Sigríður Th. Erlendsdóttir fæddist í Reykjavík 16. mars 1930. Hún lést 17. september 2022 á heimili sínu Bergstaðastræti 70.

Foreldrar hennar voru Jóhanna Vigdís Sæmundsdóttir, f. 30. nóvember 1899, d. 19. nóvember 1981, og Erlendur Ólafsson, f. 9. febrúar 1894, d. 30. ágúst 1980. Systur hennar eru Guðríður Ólafía, f. 25. júní 1932, d. 19. maí 2009, gift Gísla Guðmundssyni, f. 14. október 1930, og Guðrún, f. 3. maí 1936, gift Erni Clausen, f. 8. nóvember 1928, d. 11. desember 2008. Tvíburabróðir Guðrúnar, Ólafur, lést 1940.

Sigríður Theodóra giftist 18. apríl 1953 Hjalta Geir Kristjánssyni húsgagnaarkitekt, f. 21. ágúst 1926, d. 13. október 2020. Foreldrar hans voru Ragnhildur Hjaltadóttir, f. 30. apríl 1899, d. 16. maí 1972, og Kristján Siggeirsson, f. 26. febrúar 1894, d. 20. maí 1975.

Börn Sigríðar Theodóru og Hjalta Geirs eru: 1) Ragnhildur, f. 1953, dætur hennar og Péturs Einarssonar eru: a) Sigríður Theódóra, f. 1985, b) Jóhanna Vigdís, f. 1996, maki Jón Bjarni Ólafsson, f. 1995, og eiga þau eina dóttur. 2) Kristján, f. 1956, giftur Rannveigu Einarsdóttur, f. 1954, synir þeirra eru: a) Eyvindur Ölnir, f. 1980, maki Carolin Koenig, f. 1983, og eiga þau tvö börn, b) Arnaldur Sölvi, f. 1985, börn hans og Berglindar Rögnvaldsdóttur, f. 1985, eru þrjú. 3) Erlendur, f. 1957, giftur Aðalheiði Valgeirsdóttur, f. 1958, synir þeirra eru: a) Hjalti Geir, f. 1987, maki Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 1987, og eiga þau tvö börn, b) Valgeir, f. 1990, maki Thelma Haraldsdóttir, f. 1993, og eiga þau tvö börn. 4) Jóhanna Vigdís, f. 1962, gift Guðmundi Magnússyni, f. 1958, börn þeirra eru: a) Guðrún Edda, f. 1983, maki Stefán Örn Melsted, f. 1983, og eiga þau tvö börn, b) Hjalti Geir, f. 1998, c) Erlendur, f. 2001, d) Sigríður Theódóra, f. 2005.

Sigríður Theodóra lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949. Hún hóf rannsóknir í kvennasögu upp úr 1970, lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1976 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1981. Árið 1982 varð hún fyrst til að kenna sérstök námskeið í kvennasögu í sagnfræði við Háskóla Íslands og sinnti því starfi þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hún var brautryðjandi í rannsóknum á sögu kvenna hér á landi og lagði grunn að kvennasögu sem fræðigrein. Hún skrifaði bókina „Veröld sem ég vil“ sem kom út árið 1993 og er saga Kvenréttindafélags Íslands frá stofnun 1907 til 1992. Í tilefni sjötugsafmælis hennar kom út bókin „Kvennaslóðir“ til heiðurs Sigríði Theodóru sem Kvennasögusafn Íslands gaf út.

Hún sat í stjórn Kvennasögusafnsins, Sögufélags, Minja og sögu og Styrktarsjóðs Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Hún var útnefnd heiðursfélagi í Sögufélagi árið 2008 og var hún fyrsta konan í rúmlega hundrað ára sögu félagsins til að hljóta þann heiður. Þá var Sigríður Theodóra heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands.

Útför hennar fer fram í dag, 29. september 2022, frá Fríkirkjunni í Reykjavík og hefst hún klukkan 15.

Sigríður Theodóra Erlendsdóttir, tengdamóðir mín, var Reykvíkingur. Hún fæddist á Kárastíg 10, ólst upp á Barónsstíg 21, bjó síðan stuttlega á Njálsgötu og Laugavegi 13 en frá 1959 á Bergstaðastræti 70, þar var hennar veröld, hennar hásæti, í suðurhlíðum Skólavörðuholtsins. Hún bjó sem sagt innan Hringbrautar alla ævi og unni Reykjavík heitar og meira en nokkrum öðrum stað.

Sagnfræðin og kvennasaga var hennar starfsævi. Hún skrifaði sögu Kvenréttindafélags Íslands og var brautryðjandi þegar kom að sögu kvenna og rannsóknum tengdum kvennasögu. Þær rannsóknir áttu hug hennar allan alla tíð. Hún giftist tengdaföður mínum, Hjalta Geir Kristjánssyni húsgagnaarkitekt, 18. apríl 1953. Fráfall hans fyrir tæpum tveimur árum var henni eins og fjölskyldunni allri mikill harmur. Þau voru samrýnd, jafningjar og hamingjusöm hjón frá fyrstu tíð. Stoltust var tengdamóðir mín af afkomendum sínum. Börnin fjögur: Ragnhildur, Kristján, Erlendur og Jóhanna Vigdís, konan mín. Barnabörnin tíu voru stolt ömmu sinnar og afa. Þegar dóttir mín gaf ömmu sinni miða á ísskápinn fyrir mörgum árum sem á stóð „ef ég hefði vitað að barnabörn væru svona skemmtileg þá hefði ég eignast þau fyrst!“ þá sagði amma: „Ég geymdi mér það besta þangað til síðast!“ Þetta segir mikið. Barnabarnabörnin eru orðin tólf, það elsta er ellefu ára og það yngsta fjögurra mánaða.

Fyrst og síðast er ég fullur þakklætis yfir því að hafa verið svona heppinn með tengdamóður. Á okkar samband bar aldrei skugga. Hún og tengdafaðir minn reyndust mér eins og bestu foreldrar, það fæ ég seint fullþakkað. Alltaf til staðar fyrir mig og fjölskyldu mína. Þess vegna er missirinn mikill og sár. Síðasta samtalið áttum við nokkrum klukkustundum fyrir andlátið. Frú Sigríður, eins og við sögðum oft, lá aldrei á skoðunum sínum. Hún hafði sterkar skoðanir á lífinu og tilverunni, stjórnskipan, Alþingi og fræðasamfélaginu. Og langoftast var ekki annað hægt en að vera sammála henni.

Uppruninn var henni dýrmætur. Æskuheimilið á Barónsstíg, foreldrarnir, Erlendur Ólafsson og Jóhanna Vigdís Sæmundsdóttir, og samband systranna var engu líkt. Þær stóðu alltaf saman og tóku snemma þá ákvörðun að hvíla í Hólavallakirkjugarði hjá foreldrum sínum og fjölskyldu og spurðu eiginmennina hvort þeir vildu ekki vera þar líka. Lóa, sem lést árið 2009, var þeim systrum harmdauði, eins og fjölskyldunni allri. Stórfjölskyldan öll var henni afar kær og sinnti hún henni af mikilli hlýju og kærleika.

Blessuð sé minning yndislegrar tengdamóður minnar. Ég þakka henni og tengdaföður mínum vegferðina og fyrir lífið sjálf, ég hefði ekki verið heppnari með tengdaforeldra þótt ég hefði valið þá sjálfur.

Guðmundur Magnússon.

Nú þegar komið er að kveðjustund hugsa ég með þakklæti og hlýju til elskulegrar tengdamóður minnar, Sigríðar Th. Erlendsdóttur sagnfræðings.

