Um 19 þúsund manns þáðu bólusetningu þegar íbúum höfuðborgarsvæðisins, 60 ára og eldri, var boðin bólusetning í sérstöku átaki í Laugardalshöll undanfarnar tvær vikur. Bólusett var við inflúensu og Covid-19 og gat fólk þegið bólusetningu við öðru hvoru eða hvoru tveggja.
Alls voru gefnir 13.125 skammtar við Covid-19, en aðeins var boðið upp á örvunarskammt fyrir þá sem höfðu áður þegið grunnbólusetningu. Þá voru gefnir 15.259 skammtaf af bóluefni við innflúensu.
Eftir að átakinu lauk hafa yfir 80 prósent landsmanna yfir 50 ára aldri fengið að minnsta kosti þrjá skammta af bóluefni og vel rúmur helmingur fólks á aldrinum 16 til 50 ára. Um helmingur landsmanna 70 ára og eldri hefur fengið fjóra skammta og þriðjungur fólks á aldrinum 60 til 69 ára.