Guðný Svava Guðjónsdóttir fæddist 1. ágúst 1945 á Strandbergi í Vestmannaeyjum. Hún lést á Vífilsstöðum 19. september 2022.
Foreldrar hennar voru Sigurrós Sigurðardóttir, f. 9. nóvember 1913, d. 3. september 2001, og Guðjón Vigfússon, f. 15. september 1902, d. 26. nóvember 1996.
Alsystkini Guðnýjar Svövu eru Helga og Sigurður Þór, f. 10. október 1947. Svava á þrjú hálfsystkini samfeðra: Bergþóru, f. 27. maí 1932, d. 30. maí 2016, Birgi, f. 8. nóvember 1938, og Ingva Þór, f. 28. nóvember 1939, d. 9. júní 2022.
Svava giftist 10. desember 1966 Benedikt Jónssyni, f. 24. júní 1946. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Guðjón Bragi, f. 5. mars 1966, maki Clarivelle Rosento. 2) Rafn, f. 8. nóvember 1970. 3) Erla Ósk, f. 22. apríl 1978, maki Garðar Gylfason Malmquist.
Barnabörnin eru 11.
Útförin fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 29. september 2022, klukkan 15.
Elsku Svava systir mín er dáin. Allar minningar mínar úr bernsku og frá unglingsárum eru tengdar henni. Það voru tvö ár á milli okkar og framan af áttum við hvor sinn vinahópinn. Eftir því sem árin liðu urðum við nánari og áttum sama vinahóp. Svava átti við veikindi að stríða alla sína ævi vegna mikilla áfalla í æsku, en framan af lét hún það ekki aftra sér frá því að njóta þess sem lífið hafði upp á að bjóða. Það var gaman að vera með Svövu í góðra vina hópi og þá gat hún sungið manna hæst. Við áttum margar góðar stundir saman á unglingsárunum og ekki síst þegar við urðum fullorðnari og börnin okkar bættust við hvert á fætur öðru. Ógleymanlegar eru sumarbústaðaferðirnar á hverju sumri og þá var sko hlegið.
Hún Svava var ekki aðeins falleg, svo eftir var tekið, heldur hæfileikarík með afbrigðum. Hún teiknaði og málaði, orti ljóð og skrifaði sögur. Ef veikindi hennar hefðu ekki komið í veg fyrir svo margt er ég sannfærð um að hún hefði getað haslað sér völl meðal fremstu listamanna, með teikningum sínum og málverkum. Svava systir mín var mikill dýravinur og það eru margar minningar mínar tengdar atvikum sem sýndu það svo glöggt. Eins og þegar hún stóð strákahóp að því að elta og grýta rottu. Hún snaraðist inn í hóp helmingi stærri stráka og lét skammirnar dynja á þeim. Þeir urðu skömmustulegir mjög og sneru við blaðinu og reyndu að hjálpa henni að koma rottunni í skjól, sem því miður var orðið of seint.
Í gegnum lífið lágu leiðir okkar sundur og saman, en til mín leitaði hún þegar hún þurfti á stuðningi að halda.
Ég vil minnast faðmlags hennar þegar ég heimsótti hana nokkrum dögum áður en hún dó og ég var á leiðinni til Vestmannaeyja til að vera viðstödd öskudreifingu bróður okkar. Þá var faðmlag hennar hlýtt og gott og ég ætlaði að heimsækja hana aftur þegar ég kæmi frá æskuslóðunum.
Elsku systir mín. Ég mun minnast þín og sakna þín og ég mun leita að þér í birtunni fallegu og þá ætla ég að faðma þig og hlæja með þér og þú verður aftur heilbrigð og glöð.
Börnunum hennar sem nú syrgja hana sárt votta ég mína dýpstu samúð.
Orð þín lýsa svo vel þeim stundum sem við yngstu systkinin áttum saman þegar allt lék í lyndi:
Tímar hafa liðið
stafar sól á vatnið
stirnir á jökulskalla
streyma gamlir tímar
fram í huga mér.
Silungs lonta í læknum
lómar sungu að kvöldi
fuglar kvökuðu í kjarri
og kyndug fluga á vegg.
Leikum við í túni
létt á fæti að vori
við lítinn kátan hvolp.
Tímar hafa liðið,
talin nú hver stundin
er tifar æviveg.
Þó man ég enn í muna
margan bernsku unað.
Undurfögur æskan
fer ei úr huga mér.
Guðný Svava systir mín var á ýmsan hátt nokkuð sérstök. Fyrir það fyrsta var hún einstaklega falleg svo eftir var tekið og var enn meira hrífandi vegna þess að fyrir ókunnuga var eins og allt að því dulúðug fjærlægð umlykti hana. Þegar hún var ung var hún módel í auglýsingum og sýningum en slík starfsemi var þá rétt byrjuð að ryðja sér til rúms hér á landi. Hún var og hæfileikarík í ýmsar áttir og menntuð í myndlist og hélt nokkrar listsýningar. Á barns- og unglingsárum gat hún verið skemmtilega uppátækjasöm. Svava hafði fínan húmor og hafði jafnvel gaman af ýmsu undirfurðulegu. Alveg frá unga aldrei átti hún þó oft við ýmiss konar veikindi að stríða. Hún hafði orðið fyrir alvarlegum áföllum sem settu mark sitt á hana alla tíð. Oft var Svava gamansöm og upprífandi, glöð og skemmtileg og gaman að ræða við hana um allt milli himins og jarðar. Hún var samt ekki alltaf upp á sitt besta og átti sína döpru og erfiðu daga. Við náðum þó alltaf mjög vel saman. Allra síðustu árin hittumst við ekki eins oft og áður en vorum ávallt í reglulegu símasambandi. Hún hringdi í mig daginn áður en hún dó en skyndilegur dauði hennar kom öllum á óvart. Hún talaði þá dálítið um uppáhaldskisann minn, hann Doppa, en sjálf hafði hún átt marga ketti um dagana. Mikið finnst mér vænt um að þetta hafi verið síðasta umræðuefni okkar. Sú minning mun aldrei frá mér víkja með öðrum minningum. Frammi fyrir dauða sinna nánustu getur maður kannski orðið dálítið barnalegur. En þannig getur væntumþykjan birst á stundum.
Sigurður Þór Guðjónsson.