Henni var snemma falin ábyrgð sem elsta dóttir á sjómannsheimili. Þessi ábyrgð fylgdi henni alla tíð á langri og farsælli ævi.

Glæsileg var hún og geislandi. Hjartahlý, minnug og fróð heillaði hún alla með nærveru sinni hvar sem hún fór. Fallega heimilið þeirra Sigríðar og Hjalta Geirs á Bergstaðastræti var samkomustaður fjölskyldunnar og sannkallað menningarheimili, allir sóttu þangað og allir voru velkomnir.

Auk þess að sinna stóru heimili lauk Sigríður BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1976 og útskrifaðist með cand. mag.-próf frá HÍ árið 1981 með rannsókn á atvinnuþátttöku reykvískra kvenna á árunum 1890-1914. Hún var brautryðjandi á sviði kvennasagnfræði, vinsæll háskólakennari og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum sem tengdust fræðasviði hennar. Hún ritaði sögu Kvenréttindafélags Íslands undir heitinu „Veröld sem ég vil“ sem kom út árið 1993 og er mikilvæg heimild um sögu kvenna á Íslandi.

Sigríður hafði eðlislægan áhugi á mannlífinu og lét sér annt um líðan annarra, spurði frétta og hafði samband. Fylgdist grannt með stjórnmálum bæði innlendum og erlendum, hafði skoðanir á hlutunum og lauk gjarnan máli sínu með orðunum „... eða það finnst mér“, þegar mál voru rædd. Eftirminnilegir eru hádegisfundir systranna þriggja, Siggu, Lóu og Rúnu, sem við yngri kynslóðir tókum oftar en ekki þátt í. Þar fóru fram orkumiklar samræður um málefni líðandi stundar og þar voru málin oft leyst. Sigríður hafði yndi af lestri og var gjarnan umkringd lesefni af ýmsum toga, fræðibókum, tímaritum og skáldsögum og tímaritið Time sem hún var áskrifandi að til áratuga las hún upp til agna.

Fjölskyldan var henni þó mikilvægust. Börn og tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn nutu þess að koma til ömmu Siggu og afa Hjalta Geirs. Hún var óspör á hrós og hvatningu og fylgdist grannt með því sem fólkið hennar tók sér fyrir hendur. Við tvær áttum saman gæðastund í eldhúsinu á Bergstaðastræti aðeins örfáum dögum áður en hún lést og þá grunaði mig ekki að svo stutt væri eftir enda var m.a. fyrirhugaður stjórnarfundur í Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á dagskrá sem hún hlakkaði til. Heimsókn hennar á sýninguna mína nú í september mat ég líka mikils.

Þau hjón Hjalti Geir og Sigríður voru eitt, varla hægt að hugsa sér samheldnari hjón. Hjalti Geir lést árið 2020 og mikið saknaði hún hans. Gestrisin og rausnarleg voru þau og eftirminnilegar eru veislur bæði á Bergstaðastræti og í Árósi í Biskupstungum þar sem þau áttu sinn sælureit.

Upp í hugann koma ljúfar stemningsmyndir, hún setur Fats Waller á fóninn og dillar sér eftir tónfallinu og allir hrífast með. Nú stíga þau hjónin saman dans á nýjum vettvangi.

Með Sigríði er gengin merk kona, sönn fyrirmynd og yndisleg tengdamóðir sem ég á margt að þakka. Hún hvíli í friði.

Aðalheiður Valgeirsdóttir.

Með ömmu við eldhúsborðið á B70 í hádeginu. Stundum bara við tvær. Stundum hálfur kvenleggurinn og fleiri til. Með ömmu og afa inni í stofu á fallega B70. Með ömmu í blómaskálanum, eins og við kölluðum hann, í Árósi þótt reyndar væri þar lítið sem ekkert af blómum. Þessar stundir. Og svo miklu fleiri. Þær eru og voru mitt uppáhald.

Amma var elegant og alltaf smekklega til fara. Klædd við hæfi eins og sagt er. Í takt við sinn aldur en þó þannig að sjá mátti að hún var ungleg, ekki síst í hugsun. Kannski í MaxMara-buxnadragt og hvítum Stan Smith-skóm við. Nokkuð frjálsleg en borgaraleg. Hún var heimskona sem talaði að mér fannst óteljandi tungumál. Hún var svo vel lesin og vel að sér um hin ólíku og ólíklegustu mál. Hún var sagnfræðingur en um leið voru fáir betur upplýstir um fréttir líðandi stundar. Hún var stundvís. Reyndar svo mjög að einu sinni þegar við vorum sem oftar á leið í leikhús lentum við hliðina á Eggerti Þorleifssyni leikara á rauðu ljósi. Ég benti ömmu góðfúslega á að hann léki í sýningunni sem við værum að fara á!

Hún hafði unun af því sem vel var gert. Var músíkölsk, tónvís og hafði fallega takta. Frásagnarhæfileika, gott minni og var fljót að hugsa. Og svo hafði hún svo góðan húmor. „Húmor á heimsmælikvarða“ eins og hún myndi sjálf orða það um aðra. Hún hafði skynbragð á hæfileika fólks. Átti vini og vinkonur á öllum aldri, laðaði fólk að sér og naut þess að ræða málin við okkur sem yngri vorum. Hún lyfti fólki og umræðum á hærra plan. Svo fyrirhafnarlítið. Hún var „belle of the ball“ í lífinu.

„Veröld sem ég vil“, titill á bók sem amma skrifaði, saga Kvenréttindafélags Íslands. Er þetta ævistarfið þitt amma? spurði frændi minn. Nei, það er hún ekki. Það eruð þið, þið eruð ævistarfið mitt. Ég skildi þetta ekki þá, en ég skil það í dag. Ekkert lagði hún meiri áherslu á en fjölskylduna og að rækta hana. Hún gerði kröfur til sín og sinna og minnti mann reglulega á ljóð Þorsteins Valdimarssonar um þá sem standa sig. En hún gerði kröfur sem hún vissi að við gætum staðið undir og fáir voru meira hvetjandi. Á stórviðburðum voru það við afkomendur hennar öll, systur og systrabörn, frænkurnar og saumaklúbburinn sem hún vildi hafa. Þetta var hluti af hennar arfleifð.

Varla er hægt að tala um ömmu án þess að nefna afa. Eins sjálfstæð og þau bæði voru voru þau líka svo mikið eitt. Fyrirmyndir margra, bæði á stórum og litlum sviðum lífsins. Máttarstólpar í lífi okkar en hvað mestir í lífi Hjalta Geirs bróður míns. Þar er skarð sem við hin munum gera okkar allra besta til að fylla upp í.

Amma sagði stundum að við værum hennar uppáhalds „kompaní“ en hún og þau afi bæði voru líka okkar uppáhalds kompaní. Hún var einfaldlega skemmtilegasta kona sem ég þekki og ég á eftir að sakna hennar óendanlega mikið.

Elsku heimsins besta amma mín. Takk fyrir allt sem þú varst og allt sem þú gafst. Takk fyrir að búa okkur öllum svona gott veganesti og góðar minningar. Þú lagðir grunninn að veröldinni okkar, veröld sem ég vil.

Guðrún Edda

Guðmundsdóttir.

Amma Sigga, eins og við kölluðum hana alltaf, spilaði afar stórt hlutverk í lífi okkar bræðra. Hún var alltaf til staðar, staðföst og segja má að hún hafi verið nokkurs konar akkeri í okkar föðurfjölskyldu.

