Vörn Fjölniskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir og Blikinn Isabella Ósk Sigurðardóttir eigast við í Smáranum en þær voru báðar atkvæðamiklar í leiknum.
Vörn Fjölniskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir og Blikinn Isabella Ósk Sigurðardóttir eigast við í Smáranum en þær voru báðar atkvæðamiklar í leiknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Urté Slavickaité var stigahæst hjá Fjölni þegar liðið vann nauman sigur gegn Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Smáranum í Kópavogi í 4. umferð deildarinnar í gær.

Urté Slavickaité var stigahæst hjá Fjölni þegar liðið vann nauman sigur gegn Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Smáranum í Kópavogi í 4. umferð deildarinnar í gær.

Leiknum lauk með 69:65-sigri Fjölnis en Slavickaité skoraði 20 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Mikið jafnræði var með liðunum en Blikar leiddu 47:45 að þriðja leikhluta loknum. Fjölnir var hins vegar sterkara liðið í fjórða leikhluta og landaði sínum öðrum sigri í deildinni.

Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 15 stig fyrir Fjölni, ásamt því að taka ellefu fráköst, en Sabrina Haines var stigahæst í liði Breiðabliks með 27 stig.

*Þá fór Aliyah Collier á kostum fyrir Njarðvík þegar liðið vann öruggan sigur gegn ÍR í Skógarseli í Breiðholti. Leiknum lauk með 78:70-sigri Njarðvíkur en Collier skoraði 29 stig, tók 18 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Njarðvíkingar leiddu með átta stigum í hálfleik, 38:30, og ÍR-ingum tókst aldrei að ógna forskoti Íslandsmeistaranna í síðari hálfleik.

Raquel Laniero skoraði 18 stig fyrir Njarðvík, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar en Jamie Cherry var stigahæst í liði ÍR með 19 stig og sjö fráköst.

*Leik Vals og Keflavíkur var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun en umfjöllun um hann má nálgast á mbl.is/sport/korfubolti.