Mohamed Salah fór á kostum fyrir Liverpool þegar liðið vann stórsigur gegn Rangers í A-riðli Meistaradeildar karla í knattspyrnu í Glasgow í gær.
Leiknum lauk með 7:1-sigri Liverpool en Salah byrjaði á bekknum hjá enska liðinu.
Egyptinn kom inn á sem varamaður hjá Liverpool á 68. mínútu og átta mínútum síðar kom hann Liverpool í 4:1. Hann bætti svo við tveimur mörkum til viðbótar, á 80. mínútu og 81. mínútu.
Roberto Firmino skoraði tvívegis fyrir Liverpool og þá voru þeir Darwin Núnez og Harvey Elliott einnig á skotskónum fyrir Liverpool sem er komið með annan fótinn í 16-liða úrslit keppninnar eftir stórsigur gærdagsins.
*Tottenham er komið á toppinn í D-riðli eftir nauman sigur gegn Eintracht Frankfurt í Lundúnum.
Son Heung-Min skoraði tvívegis fyrir Tottenham í leiknum og þá var Harry Kane einnig á skotskónum fyrir enska liðið.
Tottenham er með 7 stig í efsta sæti riðilsins, stigi meira en Marseille og Sporting.
*Þá er Bayern München komið áfram í 16-liða úrslitin eftir 4:2-sigur gegn Viktoria Plzen í C-riðlinum í Tékklandi. Leon Goretzka skoraði tvívegis fyrir Bæjara í leiknum og þeir Sadio Mané og Thomas Müller sitt markið hvor.
Bayern München er með fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins eða 12 stig.