Amma var forvitin að upplagi og þráin eftir þekkingu litaði líf hennar og persónu. Þessi eiginleiki birtist á margan hátt. Hún var t.d. alltaf með bækur, blöð og tímarit við höndina, fylgdist náið með alþjóðamálum, hlustaði á alla fréttatíma sem hægt var að komast yfir og var einnig vel með á nótunum í menningarlífinu. En hún tók ekki aðeins á móti upplýsingum enda var hún skarpgreind og hafði skoðanir á því sem fyrir augu bar og lét þær óhikað í ljós, en þó vissulega alltaf af sanngirni. Hún hafði líka einstakt lag á því að nálgast annað fólk, bæði börn og fullorðna, finna sameiginlega fleti og spyrja réttra spurninga og gat þar af leiðandi átt samræður um næstum allt milli himins og jarðar. Þessum eiginleikum miðlaði hún áfram til okkar, bæði leynt og ljóst, og á hverjum degi reynir maður að fara út í daginn með forvitnina að leiðarljósi.

Það var gaman að vera með ömmu og oft var stutt í kímni og hnyttin tilsvör. Húmorinn var lúmskur og ekki laus við kaldhæðni. Hún var félagslynd og notaði hvert tilefni, stórt eða smátt, til að hóa saman fjölskyldu og vinum, hvort sem það var á Bergstaðastræti eða í Laugarási í Biskupstungum. Á slíkum stundum naut hún sín vel og ósjaldan settist hún við píanóið og spilaði og söng fyrir okkur barnabörnin – og síðar barnabarnabörn. Oftast var mikið um að vera á Bergstaðastrætinu, stöðugur gestagangur og amma alltaf eitthvað að sýsla. Þrátt fyrir annasama daga var amma eiginlega með allt á hreinu og hafði áhuga á því sem við tókum okkur fyrir hendur, var fyrst til að hringja á afmælisdögum eða til að athuga hvernig gekk í síðasta prófi í skólanum.

Amma var á vissan hátt nútímaleg, sérstaklega miðað við konu sem fæddist árið 1930. Hún hélt í við tíðarandann og var merkilega fljót að tileinka sér nýjustu stefnur og strauma. Strax í upphafi tíunda áratugarins var hún komin með tölvu á skrifborðið og þegar við bræður vorum í námi erlendis fyrir nokkrum árum fengum við reglulega tölvupósta frá ömmu, þar sem hún spurði frétta af barnabarnabörnum, og svo fylgdist hún jafnvel með í gegnum Instagram, komin á tíræðisaldur! Hún var þó einnig fastheldin á það sem vel gafst, sat t.a.m. alltaf í sama sætinu, vildi helst ekki fara langt út fyrir miðborgina, nema þá aðeins til að fara austur í Laugarás, og hún vissi að skorpubrauðið í Bernhöftsbakaríi væri best svo það var algjör óþarfi að prófa eitthvað annað.

Þótt söknuðurinn sé mikill og tilveran breytt þá má ekki gleyma því hve gæfuríkt það var að hafa haft ömmu Siggu með okkur í öll þessi ár og svo voru það einnig forréttindi fyrir okkar börn að hafa kynnst henni svo vel.

Hjalti Geir Erlendsson,

Valgeir Erlendsson.

Erfitt er að lýsa tilfinningum okkar við lát ömmu. Fyrirmynd og brautryðjandi en umfram allt stoð okkar og stytta og vinkona.

Í upphafskafla Kvennaslóða skrifaði Vigdís Finnbogadóttir góð vinkona okkar að henni hefði alltaf fundist amma vera kvenhetja og fyndist enn. Það er rétt lýsing. Amma bjó yfir einstökum eiginleikum sem fáir, ef einhverjir, búa yfir.

Við systur bjuggum vel að því að vera mikið með ömmu og mótaði það okkur til lífstíðar. Hvatning hennar, samtölin og styrkur gáfu okkur það veganesti að við við gætum allt sem við vildum. Fyrir ungar konur að fara út í lífið er það ómetanlegt.

Það er ekki að ástæðulausu að allir sem voru það heppnir að hitta hana dýrkuðu hana og dáðu. Hún lýsti upp herbergið þegar hún gekk inn og heillaði alla með sjarma, hlýju og jákvæðni. Enda var hún formaður Pollýönnufélagsins þar sem hún sá alltaf það jákvæða í öllu og öllum. Hún var þó mjög ákveðin og sagði sínar skoðanir en á hlýjan og fallegan hátt þannig að allir hlustuðu.

Hún sagði oft að það mikilvægasta í lífi og vinnu væri að þykja vænt um fólk, sem henni þótti sannarlega. Nemendur hennar í kvennasögu voru tíðir gestir heima á B70, systurnar, Lóa og Rúna, voru alltaf í hádeginu, fjölskyldan á hverjum degi og húsið fylltist oft af hlátri og gleði þegar frænkur og vinkonur komu. Hún var límið sem hélt öllu saman og lagði mikið upp úr að rækta fólkið í kringum sig.

Fjölskyldan og heimilið á B70 var veröldin hennar ömmu eins og hún lýsti sjálf og þar sló hjarta fjölskyldunnar. Við kölluðum þetta brautarstöðina en þar hittust allir enda vildu allir fá að njóta nærveru hennar.

Við vorum báðar svo heppnar að búa hvor á sínum tíma í kjallaranum á B70. Að fá að vera með ömmu oft á dag og í daglega lífinu munum við alltaf þakka fyrir. Gleðin var einstaklega mikil á B70 í ár en þá fæddist lítill ljósgeisli í húsið, Ragnhildur J. Jónsdóttir. Mikið gladdi það ömmu. Stundirnar sem hún fékk með henni eru dýrmætar og minningar okkar með ömmu og litlu Ragnhildi hlýja okkur á erfiðum tímum.

Söknuðurinn er sár en eftir situr þakklætið fyrir lífið sem við vorum svo heppnar að mega njóta til fullnustu með henni.

Fjölskyldan var veröld ömmu og hún verður alltaf veröldin okkar.

Sigríður Theódóra,

Jóhanna Vigdís.

Í dag minnumst við bræðurnir elsku ömmu. Þegar við hugsum til baka kemur upp í hugann þakklæti og hlýja. Það er mikil gæfa að hafa haft hana svo lengi hjá okkur. Eftir sitja margar góðar minningar. Sérstaklega eru minnisstæðar heimsóknir í sumarbústaðinn. Það var algjör paradís fyrir börn. Stór garður, nóg af boltum og alltaf Prince Polo í matarbúrinu.

Amma var alltaf glöð og vildi alltaf fá mann í heimsókn. Hún sagði skemmtilega frá og hægt var að treysta því að hún færði manni fréttir af frændfólki okkar. Einlægur áhugi hennar á lífi okkar bræðra var mikils virði. Það var mjög dýrmætt hvað þau afi voru dugleg að heimsækja okkur í útlöndum til að sjá hvernig við byggjum.

Elsku amma, blessuð sé minning þín og takk fyrir allar góðu samverustundirnar.

Eyvindur Ölnir og Arnaldur Sölvi Kristjánssynir.

Frænkan mín kæra fallin er frá,

fyrirmynd kvenna sem rétt vilja fá.

Kraftmikil ætíð með kjarkaða lund

kona með vilja að opna öll sund.

Aldrei of seint auðnu að fá,

aldrei of seint réttlæti' að ná.

Kærleikur hennar til kvenna var skýr,

kjarki þær fyllti er dagur reis nýr.

Gæfusöm var hún og gleðina bar,

glóðina kveikti, því sjálfstraust var svar.

Vængjaðar lyftu sér vegsemdar til,

þetta er „veröld sem ég vil“.

(SGS)

Guð blessi minningu Sigríðar Th. Erlendsdóttur.

Sigríður Th.

Guðmundsdóttir.

