Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Varnarmálaráðherrar vesturveldanna funduðu í gær í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins NATO í Brussel og ræddu um þörfina á að senda frekari loftvarnakerfi til Úkraínu í kjölfar hinna miklu eldflaugaárása Rússa á borgir og orkuinnviði landsins í upphafi vikunnar.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO sagði að hinar hryllilegu árásir Rússa gegn óbreyttum borgurum hefðu sýnt fram á hina brýnu þörf á að senda frekari loftvarnakerfi til Úkraínu. Lloyd Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sagði sömuleiðis að heimsbyggðin hefði enn og aftur fengið að sjá þá grimmd og illvilja sem fylgdu stríði Pútíns Rússlandsforseta. „En nýjustu árásir Rússa hafa bara ýtt undir festu úkraínsku þjóðarinnar og sameinað frekar velunnara hennar,“ sagði Austin.
Alls voru fulltrúar um fimmtíu ríkja á fundinum, og ræddu þeir ítarlega um hvernig mætti best koma háþróuðum loftvarnakerfum til Úkraínumanna, sér í lagi þar sem framboð á slíkum kerfum er ekki mikið. Þjóðverjar kynntu í vikunni að þeir myndu hraða uppsetningu Iris-T-loftvarnakerfisins í Úkraínu, og er fyrsta kerfið af fjórum nú komið til landsins. Kerfið er af nýjustu gerð, og hafa Þjóðverjar sjálfir ekki tekið það í notkun.
Þá ætlar Bandaríkjastjórn að senda tvö NASAMS-loftvarnakerfi, sem er sérhannað gegn eldflaugum og drónum, til Úkraínu á allra næstu vikum. Bandaríkjaher hyggst senda sex slík kerfi til viðbótar, en þau eru ennþá í framleiðslu, og hermdu heimildir AFP-fréttastofunnar að Bandaríkjastjórn væri að skoða að senda loftvarnakerfi frá tímum kalda stríðsins til þess að brúa bilið þar til búið verður að framleiða NASAMS-kerfin nýju.
Austin sagði að loftvarnakerfin yrðu send til Úkraínu eins fljótt og auðið væri, og að send yrðu þau kerfi sem væru tiltæk. Þá ætluðu Bandaríkjamenn einnig að senda meiri skotfæri fyrir þau kerfi sem Úkraínumenn notuðu núna.
Oleksí Resnikov varnarmálaráðherra Úkraínu sagði á Twitter-síðu sinni eftir fundinn að hin nýju loftvarnakerfi mörkuðu „upphaf nýs tímabils loftvarna“ í Úkraínu, en hann fundaði einnig sérstaklega með Austin og Mark Milley, yfirmanni herforingjaráðs Bandaríkjahers, um hvernig hægt væri að styrkja bardagagetu Úkraínuhers enn frekar. Sagði Milley fyrir fund varnarmálaráðherranna 50 að þeir myndu einkum skoða stórskotalið auk loftvarnakerfa.
Þurfa að fylla á eigin birgðir
Varnarmálaráðherrar bandalagsríkjanna munu funda sérstaklega í dag um þörfina á að auka eigin vopnabirgðir í ljósi þess hversu mikið hefur þegar verið sent til Úkraínu. Stoltenberg sagði að bandalagsríkin hefðu þurft að senda Úkraínumönnum sínar eigin skotfærabirgðir. „Þetta hefur verið það rétta til að gera, en að sjálfsögðu þurfum við að ræða hvernig eigi að fylla á þessar birgðir að nýju,“ sagði Stoltenberg en hann átti von á að ráðherrarnir myndu ræða það við hergagnaiðnaðinn í sínum eigin ríkjum.
Hann bætti við að fundurinn í Brussel væri haldinn á mikilvægum tímapunkti í stríðinu í kjölfar innlimunar Rússa á fjórum héruðum Úkraínu sem og lítt dulinna hótana rússneskra ráðamanna um að þeir væru tilbúnir að verja innlimuðu héruðin með kjarnorkuvopnum.
„Við höfum að sjálfsögðu tekið eftir vangaveltum um notkun minni kjarnorkuvopna í Úkraínu, og við höfum komið þeim skilaboðum skýrt áleiðis til Rússa að það myndi hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Rússland,“ sagði Stoltenberg, en vesturveldin hafa ekki tekið eftir neinum breytingum á vígstöðu kjarnorkuvopnabúrs Rússa, þrátt fyrir hótanirnar.
Átta handteknir í Rússlandi
Rússneska leyniþjónustan FSB lýsti því yfir í gær að hún hefði handtekið átta manns í tengslum við árásina á Kertsj-brúna á laugardaginn, og um leið að hún hefði komið í veg fyrir tvær meintar árásir, sem leyniþjónusta Úkraínu hefði ætlað að fremja innan landamæra Rússlands.
Í tilkynningu leyniþjónustunnar sagði að fimm Rússar hefðu verið meðal hinna handteknu, auk þriggja ríkisborgara frá Úkraínu og Armeníu, en ekki var farið nánar út í þjóðerni þremenninganna.
Þá lýsti FSB því hvernig sprengiefnunum hefði verið komið til Rússlands frá Úkraínu með viðkomu í Búlgaríu, Georgíu og Armeníu. Sagði í yfirlýsingu FSB að þau hefðu verið flutt í vörubíl með georgískum númeraplötum yfir landamærin og flutt svo yfir í vörubílinn sem notaður var til árásarinnar. Hefðu sprengiefnin verið falin í 22 plastrúllum, sem samtals vógu 22.770 kílógrömm.
FSB lýsti því einnig yfir í gær að hún hefði komið í veg fyrir tvær árásir Úkraínumanna, og átti önnur árásin að vera framin í nágrenni Moskvuborgar og hin í Bríansk, borg rétt hjá landamærunum við Úkraínu. Voru tveir Úkraínumenn á sextugsaldri handteknir vegna málanna tveggja.
Ná samkomulagi um herþjálfun
Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu í gær verkefni um að nokkur ríkjanna tækju að sér herþjálfun 15.000 Úkraínumanna. Náðist samkomulagið á fundi sendiherra aðildarríkjanna í Brussel, og verður það lagt fyrir utanríkisráðherra þeirra til staðfestingar þegar þeir funda í Lúxemborg eftir helgi.
Pólland og Þýskaland hafa þegar lýst yfir vilja sínum til að taka þátt í herþjálfuninni, og er fyrirhugað að það verði fjármagnað úr sérstökum friðarsjóði Evrópusambandsins, European Peace Facility, en hann hefur þegar verið nýttur til að fjármagna kaup Úkraínumanna á hergögnum frá aðildarríkjum sambandsins.
Stefnt er að því að utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna samþykki aukafjárveitingu á mánudaginn upp á 500 milljónir evra, eða sem nemur um 70 milljörðum íslenskra króna. Þá tilkynntu Kanadamenn að þeir ætluðu að senda hergögn að verðmæti um 47 milljónir bandaríkjadala til Úkraínu, en Kanadaher hyggst einnig leggja til verkfræðinga til þess að aðstoða við herþjálfun Úkraínumanna í Póllandi.