[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gísli Ferdinandsson fæddist í Reykjavík 13. október 1927 og ólst upp á Grettisgötu 19. Gísli gekk í Austurbæjarskóla sem barn og lauk síðar sveinsprófi í skósmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1948.

Gísli Ferdinandsson fæddist í Reykjavík 13. október 1927 og ólst upp á Grettisgötu 19.

Gísli gekk í Austurbæjarskóla sem barn og lauk síðar sveinsprófi í skósmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1948. Hann lærði og vann á skósmíðaverkstæði föður síns um tíma á Hverfisgötunni og stofnaði síðar sitt eigið verkstæði í Lækjargötu 6. Mörgum er það minnisstætt að hafa farið með skóna sína í viðgerð til hans þangað, tekið með honum eina skák jafnvel og fengið kaffisopa og skemmtilegt spjall enda var alltaf líf og fjör í kjallaranum í Lækjargötunni.

Með tímanum eignaðist Gísli húsið í heild sinni og bæði bjó þar og rak skóverslun og verkstæði ásamt börnum sínum um áratuga skeið auk þess sem tveir synir hans lærðu sérstaklega til þess að sérsmíða skó fyrir fólk sem af heilsufarslegum ástæðum þurfti á þeim að halda. Gísli var formaður Landssambands skósmiða 1960-1972 og hlaut m.a. gullmerki Landssambandsins fyrir sitt framlag.

Gísli lærði ungur flautuleik og var fyrstur Íslendinga til þess að ljúka einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1950 en hann lærði hjá Árna Björnssyni tónskáldi á þeim tíma. Hann spilaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands 1952-1955 en hafði áður gengið til liðs við Lúðrasveitina Svan árið 1947 og var þá fyrsti vel menntaði hljóðfæraleikarinn sem með henni spilaði. Gísli starfaði óslitið með Svaninum til ársins 1998 eða í 51 ár og sló þar með öll met.

Þrátt fyrir mikla hæfileika á tónlistarsviðinu valdi hann skósmíðina fram yfir frekari frama með Sinfóníuhljómsveitinni enda hafði hann fyrir stórri fjölskyldu að sjá. Hann naut þess alltaf að spila með Svaninum og stóð af sér alla brotsjói sem yfir lúðrasveitina dundu í gegnum árin og er sá eini af eldri félögum sem starfaði á breytingartímum hennar á árunum 1976-1980. Gísli var formaður sveitarinnar 1950-1951 og gegndi þar einnig mörgum ábyrgðarstörfum. Hann var ennfremur endurskoðandi Svansins til fjölda ára og veitti gott aðhald hvað varðar fjárreiður félagsins.

Félagar hans sem gerðu hann að heiðursfélaga Svansins og gáfu honum gullmerki félagsins árið 1989 lýstu honum sem góðum og dyggum félaga og að kynslóðabil hefði verið eitthvað sem Gísli hefði ekki skráð í sína orðabók. Enda naut hann þess alla tíð að kynnast og fá að spila með sér yngra fólki.

Áhugamál

Gísli hefur í gegnum tíðina haft áhuga á mörgu og kannski allra helst á því að lifa lífinu lifandi. Hann hefur alltaf verið mjög virkur félagslega en líka þótt gott að hreyfa sig og hefur meðal annarra verið fastagestur í Laugardalslauginni um áratugabil. Hann hafði líka á yngri árum ákaflega gaman af því að ganga fjöll og naut þess að vera úti í náttúrunni með sínu fólki.

Gísli hefur alltaf verið sérlega áhugasamur um fugla og kann skil á fjöldanum öllum af mismunandi tegundum þeirra. Hann er vel lesinn í trúarbragðafræði og heimspeki og hefur alla tíð haft sérstakan áhuga á því að læra utanbókar hin ýmsu kvæði og ljóð auk afmælisdaga barna og barnabarna. Hann hefur alltaf verið ákaflega hlýr og vandaður afi sem hefur haft gaman af því að hafa barnabörnin með sér í sund, boðið upp á ís, bakkelsi og skemmtilegar gönguferðir í fjörum. Þá hefur hann sérlega gaman af því að spila við ungviðið og alveg sérstaklega þegar hann vinnur.

Fjölskylda

Gísli var giftur Sólrúnu Þorbjörnsdóttur húsmóður, f. 18.5. 1928, d. 12.9. 2006. Foreldrar Sólrúnar voru Þorbjörn Guðlaugur Bjarnason pípulagningameistari, f. 14.7. 1895 á Heiði á Síðu, V-Skaft., d. 8.11. 1971 og Guðríður Þórólfsdóttir húsmóðir, f. 20.9. 1894 á Dalshöfða í Fljótshverfi, V-Skaft., d. 8.11. 1980.

Þau hjónin Gísli og Sólrún hófu sinn búskap í sameiginlegu húsnæði fjölskyldu Sólrúnar sem faðir hennar hafði byggt í Drápuhlíðinni. Eftir því sem fjölskyldan stækkaði hófust þau síðan handa við að byggja sitt eigið hús og fluttu inn á sitt framtíðarheimili í Aratúni 9 í Garðabæ árið 1963 þá komin með 6 börn. Yngsta barnið fæddist síðan 1969 en í húsinu í Aratúni á stórfjölskyldan margar minningar.

Börn Gísla og Sólrúnar eru 1) Guðríður Valva, f. 12.5. 1954 og eru börn hennar þau Vincent Gísli og Elísabet Ásta Pálsbörn; 2) Kolbeinn, f. 16.12. 1955 og eru börn hans þau Sunneva, Gísli Ferdinand, Sigtryggur og Sólrún Dís; 3) Ólafur Haukur, f. 13.9. 1957 og eru börn hans Birna Björk, Sandra Björk, Svavar Már og Agnes; 4) Magnea Auður, f. 4.10. 1959 og eru dætur hennar Erla Björk, Sif og Andrea Jónína Jónsdætur; 5) Þorbjörn Reynir, f. 25.12. 1960 en dætur hans eru Unndís, Sólrún og Ariana; 6) Gísli, f. 12.2. 1963 en hans börn eru Snær, Gunnar, Sól Dís og Freyr; 7) Mattías Rúnar, f. 25.4. 1969 og börn hans eru Karen, Tara og Daníel Logi. Langafabörnin eru nú orðin 23.

Systkini Gísla: Vigdís, d. 2006, Gunnar, d. 2001, Eiríkur, d. 2008, Jón, d. 1996, Árni, d. 2020, ásamt Ferdinand Þóri, f. 17.8. 1936, sem ásamt Gísla er eftirlifandi.

Foreldrar Gísla voru hjónin Ferdinand Róbert Eiríksson skósmiður, f. 13.8. 1891 á Álftanesi, d. 12.2. 1978 og Magnea Guðný Ólafsdóttir húsmóðir, f. 4.4. 1895 á Eyrarbakka, d. 20.3. 1981.