Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Björgun hefur selt dýpkunarskipið Dísu úr landi. Skipið hefur þjónað hér á landi í rúman áratug, ekki síst Landeyjahöfn, fyrst undir heitinu Skandia en lengst af undir Dísu-nafninu.
Serbneskt fyrirtæki keypti Dísu og hyggst nota skipið í verkefni í Litháen, til að byrja með, eftir því sem næst verður komist. Eysteinn Jóhann Dofrason, framkvæmdastjóri Björgunar, segir að skipið sé komið af íslenskri skipaskrá. Nýir eigendur séu að laga það svo hægt sé að sigla því eða draga til meginlands Evrópu.
„Þeir geta alveg dælt heilmikið með henni. Dísa er orðin þreytt en ekki ónýt. Það þarf bara að laga hana aðeins til. Búið er að endurbæta skipið mikið frá því það kom frá Danmörku þar sem það átti að fara í brotajárn. Það hefur dælt 400 þúsund rúmmetrum af efni á ári, síðustu tvö árin,“ segir Eysteinn.
Dísa kom til landsins í byrjun árs 2011 og hét þá Skandia. Íslenska gámafélagið tók það á leigu í Danmörku til að dýpka Landeyjahöfn en félagið varð hlutskarpast í útboði á verkinu. Björgun tók síðar yfir samninginn og skipið, að beiðni Vegagerðarinnar.
Dýpkun í Landeyjahöfn hefur verið eitt helsta verkefni skipsins hér á landi allan tímann.
Gengur vel hjá Álfsnesi
Björgun hefur keypt nýtt og öflugt dýpkunarskip, meðal annars til að dýpka í og við Landeyjahöfn. Fékk það nafnið Álfsnes. Skipið kom að Landeyjasandi í fyrsta skipti að kvöldi síðastliðins mánudags og hefur verið að dýpka innsiglinguna og rifið fyrir utan. Það er talið nauðsynlegt vegna þess að gamli Herjólfur á að leysa núverandi ferju af á meðan hún fer í slipp.Eysteinn segir að vel gangi hjá Álfsnesi. Skipstjórnarmennirnir séu ánægðir með virkni skipsins.