Matreiðsluþættir eru dálítið skrítin hugmynd. Matargerð getur auðvitað verið mikil list og bestu kokkar heims skapandi listamenn. Það er svo sem gott og blessað að fylgjast með slíkri listsköpun í sjónvarpi en um leið skrítið að kvelja sig með þeim hætti. Já, kvelja sig, segi ég, því það er kvöl og pína að horfa á Nigellu búa til girnilegasta eftirrétt í heimi og fá ekki að borða hann! Sykurlöngunin blossar upp þar sem ég sit í mínum mjúka sófa, nýbúinn að borða kvöldmat og velti fyrir mér af hverju í ósköpunum ég geri mér þetta. Er ég masókisti?
Netflix hefur að geyma mikinn fjölda matreiðsluþátta og einn slíkan horfði ég á um daginn af því ég læri greinilega ekki af reynslunni. Var það þáttur í syrpunni Chef's Table, helgaður bestu pítsum heims. Og hvar skyldi besta pítsa í heimi vera? Jú, í Phoenix í Arizona af öllum stöðum og maðurinn sem skapar hana Chris nokkur Bianco, algjör flatbökugaldrakarl. Svo mikil er ástríða hans fyrir flatbökum að hann er orðinn lungnaveikur eftir allt hveitið og reykinn í tugi ára.
Og mamma mía hvað pítsurnar hans eru girnilegar! Ég fór glorsoltinn í háttinn þetta kvöld og bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa enn og aftur gert þau mistök að horfa á matreiðsluþátt.
Helgi Snær Sigurðsson