Sigga, Lóa og Rúna. Þrjár systur á Barónsstígnum, fæddar á 4. áratug síðustu aldar. Þegar amma Jó kallaði á þær var það alltaf í þessari röð jafnvel þótt hún ætlaði bara að kalla á mömmu okkar, Rúnu.

Sigga frænka sagðist hafa horft í gegnum skráargatið á svefnherbergishurðinni þegar mamma og tvíburabróðir hennar, Óli, fæddust. Æ síðan var hún kletturinn í lífi mömmu.

Við systkinin nutum einnig góðs af, enda leit hún á okkur sem sín börn og við litum á hana sem mömmu númer tvö. Sigga var hafsjór af fróðleik, gat rakið ættir fólks langt aftur og aldrei kom maður að tómum kofunum hjá henni.

Þegar Sigga frænka var á miðjum aldri, búin að ala upp börnin sín fjögur og koma þeim til manns, skellti hún sér í nám í sagnfræði og þar var hún sannarlega á heimavelli. Hún lagði áherslu á kvennasögu og gaf síðar út bókina Veröld sem ég vil: Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, sem er merk heimild um efnið. Þá kenndi hún sagnfræði við Háskóla Íslands um árabil.

Þessi störf hennar komu þó ekki í veg fyrir að á heimili Siggu á Bergstaðastrætinu komu jafnan saman í hádeginu þær systur og oft og tíðum þeirra afkomendur. Þannig var þetta í áratugi, alltaf var öruggt að hægt væri að fá kaffi og brauð í hádeginu hjá Siggu á Bergstaðastrætinu. Þar var skeggrætt um mál líðandi stundar og þau brotin til mergjar!

Sigga frænka hafði ríka réttlætiskennd og lagði gott til allra mála. Hún tamdi sér að sjá það góða og fallega frekar en að einblína á hið neikvæða. Fyrir okkur sem erum yngri er mikils virði að upplifa það hve þær systur voru samrýndar og stóðu saman í gegnum lífið. Sigga vildi hafa fólkið sitt í kringum sig og börnin hennar og barnabörn búa flest í Þingholtunum og samgangurinn alltaf mikill. Þær systur töluðu einnig saman í síma á hverjum degi, aldrei sjaldnar en tvisvar og stundum oft á dag. Alltaf var haldið upp á afmæli og ekki bara stórafmæli. Frænkurnar komu saman í veislum og gerðu sér glaðan dag. Þá var mikið hlegið og mikið sungið enda kunnu þær þá list vel.

Alltaf var stutt í brosið hjá henni Siggu og hún hafði frábæran húmor.

Sigga missti Hjalta Geir, manninn sinn, eftir tæplega 70 ára hjónaband fyrir tveimur árum og missirinn var mikill. Samrýndari hjón eru vandfundin og þau nutu þess að vera saman alla tíð. Eftir að Hjalti Geir féll frá tóku börn Siggu og barnabörn svo sannarlega utan um hana og hún var rík að eiga þau öll að. Þar uppskar hún vissulega eins og hún sáði, enda betri mamma og amma vandfundin. Sigga sagði gjarnan: Maðurinn fæðist einn og hann deyr einn. Sigga var þó ekki ein. Hún fékk að fara eins og hún vildi, heima hjá sér á Bergstaðastrætinu, nýbúin að borða uppáhaldsmatinn sinn með báðum dætrum sínum.

Sigga, Lóa og Rúna, systurnar á Barónsstígnum, sem voru svo nánar og hver annarri kær. Nú tökum við utan um mömmu sem er ein eftir og trúum því að þær eigi eftir að hittast aftur í betri heimi.

Okkar hjartans samúðarkveðjur sendum við börnum Siggu, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum og biðjum Guð að blessa hennar góðu minningu.

Ólafur, Guðrún Sesselja og Jóhanna Vigdís Arnarbörn (Óli, Budda og Hansa).

Kynni okkar Sigríðar Theodóru Erlendsdóttur á unglingsárunum urðu snemma að vináttu sem átti eftir að verða órofa og ævilöng. Þessa vináttu höfum við ræktað með gagnkvæmu trausti, einlægni og umhyggju í tæpa átta áratugi. Vinabönd verða vart traustari. Ég kveð því kæra vinkonu með sárum söknuði.

Ævi og vinátta okkar Sigríðar er skemmtilega samofin þjóðlífinu. Árið sem við fæddumst minntist þjóðin þess á Þingvöllum að þúsund ár voru frá stofnun Alþingis hins forna. Fjórtán árum síðar, þegar við Sigríður urðum vinkonur, kom þjóðin aftur saman á Þingvöllum, þá til að stofna lýðveldi.

Á þeim árum skiptist Reykjavík enn í Vestur- og Austurbæ eftir ósýnilegum læk sem rennur undir Lækjargötu. Sigríður kom úr Austurbænum, af Barónsstígnum, en ég af Ásvallagötunni vestast í Vesturbænum. Leiðir okkar lágu svo saman við þennan ósýnilega læk, í Gagnfræðaskólanum við Vonarstræti. Báðar höfðum við tekið stefnuna yfir lækinn á Menntaskólann í Reykjavík.

Í Menntaskólanum fórum við í máladeild og lentum í fyrsta stelpubekknum í þessu þá óneitanlega karlavígi. Við, þessar fáu stelpur við skólann, létum til okkar taka, stofnuðum málfundakvenfélagið Aþenu, stóðum fyrir dansæfingu og buðum strákunum á ballið. Þar vorum það við stelpurnar sem buðum upp strákunum, ekki öfugt. Þetta voru góðir tímar. Við vorum ungar og staðráðnar í því að mennta okkur, óþreyjufullar að fá að bæta heiminn: ungar stúlkur á þröskuldi fullorðinsáranna, í bæ sem vildi verða borg. Heimsstríði var að ljúka, en handan við hornið beið vor um alla veröld.

Á menntaskólaárunum varð ljóst að við Sigríður áttum samleið. Við vorum samstiga í heimi hugmyndanna, höfðum báðar áhuga á sagnfræði og heilluðumst af franskri tungu og menningu. En staða íslenskra kvenna og kvenréttindabarátta voru þó þau málefni sem á okkur brunnu og rædd voru í þaula, hvenær sem færi gafst. Í þeim efnum lét vinkonan mín kæra ekki sitt eftir liggja. Hún lauk BA- og MA-prófum í sagnfræði og stundaði merkar rannsóknir varðandi atvinnuþátttöku reykvískra kvenna. Með kennslu sinni og rannsóknum lagði hún grunn að kvennasögu og gerði hana að íslenskri fræðigrein. Mikið dáðist ég að henni þegar út kom gagnmerk bók hennar, Veröld sem ég vil, um sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu.

Ung kynntist Sigríður glæsilegum pilti sem þá átti heima í hjarta höfuðstaðarins við Hverfisgötuna og þau giftu sig árið 1953. Hinn lánsami var Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaarkitekt og forstjóri, sem lést fyrir tveimur árum. Reyndar urðu þau bæði lánsöm, því hjónaband þeirra varð einstaklega ástríkt og farsælt. Þau eignuðust fjögur börn, sem öll hafa látið að sér kveða og getið sér gott orð, hvert á sínu sviði.

Það verður svo ekki minnst á þau hjónin bæði, að ekki sé getið um húsið þeirra reisulega, við Bergstaðastrætið, sem er einstakt í sinni röð. Heimili þeirra, sem var sérstaklega hlýlegt og fallegt, endurspeglaði einlæga gestrisni húsráðenda. Þaðan á ég dýrmætar minningar um góðra vina fundi. Við Ástríður, dóttir mín, vorum þar gestir á gamlárskvöld um langt árabil.

