Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það hefur ekkert gerst,“ segir Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, þegar hann er inntur eftir stöðu mála varðandi endurgerð kvikmyndar hans, Kona fer í stríð , í Hollywood. Greint var frá því síðla árs 2018 á vef kvikmyndatímaritsins Deadline að Jodie Foster myndi leikstýra, framleiða og leika í bandarískri endurgerð myndarinnar.
Margir glöddust yfir þeim tíðindum að Foster myndi fara með hlutverk Höllu sem Halldóra Geirharðsdóttir lék svo eftirminnilega í upprunalegu myndinni. Sagði Foster á sínum tíma að kvikmyndin hefði gagntekið sig og að hún hlakkaði til að endurgera þessa áhrifamiklu mynd. „Persóna Höllu er stríðsmaður jarðarinnar, sterk kona sem fórnar öllu til að gera hið rétta,“ var haft eftir Foster árið 2018. Síðan hefur hins vegar ekkert frést af þessum áformum og nú, þegar fyrir liggur að Foster verður hér á landi næstu níu mánuði við tökur á sjónvarpsþáttunum True Detective, telur Benedikt aðspurður tilvalið að kanna hvar verkið sé á vegi statt.
„Ég mun örugglega funda með henni út af þessu, núna þegar hún mætir. Við vorum á tímabili í sambandi og skrifuðumst á, einmitt um verkefnið. Það er hins vegar engu að treysta í kvikmyndagerð, ekki fyrr en kamerurnar rúlla,“ segir Benedikt.