Gaslekinn Í umræðunni um gaslekann sýnist sitt hverjum, en málið þykir þó varpa ljósi á veikleika í grundvallarstoðum eldsneytismála í Evrópu.
Gaslekinn Í umræðunni um gaslekann sýnist sitt hverjum, en málið þykir þó varpa ljósi á veikleika í grundvallarstoðum eldsneytismála í Evrópu. — AFP/John MacDougall
Nú hafa 200 þúsund Rússar flúið heimalandið eftir herkvaðningu Pútíns. Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa lýst því yfir að málamyndakosningar á hernumdum svæðum Úkraínu verði ekki viðurkenndar af alþjóðasamfélaginu.

Nú hafa 200 þúsund Rússar flúið heimalandið eftir herkvaðningu Pútíns. Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa lýst því yfir að málamyndakosningar á hernumdum svæðum Úkraínu verði ekki viðurkenndar af alþjóðasamfélaginu. Volodímír Selenskí kallar eftir fleiri vopnum til að berjast gegn Rússum. Þá kalla leppstjórnir Rússa eftir innlimun svæðanna í Rússland og þá gæti herkvaðningin náð til Donbas.

Á sama tíma er gaslekinn í Nord Stream-leiðslunum mál málanna og leitað er logandi ljósi að sökudólgi. Flestir leiðtogar Evrópuríkja hafa lýst yfir grun um að um skemmdarverk sé að ræða. Selenskí segir lekann hryðjuverk Rússa til að tryggja erfiðan vetur í Evrópu. Rússar hafa sagt að ekki sé hægt að útiloka skemmdarverk. Þeir benda á hugsanlegan sökudólg í vestri og minnast orða Joes Bidens Bandaríkjaforseta þar sem hann lýsti því yfir rétt fyrir innrás að ef Rússar réðust á Úkraínu þá myndu gasleiðslurnar „tilheyra liðinni tíð.“ Í þýska blaðinu Der Spiegel kom fram að strax í júní hefði CIA varað við hugsanlegum skemmdarverkum á gasleiðslunum.

Rannsóknir á gaslekanum eru hafnar í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi. Tvö herskip frá Danmörku hafa verið send á svæðið og í Noregi er búið að hækka viðvörunarstig á olíuframleiðslusvæðum þeirra.

Í New York Times var bent á í gær að varhugavert væri að ákveða að Rússar stæðu á bak við skemmdarverkið. Pútín þyrfti að sýna að hann stjórnaði eldsneytisstreyminu til álfunnar og að skemmdir á leiðslunum gætu haft áhrif á það útspil.

„Það er stórmál að komast að gasleiðslunum á hafsbotni til að valda skemmdum,“ segir Lion Hirth, prófessor í orkufræðum í Berlín, og telur ólíklegt að um hryðjuverk utanaðkomandi sé að ræða. Einn yfirmaður franska hersins sagði við AFP-fréttaveituna að líklegast hefði lítill kafbátur verið notaður og kafarar eða drónar síðan verið sendir að leiðslunum með sprengiefni.

Bandaríkjamenn hafa lengi hvatt Evrópubúa til að minnka þörf sína fyrir eldsneyti frá Rússlandi. Daginn eftir sprenginguna á Nord Stream var ný gasleiðsla opnuð sem liggur frá Noregi til Póllands í gegnum Danmörku. Við það tilefni sagði pólski forsætisráðherrann, Mateusz Morawiecki, að „þörf Evrópu fyrir rússneskt eldsneyti væri að hjaðna.“

Víst er að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli.