagi og skipulagi verðlaunanna með sama hætti og varðandi Íslensku bókmenntaverðlaunin. Tilnefndar verða fimm bækur í þessum nýju verðlaunum, sem kynntar eru með sama hætti og á sama tíma og Íslensku bókmenntaverðlaunin eða með athöfn á Kjarvalsstöðum 1. desember og forseti Íslands veitir svo verðlaunin á Bessastöðum í lok janúar. „Með þessari breytingu ættu glæpasögur líka að fá meiri athygli lesenda í aðdraganda jólabókaflóðsins, sem er jákvætt,“ segir Heiðar og tekur fram að vinningshafi nýju verðlaunanna muni fá eina milljón króna í verðlaunafé. „Sem er sama upphæð og í hverjum flokki Íslensku bókmenntaverðlaunanna,“ segir Heiðar og tekur fram að verðlaunin séu kostuð af Fíbút, en tilnefningargjald er tekið fyrir hverja framlagða bók.

„Í gegnum tíðina hefur bókin sem unnið hefur Blóðdropann verið framlag Íslands til Glerlykilsins, en framvegis mun bókin sem vinnur þessi nýju verðlaun verða framlag Íslands þar,“ segir Ævar, en Glerlykillinn eru samnorræn glæpasagnaverðlaun. Þeir Heiðar eru sammála um mikilvægi þess að halda sterkum tengslum við samnorrænu verðlaunin sem Hið íslenska glæpafélag á í gegnum systursamtök sín á Norðurlöndum.

Auglýst eftir fólki í dómnefnd

Í samkomulagi Félags íslenskra bókaútgefanda og Hins íslenska glæpafélags er gert ráð fyrir að þriggja manna dómnefnd tilnefni bækur til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans. Fíbút auglýsir þegar í stað eftir áhugasömu fólki á ólíkum aldri með fjölbreyttan bakgrunn og menntun auk mikils tíma til lesturs til að taka tvö sæti af þremur, en þriðja sætið er skipað fulltrúa sem valinn er af Hinu íslenska glæpafélagi sem jafnframt verður einn þriggja fulltrúa Íslands í samnorrænni dómnefnd sem velur þá bók sem vinnur Glerlykillinn á hverju ári. „Enda mikilvægt fyrir okkar félag að hafa aðkomu að hvorum tveggja verðlaunum,“ segir Ævar.

Að sögn Heiðars er ráðgert að formaður dómnefndar Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans verði jafnframt fulltrúi í sameiginlegri lokadómnefnd sem velur vinningsbókina í þessum verðlaunum ásamt formönnum þeirra þriggja flokka sem nú eru innan Íslensku bókmenntaverðlaunanna, þ.e.a.s í flokki skáldverka, flokki fræðibóka og rita almenns efni og í flokki barna- og ungmennabóka. „Lokadómnefndin verður þá skipuð þessum fjórum formönnum ásamt fimmta fulltrúanum sem forseti Íslands tilnefnir, en hann er jafnframt formaður,“ segir Heiðar.

Þau sem hefðu áhuga á að taka sæti í dómnefnd Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans geta fyllt út umsóknareyðublað sem má finna á vefnum fibut.is. Greitt er fyrir nefndarsetuna auk þess sem nefndarmeðlimir fá allar framlagðar bækur í sínum flokki til eignar. Umsóknarfrestur er til og með 9. október og starfstímabilið frá 15. október til 1. desember 2022. Fíbút horfir til 2. kafla, 3. gr. stjórnsýslulaga varðandi hæfi dómnefndarfólks sem tengist höfundum eða útgefendum framlagðra verka.