Eldur Mikinn reyk lagði yfir bæinn og var íbúum því ráðlagt að loka gluggum.
Eldur Mikinn reyk lagði yfir bæinn og var íbúum því ráðlagt að loka gluggum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Veronika Steinunn Magnúsdóttir Hólmfríður María Ragnhildardóttir Karítas Ríkharðsdóttir Stórbruni varð á Egilsstöðum í gær eftir að eldur kviknaði í verslunar- og þvottahúsnæði Vasks að Fagradalsbraut.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Karítas Ríkharðsdóttir

Stórbruni varð á Egilsstöðum í gær eftir að eldur kviknaði í verslunar- og þvottahúsnæði Vasks að Fagradalsbraut. Slökkvilið var kallað út á fimmta tímanum í gær og taldi það sig hafa náð tökum á eldinum laust eftir sjö í gærkvöld.

Engin meiðsl urðu á fólki í eldsvoðanum. Hús Vasks varð alelda á 10 til 15 mínútum að sögn sjónarvotta. Mikinn, kolsvartan reyk lagði yfir Egilsstaði en slökkvistarf gekk greiðlega miðað við aðstæður.

Aðgerðastjórn lögreglunnar á Austurlandi hvetur fólk sem hefur fundið fyrir óþægindum í öndunarfærum til að hringja í síma 1700 eða hafa samband við neyðarlínu, ef um neyðarástand er að ræða.

Altjón á húsnæði Vasks

Þótt altjón hafi orðið á húsnæði Vasks tókst að bjarga Landsnetshúsinu, sem er sambyggt, en eldvarnarveggur er þar á milli.

Eldsupptök voru ekki ljós þegar mbl.is náði tali af Kristjáni Ólafi Guðnasyni, yfirlögregluþjóni lögreglunnar á Austurlandi í gærkvöld.

„Það er ekki talið að neinn hafi verið inni í húsinu eða í hættu vegna eldsins,“ sagði Kristján.

Húsið stóð á tímabili í björtu báli og var því allt kapp lagt á að eldurinn bærist ekki í nærliggjandi hús eða dreifði sér frekar.

„Það eru tilmæli til íbúa í nærliggjandi hverfum að halda gluggum lokuðum vegna reyks,“ segir Kristján.

Allir sluppu ómeiddir

Allt tiltækt slökkvilið var kallað á staðinn, þar á meðal slökkviliðið á Egilsstöðum og slökkviliðið í Fjarðabyggð.

„Okkur þykir mjög leiðinlegt og sárt að sjá fyrirtækið okkar fara svona illa. En það sluppu allir ómeiddir úr húsinu,“ segir í færslu sem Vaskur birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöld.

Talsvert mikill tækjabúnaður var á vettvangi og var lögregla með dróna á lofti við slökkvistarf. Bað lögreglan á Austurlandi fólk að vera ekki með dróna á lofti nálægt vettvangi á meðan á slökkvistarfi stóð.