Skemmdir Nokkrir af bílaleigubílunum sem skemmdust í óveðrinu.
Skemmdir Nokkrir af bílaleigubílunum sem skemmdust í óveðrinu. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
„Við hefðum mátt loka leiðinni fyrr,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

„Við hefðum mátt loka leiðinni fyrr,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Talsmenn bílaleiga hafa síðustu daga gagnrýnt stofnunina fyrir að hringveginum um Möðrudalsöræfi, það er milli Mývatns og Jökulsdals, hafi ekki verið lokað í tíma í óveðrinu sem gekk yfir norðan- og austanvert landið sl. sunnudag. Allt að fjörutíu bílar, þar af margir í eigu bílaleiganna, skemmdust eða urðu ónýtir eftir að hafa lent í byl og grjóthríð sem af veðurofsanum leiddi. Hugsanlegt er að viðskiptavinir sem lentu í þessu gjörningaveðri sitji uppi með skaðann og skuldi jafnvel bílverðið.

Veðurspár sem Vegagerðin starfar eftir bentu til að á sunnudag gætu orðið sterkar vindhviður og ofankoma við sunnanverðan Vatnajökul. Því var vegum þar, frá Kirkjubæjarklaustri og austur á firði, lokað. Ekki var spáð jafnmiklum hviðum á öræfum austanlands en heldur meiri ofankomu en varð. Laus jarðvegur leiddi síðan til vandræðanna.

Þegar veðrið skall á og staða mála á Fjöllum varð ljós var veginum lokað með því að í hádeginu á sunnudag voru slár settar fyrir veginn – það er við Námaskarð í Mývatnssveit og Skjöldólfsstaði innst á Jökuldal. Bílar voru þá þegar á leiðinni milli tveggja áðurnefndra staða og komu björgunarsveitir og fleiri ökumönnum þeirra og farþegum til aðstoðar. Hugsanlegt er þó að meðan á lokun stóð hafi einhverjir komist inn á lokaðan veginn, til dæmis af hjáleiðum eða framhjá lokunarslám.

„Núna erum við að fara yfir atburðarás þessa dags og greina hvað gera hefði mátt betur,“ segir G. Pétur. Hann segir Vegagerðina ekki bera skaðabótaskyldu í málum sem þessum. Slíkt sé aðeins ef rekja megi skemmdir á ökutækjum til ástands vega, svo sem ef holur eru á vegum eða blæðingar úr malbiki og rekja megi til þess að Vegagerðin hafi ekki brugðist við með merkingum eða lagfæringum.