Sigríður var glæsileg í fasi, glaðsinna og skemmtileg. Hún var leiftrandi greind og hafði sérstakt lag á því að vekja áhuga okkar samtíðarmanna á hugðarefnum sínum. En ekki síst var hún einstakur vinur, hollráð, trygglynd og umhyggjusöm.

Stundum finnst mér það hafi verið í gær sem við Sigríður stigum fyrstu sporin á okkar löngu vinavegferð. Nú lít ég þakklát um öxl, því það voru auðnuspor.

Vigdís Finnbogadóttir.

Í dag kveðjum við kæra vinkonu, Sigríði Th. Erlendsdóttur, andbýling okkar á Bergstaðastrætinu í rúma sex áratugi. Bekkjarsystkinin allt frá gagnfræðaskólaaldri kveðja líka góðan félaga, en þau urðu stúdentar frá MR 1949 í hópi 105 samstúdenta. Hópurinn hefur haldið vel saman og hist mánaðarlega allt frá því að kom að starfslokum hjá þeim. Nú lifa 16 skólasystkin, og eru oftast 10 sem mæta, njóta lífsins, þakklát fyrir vináttu og heilsu.

Mikil samheldni og vinskapur hefur verið í hópi skólasystkinanna alla tíð og hefur það ekki síst verið að þakka tryggð Siggu og rausnarskap hennar og Hjalta Geirs heitins. Þegar um stór tímamót var að ræða hjá árganginum buðu þau ýmist til fagnaðar á sínu fallega heimili á Bergstaðastrætinu eða í sumarhúsi sínu í Laugarási í Biskupstungum. Síðasta stórhátíð hjá árganginum var þegar haldið var upp á sjötíu ára stúdentsafmælið fyrir þremur árum. Þá buðu þau Sigga og Hjalti Geir til veislu á Bergstaðastrætinu, spilað og sungið og Sigga í essinu sínu í gestgjafahlutverkinu. Þá hefur hópurinn farið í ferðalög, innanlands og utan. Siggu verður sárt saknað í bekkjarsystkinahópnum, sem hittist á kaffitorginu í Neskirkju.

Við Eggert teljum það mikið happ fyrir okkur og fjölskyldu okkar að hafa verið andbýlingar og notið vináttu Siggu og Hjalta Geirs og fjölskyldu þeirra öll þessi ár. Við höfum orðið þess aðnjótandi að fagna með þeim á mörgum gleðistundum og eigum ógleymanlegar minningar með þeim. Þeirra er beggja saknað. Afkomendurnir eru orðnir margir, fjölskyldan einstaklega samheldin, og það fór ekki milli mála hvað Sigga mat þau öll mikils.

Við sendum þeim innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Dagbjartsdóttir

og Eggert Ásgeirsson.

Leiðir okkar Sigríðar lágu saman á vettvangi Kvenréttindafélags Íslands. Þegar ég tók við formennsku í félaginu 1992 lá fyrir handrit hennar að sögu félagsins, sem hún hafði unnið að um skeið. Stjórn KRFÍ hafði nokkrum árum áður stofnað Söguritunarsjóð og fengið Sigríði til að hefja vinnu við að safna heimildum, rannsaka gögn félagsins og skrifa söguna. Hún bjó þá þegar að yfirgripsmikilli þekkingu á kvennasögu Íslands eftir sagnfræðinám við Háskóla Íslands.

Þetta sumar var hafist handa við að undirbúa útgáfu verksins. Útgáfustjórn var skipuð, Björg Einarsdóttir rithöfundur var ráðin ritstjóri myndefnis væntanlegrar bókar og Elisabet A. Cochran tók að sér útlit og hönnun. Skemmtilegur tími tók við á skrifstofu félagsins á efstu hæð Hallveigarstaða við Túngötu, þar sem umhverfið og birtan lék við okkur, en bestur var að sjálfsögðu félagsskapurinn.

Sigríður gerir í sögunni ítarlega grein fyrir aðdraganda að stofnun KRFÍ og samskiptum við alþjóðlegu kvenréttindahreyfinguna og leitar víða fanga. Þar var hlutur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur mestur og merkilegt að sjá hve öflug hún var við að skapa tengsl og kynna málefni íslenskra kvenna, ekki einungis á Norðurlöndum, heldur líka meðal talsmanna kvenréttinda annars staðar í Evrópu og Bandaríkjunum.

Í byrjun tuttugustu aldar voru Alþjóðlegu kvenréttindasamtökin stofnuð, IAW, og í gegnum þau barst mikil hvatning og áskorun til íslenskra kvenna að stofna félag sem berðist fyrir pólitískum réttindum þeirra. Formaður IAW lagði ríka áherslu á að Ísland fengi sjálfstæða og fullgilda aðild að samtökunum, en yrði ekki aðili á vegum Danmerkur.

Sigríður tengir vel saman í sögu sinni kvenfrelsisbaráttuna og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hún fer m.a. rækilega yfir starf félagsins varðandi réttindi kvenna á vinnumarkaði, málefni einstæðra mæðra og áhrif á lagasetningu Alþingis og fjallar um þau fjölbreyttu viðfangsefni, sem voru á borði félagsins eftir að kosningarétturinn var fenginn.

Veröld sem ég vil – saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992 kom út 1993 og ber Sigríði gott vitni. Það var bæði ánægjulegt og lærdómsríkt að vinna með henni að þessu verkefni. Sigríður var skemmtileg, ljúf í viðmóti en ákveðin. Hún hafði góða nærveru.

Hjalti Geir Kristjánsson, eiginmaður Sigríðar, hafði mikinn áhuga á verkefninu og studdi okkur með ráðum og dáð. Nú eru þau bæði horfin á braut og við Geir minnumst þeirra með virðingu og þakklæti fyrir góð kynni. Við sendum fjölskyldunni einlægar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Sigríðar Th. Erlendsdóttur.

Inga Jóna Þórðardóttir.

Sigríður Theodóra Erlendsdóttir. Hljómfagurt nafn sem hæfði einstakri hamingjukonu.

Hamingjuna skóp hún sjálf með því að vera sjálfri sér trú og óhrædd að feta eigin leiðir. Hún var fjölskyldumanneskja og hefði óhikað sagt eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir að hennar mesta hamingja í lífinu væri góður eiginmaður og börnin. Sigga og Hjalti Geir fallegasta parið, samhent og jafningjar í einu og öllu, börnin og barnabörnin augasteinarnir hennar.

Hún var orðin meira en fertug þegar hún hóf háskólanám og lét að sér kveða svo um munaði. Gerðist brautryðjandi í kvennasögurannsóknum, ritaði grundvallarrit og skildi eftir sig djúp spor í íslenskri sagnfræði. Fannst hún eiga formæðrum sínum skuld að gjalda‘ eins og hún sagði í viðtali. Hún var fyrst til að kenna námskeið í kvennasögu við Háskóla Íslands og hafði mótandi áhrif á nýja kynslóð sagnfræðinga sem sýndi þakklæti í verki með glæsilegu afmælisriti þegar hún var sjötug.

Lífsverkið hennar er ríkulegt, hvert sem litið er. En mestu skiptir hvílíka persónu hún hafði að geyma. Sigga og Hjalti Geir voru vinir tengdafólksins míns – og urðu þar með vinir mínir. En svo kynntist ég þeim báðum á mínum eigin forsendum og hreifst af þeim. Við tvær unnum t.d. saman í úthlutunarnefnd rithöfunda um þriggja ára skeið og betri samstarfskonu var ekki hægt að hugsa sér, samviskusöm og heiðarleg, réttsýn og úrræðagóð, skemmtileg og snjöll. Það var engin lognmolla á þeim fundum.

