Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Uppbygging malasíska athafnamannsins Loos Eng Wah á ferðaþjónustu á Leyni 2 og 3 í Landsveit er enn á ný komin á ís. Skipulagsstofnun sendi frá sér endurskoðaða ákvörðun í júní um mat á því hvort uppbygging hans þyrfti að fara í umhverfismat. Niðurstaðan var að ekki þyrfti umhverfismat. Nágrannar Loos, sem hafa barist gegn uppbyggingunni, kærðu þessa endurskoðuðu ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og nú er niðurstöðu hennar beðið.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá hefur Loo síðustu þrjú ár unnið að uppbyggingu á svæðinu. Þar á að reisa allt að 200 fermetra þjónustuhús fyrir tjaldsvæði, allt að 800 fermetra byggingu fyrir veitingastað, verslun, móttöku og fleira og allt að 45 gestahús á einni hæð, sum þeirra 60 fermetra að stærð og kúluhús við hvert og eitt.
Þetta eru síður en svo einu áform Loos um uppbyggingu ferðaþjónustu í Rangárþingi ytra. Framkvæmdir eru þegar hafnar við byggingu fjölorku- og þvottastöðvar á Faxaflötum sem er rétt sunnan við Suðurlandsveg, austan við Stracta-hótelið. Þá hefur Loo lagt fram teikningar vegna áforma við Miðvang 5 á Hellu, lóð skammt frá ráðhúsi bæjarins. Þar á að rísa þriggja hæða hús með verslunum á 1. hæð og íbúðum á 2. og 3. hæð. Að síðustu hefur hann kynnt áform sín á Rangárbakka 4. Þar verður þriggja hæða hús sem skiptist í hótelálmu og íbúðaálmu ásamt sérstæðu veitingahúsi við árbakkann. Athygli vekur að hið sérstæða veitingahús er kúlulaga glerhýsi og tónar útlit þess við áform Loos á Leyni. „Þetta er norðurljósa-hús. Það er mikið kallað eftir því núna, sérstaklega af ferðamönnum úr austri,“ segir Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra. Þá hefur Loo farið þess á leit við sveitarfélagið að lóðin gegnt fyrirhuguðu hóteli verði heimiluð undir bílastæði.