Í júní áttum við töfrandi stund með henni og fjölskyldunni hjá Jóhönnu Vigdísi. Sól skein í heiði á einum lengsta degi sumarsins. Hún var hrókur alls fagnaðar eins og jafnan, óspör á hrós og uppörvun, umkringd börnum og barnabörnum. Hún hafði lag á að stækka fólkið í kringum sig og sá í gegnum holt og hæðir. Sjarmerandi og beinskeytt í svörum, með stríðnisblik í augum. Gleðin og birtan í kringum hana nánast áþreifanleg. Þannig mun ég geyma hana í huganum.

Guðrún Nordal.

Það hallar að hausti, laufin farin að falla af trjánum. Sigga vinkona mín kvaddi þennan heim á fallegu haustkvöldi. Hún fæddist 16. mars 1930. Hún var elst fjögurra systkina en hin hétu Guðríður og tvíburarnir Guðrún og Ólafur en hann lést ungur að árum. Kynni okkar hófust um það leyti sem við fermdumst í Fríkirkjunni. Báðar gengum við í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og síðan í MR þaðan sem við útskrifuðumst 1949. Á gagnfræðaskólaárunum ákváðum við, 14 stelpur, að stofna saumaklúbb sem fékk nafnið Kaspír. Við höfum haldið hópinn æ síðan en í dag erum við aðeins fjórar á lífi. Eftir stúdentspróf skildu leiðir um stund, sumar fóru utan í nám, aðrar í Háskóla Íslands og út á vinnumarkaðinn. Ein okkar, Vigdís Finnbogadóttir, varð forseti Íslands 1980 en við vinkonurnar studdum hana í kosningabaráttunni með ráðum og dáð. Sigga fór í HÍ og lærði frönsku og ensku og fór að vinna í franska sendiráðinu. Seinna á lífsleiðinni fór hún aftur í háskólann og tók mastersgráðu í sagnfræði og kenndi kvennasögu þar að námi loknu. Árið 1953 giftist Sigga Hjalta Geir Kristjánssyni húsgagnaarkitekt og athafnamanni. Þau eignuðust fjögur börn sem öllum hefur vegnað vel í lífinu. Afkomendur Siggu og Hjalta Geirs eru margir og veittu þeir þeim mikla gleði. Sigga hafði einstaklega góða nærveru og gaf mikið af sér. Börnin mín minnast hennar sem einstaklega skemmtilegrar konu. Ég mun sakna góðrar vinkonu og sendi börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Helga Gröndal.

Það eru bráðum 40 ár síðan við fjölskyldan urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast nýja nágranna fyrir austan fjall. Snemma varð ljóst að þar réð ekkert meðalfólk húsum heldur höfðingjar, hvort á sinn hátt. Þarna voru knýtt saman vináttubönd sem alltaf héldu. Hjalti Geir og Sigga áttu sér fáa jafnoka og var auðsjáanlegt að þeim var líka annt um sveitunga sína. Það er e.t.v. leikur að stráum að rifja upp öll þau góðu kynni og eftir því sem árin líða áttar maður sig enn betur á hversu dýrmæt þau voru. Lífið snýst líka umfram allt um að búa til góðar minningar og láta gott af sér leiða. Þekkingin var þeim ekki dauður bókstafur heldur andlegur innblástur sem hreif og heillaði aðra. Þarna var hlegið með bakföllum og gjarnan erfitt að slíta sig frá gleðskapnum.

Ég bjó 20 ár vestanhafs en ef ég var á heimaslóð lagði ég mig eftir því að koma við hjá þeim hjónum eins oft og ég gat. Sigga var mótuð af klassískri menningu, mælti skörulega og stórfróð um menn og málefni. Iðulega var farið um víðan völl enda í lífshörpu hennar margir strengir. Hún talaði stundum um fólkið sitt í Landsveit og Rangárvöllum og fór kærleiksríkum orðum um uppeldið enda uppskar hún ríkulega. Líka um sjómanninn föður sinn sem lifði hættulega tíma þegar sjóslys voru svo tíð. Allt féll þetta vel að andblæ þess sem þetta ritar.

Mál líðandi stundar voru krufin til mergjar og oftar en ekki menning og listir. Ég naut þess sérstaklega að ausa úr viskubrunni hennar um sögu kvennahreyfinga á Íslandi. Við ræddum gjarnan um þá karlmenn sem skiptu sköpum í þessum efnum eða lögðu gott til og oftar staldrað við Hannes Hafstein og Skúla Thoroddsen. Hún fræddi mig um merkilega sögu Kvenréttindafélags Íslands en ég var enn forvitnari um Hið íslenska kvenfélag stofnað 1894. Eitt þeirra fyrsta baráttumál var að þvotti var ekið í Laugarnar en áður höfðu konur þurft að bera hann á bakinu marga kílómetra.

Ég man enn hvað mér þótti þetta merkilegt og má með sanni segja að mjór sé mikils vísir. Sama félag lagði líka mikið af mörkum og barðist fyrir stofnun Háskóla Íslands. Þetta opnaði líka augu mín betur fyrir þeim konum sem helguðu sig fyrst myndlist á Íslandi og hvatti mig áfram á þeim vettvangi en saga þeirra er stór og merkileg. Þau hjónin sýndu listaverkasöfnun minni áhuga og það kom fyrir að ég snaraði með mér einu slíku til að sýna þeim þegar ég kom í kaffi í Bergstaðastræti.

Þótt vissulega hafi verið farið að halla degi þá er erfitt að hugsa sér að Sigga sé dáin. Síðast þegar ég hitti hana var andinn síglöggur og kvikur þrátt fyrir háan aldur og ég frétti nýlega af henni á listsýningu niðri í bæ. En vissulega hverfum við öll fyrir honum þegar nóg er lifað. Eftir sem áður er mikill söknuður að þessari glæsilegu nútímakonu sem átti um leið djúpar rætur í menningararfi þessarar þjóðar. Fjölskyldan úr Brekkugerði þakkar vináttu í áratugi. Þar er ekkert kvöld, ekkert sólarlag, aðeins bjartur dagur.

Guð blessi minningu Sigríðar Theódóru Erlendsdóttur.

Skúli Gunnlaugsson.

Það er með djúpu þakklæti og eftirsjá sem við félagarnir kveðjum frú Sigríði, eins og við kölluðum hana ávallt i virðingar- og vinarskyni, nú þegar hún hefur kvatt þessa jarðvist eftir langt og viðburðaríkt líf. Þau eru ófá skiptin í gegnum áratugina sem við höfum átt samtals- og gleðistundir með þeim hjónum Hjalta Geir og frú Sigríði, ýmist á Bergstaðastrætinu eða á griðastað þeirra hjóna í Laugarási. Þeirra stunda er einkar ljúft að minnast. Nú hafa þau bæði kvatt með stuttu millibili en minningin um þau er svo ljúf og góð að það setur að okkur bros þegar vinafundir með þeim eru rifjaðar upp.

Frú Sigríður fylgdist grannt með námi okkar félaganna og þroska gegnum árin og mundi allt í þeim efnum. Þrátt fyrir að við værum fimm félagarnir vissi hún alltaf hvar hver stóð og gat rakið úr okkur garnirnar með einlægum áhuga og eftirfylgni. Hún lagði ávallt eitthvað gott til, á sinn kvika og skjótvirka hátt, og við vissum að ráð hennar voru gagnleg.

Frú Sigríður var brautryðjandi í mörgu tilliti og fyrirmynd og sýndi það á sjálfri sér hvernig maður lætur drauma sína rætast. Afrek hennar á sviði sagnfræði og sérstaklega kvennasögu voru okkur merki um það hvernig hún lét verkin tala.

Þannig minnumst við þessarar merku konu sem var svo sérstakur og ógleymanlegur mannvinur. Vináttan sem hún sýndi okkur var óskipt og einlæg og að fá þess notið er ekki sjálfgefið. Fyrir það viljum við þakka.

Við biðjum Guð að blessa minningu frú Sigríðar og vottum Erlendi vini okkar og fjölskyldunni allri innilega samúð. Þið megið vera þakklát fyrir hversu lengi þið gátuð haft frú Sigríði hjá ykkur því gengin er einstök og ógleymanleg kona.

Ársæll, Bergþór,

Egill Heiðar, Gissur og Guðmundur Páll.

Sigríður Th. Erlendsdóttir varð fyrsta konan til að kenna kvennasögu við Háskóla Íslands árið 1982. Hún var sú eina hér á landi sem hafði lokið kandídatsprófi á því sviði (um atvinnuþátttöku reykvískra kvenna 1890-1914) og þegar nokkrar áhugasamar ungar stúlkur sem stunduðu sagnfræði fóru fram á það að fá kennslu í kvennasögu var hún ráðin í það verkefni. Hún taldi sig heppna en ekki voru þau sem nutu kennslu hennar síður heppin. Segja má að með rannsóknum sínum hafi Sigríður lagt grunninn að kvennasögu sem fræðigrein hér á landi. Stórvirki Sigríðar, Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, er ekki einungis saga félagsins heldur einnig saga jafnréttisbaráttu á 20. öld og afar velheppnað sagnfræðirit.

Við Sigríður sátum saman í stjórn Sagnfræðingafélagsins á árunum 1982-1983 en sátum mun lengur saman í stjórn Sögufélags í forsetatíð Einars Laxness. Þar var gaman að vera. Í minningunni eru þetta skemmtilegustu stjórnarfundir sem ég hef upplifað. Alltaf gafst tími til að rabba saman yfir kaffibolla áður en formleg dagskrá hófst. Við vorum þarna þrjár, við Sigríður og auðvitað Ragnheiður Þorláksdóttir, ásamt þeim ágætu karlmönnum sem sátu með okkur í stjórn. Félagslíf stjórnarinnar var líflegt og man ég vel eftir heimboði í Laugarásinn sem Sigríður og Hjalti Geir buðu okkur til ásamt fleiri góðum gestum. Það þarf vart að taka fram að móttökurnar voru frábærar.

Síðla hausts 1999 rifjaðist það upp fyrir Ingu Huld heitinni Hákonardóttur að brátt yrði Sigríður sjötug og auðvitað yrði að gefa út afmælisrit henni til heiðurs. Inga fékk okkur Erlu Huldu Halldórsdóttur fyrst í lið með sér og síðan bættust aðrar við. Afraksturinn var ritið Kvennaslóðir sem kom út árið 2001 og rituðu fjörutíu kvensagnfræðingar greinar í það – eða allar þær sem voru virkar í fræðigreininni um aldamótin.

Sigríður settist í stjórn Sögufélags fyrst kvenna 1978, 76 árum eftir að félagið var stofnað árið 1902. Á þeim tæplega áttatíu árum höfðu átta karlmenn verið kjörnir heiðursfélagar. Því kemur varla á óvart að stjórn Sögufélags ákvað árið 2008 að gera hana að fyrstu konunni til að hljóta sama heiður fyrir störf hennar í þágu sagnfræðinnar og Sögufélags.

Sigríður átti viðburðaríka og ævintýralega ævi og á seinni árum hitti ég hana margsinnis á fyrirlestrum um sagnfræðileg efni, ósjaldan með Guðrúnu systur sinni. Hún var gæfukona í einkalífi, farsælt hjónaband þeirra Hjalta Geirs stóð í um sjötíu ár. Þau eignuðust fjögur mannvænleg börn og hún var fyrir löngu orðin langamma.

Sigríður var glæsileg kona og ávallt með bros á vör. Þótt Sigríður sé nú farin frá okkur lifir minningin um skemmtilega og greinda konu: Auk þess munu ritverkin halda nafni hennar á loft um ókomna framtíð. Ég votta börnum hennar og öðrum afkomendum mína dýpstu samúð.

Anna Agnarsdóttir.

Árið 1978 fékk þáverandi forseti Sögufélags, prófessor Björn Þorsteinsson, nemanda sinn, Sigríði Th. Erlendsdóttur, í stjórn Sögufélags. Hún var fyrsta konan sem sat í stjórn félagsins en Sögufélag var stofnað 1902. Fimm karlar voru aðalmenn og stundum sátu tveir varamenn líka stjórnarfundina, sem sagt sjö karlar. Nú var Sigríður mætt til leiks og urðu stjórnarfundirnir ólíkt skemmtilegri og líflegri. Björn var ævinlega mjög meðvitaður um að konur ættu að koma oftar við sögu. Var áberandi hversu innilega hann hvatti kvenkyns nemendur sína áfram.

Einar Laxness tók svo við sem forseti félagsins og fljótlega í hans tíð komu út óvenjumargar bækur. Hvert sinn sem ný bók kom úr prentsmiðju höfðum við Sigríður gjarnan á orði að nú þyrfti að lyfta glasi. Þá horfði Einar forseti á okkur Sigríði og sagði: „Hvernig er það með ykkur konur, eruð þið alveg selskapssjúkar?“ Við Sigríður fengum þetta oftast í gegn og þegar fjörið stóð sem hæst sagði Einar gjarnan: „Mikið var þetta góð hugmynd hjá ykkur. Haldið þið að veitingarnar dugi, er ekki vissara að ég fari að losa um varadekkið?“ Undir varadekkinu í bílnum sínum átti Einar ævinlega eina góða flösku til að grípa til ef mikið lægi við.

Elsku Sigga, ég er alls ekki með neitt samviskubit yfir því hversu oft við pöntuðum að lyft yrði glasi enda fáir sem skemmtu sem sér betur en sjálfur forsetinn. Viðmiðið hjá okkur var líka að þegar Einar losaði um varadekkið hafi samkvæmið verið fullkomið og það gerðist ósjaldan. Mikið var gaman. Ég held að ég muni aldrei venjast því að Sigríður Th. Erlendsdóttir, elsku Sigga, sé horfin.

Ragnheiður Þorláksdóttir.

Við leiðarlok er mér ljúft að minnast Sigríðar Th. Erlendsdóttur.

Í maí 1988 kom stór hópur manna saman og stofnaði vinafélag Þjóðminjasafns Íslands, Minjar og sögu. Einn af stofnendum félagsins var Sigríður Th. Erlendsdóttir og var hún kjörin í fyrstu stjórn þess. Sigríður var menntuð sem sagnfræðingur og mikill áhugamaður um íslenska menningu og sögu. Hún var kunn fyrir rannsóknir í sagnfræði, kennslu við Háskóla Íslands og síðar bókina Veröld sem ég vil. Það var fengur að því af fá hana í stjórn félagsins. Hún átti eftir að gegna stjórnarstarfi í tæpa þrjá áratugi. Við áttum samleið í stjórn félagsins frá upphafi og áttum mjög gott samstarf en því var svo háttað að ég gegndi starfi formanns í tæpan aldarfjórðung og var hún ritari á sama tíma.

Það var mikil gæfa að starfa með Sigríði, en hún sinnti starfi sínu af kostgæfni. Ég held að hún hafi nánast komið á alla stjórnarfundi félagsins á sínum tíma og var virkur þátttakandi. Hún var ávallt jákvæð, bjartsýn og opin fyrir öllum góðum hugmyndum til að styðja og styrkja Þjóðminjasafn Íslands. Það fólst aðallega í því að afla merkra gripa og minja sem best eru talin varðveitt í safninu eða á vegum þess vegna menningarsögulegs gildis. Einnig að fá fræðimenn til að halda fyrirlestra. Og enn má nefna ferðalög sem tengjast sögu og menningu, bæði innanlands og utan.

Það birti alltaf yfir þegar Sigríður brosti sínu fallega brosi sem lýsti bæði ytri og innri fegurð hennar. Hún hafði góða kímnigáfu og átti til að segja skemmtilegar sögur. Sigríður hafði góða þekkingu á þeim málum sem um var fjallað. Hún vann ötullega að því að afla fjár til kaupa á gripum handa safninu, bar fram góðar hugmyndir um fyrirlesara og tók virkan þátt í ferðum á vegum félagsins. Ég minnist m.a. þriggja fræðsluferða, til Kaupmannahafnar, Parísar og Edinborgar þar sem þau Sigríður og eiginmaður hennar Hjalti Geir Kristjánsson voru þátttakendur. Þau Sigríður og Hjalti Geir voru skemmtilegir ferðafélagar.

Að leiðarlokum þakka ég Sigríði Th. Erlendsdóttur fyrir gott samstarf og ánægjuleg kynni og sendi öllum ástvinum hennar innilegustu samúðarkveðjur.

Sverrir Kristinsson.

Þegar ég hóf BA-nám í sagnfræði á níunda áratug síðustu aldar hafði kvennasaga tiltölulega nýlega haldið innreið sína í sagnfræði við Háskóla Íslands. Það var Sigríður Th. Erlendsdóttir sem kenndi fyrsta námskeiðið í kvennasögu veturinn 1982-1983 eftir að ungar konur í hópi nemenda báðu um að hún kenndi slíkt námskeið. Þær höfðu fengið nóg af þeirri karllægu sögu sem var á boðstólum.

Sjálf var ég í kvennasögu hjá Sigríði haustið 1987 og skrifaði BA-ritgerð undir hennar leiðsögn vorið 1989. Í endurminningunni sit ég í stofunni heima hjá henni á Bergstaðastræti, drekk kaffi úr postulínsbollum, borða svissneskt konfekt og hlusta á hana tala af ástríðu um bæði kvenréttindakonur aldamótanna 1900 og nýju kvennahreyfinguna, sem hafði afgerandi áhrif á hana sjálfa.

Sigríði kynntist ég betur árið 1996 þegar ég varð forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, sem tók til starfa í Þjóðarbókhlöðunni sama ár. Sigríður var í stjórn safnsins og vann einarðlega að framgangi þess. Hún skrifaði auk þess vandaða grein um Önnu Sigurðardóttur, stofnanda safnsins, í Andvara árið 2000 þar sem hún fléttar saman persónusögu, sögu kvenréttinda og samfélagsbreytinga. Það var því vel við hæfi að Kvennasögusafnið gæfi árið 2001 út bókina Kvennaslóðir til heiðurs Sigríði sjötugri.

Sigríður sá reyndar sjálf um að skrá og varðveita sögu kvenna með verkum sínum. Fyrstu rannsóknir hennar snerust um konur í vist, atvinnulífi og kvennahreyfingu aldamótanna 1900. Hún tók þátt í norrænu samstarfi um sögu kvenna og tók saman rit um breytingar á réttarstöðu íslenskra kvenna á 20. öld. Stórvirki hennar er bókin Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992, sem kom út árið 1993. Þar rekur hún sögu íslenskrar kvennabaráttu frá lokum 19. aldar, aðdragandann að stofnun Kvenréttindafélagsins og starf þess, sem er samofið samfélagsþróun og stjórnmálum 20. aldar, til 1992. Um árabil var þessi bók eina heildstæða ritið um sögu íslenskra kvenna á 20. öld.

Sigríður var glæsileg kona, skörp, hlý og jákvæð. Hún hafði gaman af að segja frá enda var aldrei leiðinleg stund á fundum með henni, hvað þá við óformlegri tækifæri. Hin síðari ár hittumst við einkum á fyrirlestrum um söguleg efni. Þar var hún oft með Guðrúnu systur sinni og spurði frétta. Hún hafði óbilandi áhuga á sagnfræði og því hvað ungu konurnar í faginu væru að gera.

Ég á Sigríði Th. Erlendsdóttur skuld að gjalda bæði persónulega og faglega. Persónulega fyrir hvatningu hennar og áhuga á rannsóknum mínum í áratugi. Faglega fyrir brautryðjandastarf í kvenna- og kynjasögu, fagsviði sem er nú sérsvið mitt í starfi við Háskóla Íslands. Með kennslu, leiðbeiningu og verkum sínum lagði Sigríður grunn að sviðinu og mótaði kynslóð kvenna í sagnfræði sem hafa ýmist látið til sín taka á vettvangi fræðanna eða iðkað sinn femínisma á sviði pólitíkur og samfélags. Enn eru verk hennar lesin og vísað til þeirra í rannsóknum á sögu íslenskra kvenna.

Ástvinum Sigríðar Th. Erlendsdóttur votta ég innilega samúð.

Erla Hulda

Halldórsdóttir.

Kveðja frá Sögufélagi

Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur var brautryðjandi í hópi fræðikvenna á Íslandi. Sigríður var fyrsta konan í stjórn Sögufélags og starfaði ötullega fyrir félagið sem stjórnarmaður á árunum 1978-1988. Hún sat í stjórn félagsins undir forsæti Einars Laxness. Á þeim tíma var unnið að margvíslegum útgáfuverkum. Þegar Sigríður settist í stjórn félagsins hafði hún nýlega lokið BA-prófi í sagnfræði og hélt áfram til frekara náms. Meginritverk hennar er saga Kvenréttindafélags Íslands. Hún kom víða við í skrifum sínum, ávallt með sögu kvenna að leiðarljósi, skrifaði ritdóma, hvatti samferðamenn sína og nemendur til góðra verka og fór fram með góðu fordæmi. Sigríður var gerð heiðursfélagi í Sögufélagi árið 2008 og var jafnframt fyrsta konan til að hljóta þann heiður í hinu ríflega aldargamla félagi. Sigríður fylgist grannt með starfi félagins alla tíð og var virkur félagsmaður. Félagið sendir aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur með þökk fyrir óeigingjarnt starf hennar í þágu félagsins.

Fyrir hönd stjórnar Sögufélags,

Hrefna Róbertsdóttir.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa um Sigríði Erlendsdóttur. Sigga var hugulsöm, yndisleg, afburða klár, hnyttin og skemmtileg, alltaf til staðar og einstaklega töff! Ég sakna þín innilega, elsku Sigga, og ég er í raun ekki búin að átta mig á því að þú sért farin. Takk fyrir allar dásamlegu og skemmtilegu samverustundirnar, takk fyrir að vera langbesta vinkona mömsu, takk fyrir öll dásamlegu gamlárskvöldin, takk fyrir að prjóna peysur og teppi á börnin mín þegar þau fæddust, takk fyrir hvatninguna, takk fyrir brosið þitt, og ekki síst takk fyrir að fá að vera hluti af þinni yndislegu fjölskyldu. Ég hugga mig við að þið Hjalti Geir getið sameinast á fallegum stað, notið og hlegið. Það eru ekki margir sem ná að hafa svo mikil áhrif á fólkið í kringum sig eins og þú gerðir með næmni þinni, fegurð og hlýju. Takk, elsku Sigga. Við söknum þín en góðar og fallegar minningar lifa áfram og verma.

Con amore,

Ástríður Magnúsdóttir.