Hólmfríður María Ragnhildardóttir
Þorsteinn Ásgrímsson
Inga Þóra Pálsdóttir
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir, spurður hvort raunhæft sé að sátt náist innan sambandsins, það ekki sjálfgefið. „Við þurfum að leggja orku í þetta samtal og taka okkur tíma í þessa vinnu.“
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar og frambjóðandi til forseta ASÍ, telur það komið undir þremenningunum Sólveigu Önnu, Ragnari Þór og Vilhjálmi að sátt náist innan ASÍ.
„Það er náttúrlega að mestu leyti undir Sólveigu, Vilhjálmi og Ragnari komið. Það eru þau sem taka þessa ákvörðun að draga framboð sín til baka. Það er þeirra að vera tilbúin að vinna með ASÍ,“ sagði Ólöf í samtali við mbl.is í gær.
Kristján Þórður telur það hafa verið rétta ákvörðun að fresta þingi sambandsins fram á næsta ár, enda hafi aðstæðurnar sem upp voru komnar verið „fordæmalausar“.
Kristján Þórður sem var í framboði til fyrsta varaforseta ASÍ, hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig hann muni haga framboði sínu á næsta ári, en eins og stendur býður hann sig áfram fram til fyrsta varaforseta.
Líkt og greint var frá í gær var þingi ASÍ frestað fram á næsta ár. Tillaga þess efnis var samþykkt með miklum meirihluta á þinginu um hádegisbil í gær, enda taldi margur þingfulltrúinn ekki stætt á að halda því áfram undir þeim kringumstæðum sem höfðu myndiast með klofningi ASÍ.
Tillagan var borin upp í kjölfar uppákomu mánudagsins, þegar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, greindu frá því að þau væru búin að draga framboð sín til miðstjórnar ASÍ til baka. Þá gengu formenn VR og Eflingar af þinginu ásamt flestum þingfulltrúum sínum.
Að öllu óbreyttu mun Kristján Þórður skipa embætti forseta ASÍ fram að næsta þingi og gerir hann ekki ráð fyrir því að segja sig frá formannsembætti Rafiðnaðarsambands Íslands fyrir komandi kjaraviðræður.
Réttasta niðurstaðan
„Ég held að þetta hafi verið réttasta niðurstaðan á þessum tímapunkti við þessar aðstæður. Ég tel að við hefðum illa getað gert eitthvað annað,“ sagði Kristján Þórður í samtali við mbl.is í gær.Samkvæmt dagskrá átti stjórnarkjör að fara fram eftir hádegi í gær. Ljóst er að ekkert varð úr því. Eftir að Ragnar Þór dró sitt framboð til forseta til baka á mánudaginn var Ólöf Helga Adolfsdóttir ein eftir í framboði. Hún stendur enn við framboð sitt.
Ragnar stendur við sitt
Í samtali við mbl.is. í gær, eftir að ljóst var að þinginu yrði frestað, sagðist Ragnar Þór vera staðfastur í sinni ákvörðun. Hann ætlar ekki að bjóða sig fram til forseta ASÍ.Þá kallaði hann eftir því að hann fengi vinnufrið til þess að sinna sínu félagi og gagnrýndi málflutning Halldóru Sigríðar Sveinsdóttur, formanns stéttarfélagsins Bárunnar. Hún sagði í viðtali við mbl.is að atburðarás mánudagsins hefði ekki komið sér á óvart og sagði hana hafa verið hannaða fyrir þingið.
„Þetta lýsir í rauninni bara nákvæmlega ástæðunni fyrir því að ég ákvað að stíga til hliðar. Ég vissi það í hjarta mínu að árásum þessa fólks myndi aldrei linna – þó ég næði kjöri sem forseti, að þau myndu aldrei hætta. Þau hafa kallað mig ofbeldismann, hafa kallað mig valdasjúkan, hafa talað um að ég hafi ætlað mér að reka starfsfólk VR ítrekað, ítrekað,“ sagði Ragnar við mbl.is í gær.
„Ég vil bara fá frið, ég vil fá vinnufrið til þess núna að vinna fyrir mitt félag. Hvernig væri ef þau myndu bara gefa mér þennan frið? Ég sagði mig frá þessu til að gefa þessu fólki rými til að taka yfir Alþýðusambandið, ég hef ekki lýst því yfir að markmiðin séu einhver önnur. Þau fengu þetta rými, þau voru með yfirlýst markmið um að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að ganga úr skugga um að við næðum ekki kjöri,“ sagði Ragnar enn fremur.
Efast um gagnsemi aðildar
Sólveig Anna og Ragnar Þór hafa bæði efast um að sín félög eigi heima innan raða ASÍ.Í samtali við mbl.is í gær sagði Sólveig Anna niðurstöðu þings ASÍ, að því skuli frestað til næsta árs, ekki breyta afstöðu sinni. Þá sagðist hún ekki eiga von á því að Efling muni taka þátt í komandi kjaraviðræðum á vettvangi ASÍ, en fulltrúar stærstu félaga sambandsins hafa tekið þátt í samninganefnd ASÍ, þar sem fjallað er um sameiginleg mál launþega í hreyfingunni.
Ástandið fólki til hneisu
• Sumarliði R. Ísleifsson segir trúverðugleika ASÍ í húfi • Telur óvíst að óstarfhæfri hreyfingunni verði bjargað Ragnheiður Birgisdóttirragnheidurb@mbl.is
Trúverðugleiki Alþýðusambands Íslands er í húfi og ástandið sem skapast hefur innan hreyfingarinnar er þeim, sem hlut eiga að máli, til hneisu. Þetta segir Sumarliði R. Ísleifsson, sagnfræðingur, í samtali við Morgunblaðið, en hann skrifaði sögu Alþýðusambandsins sem kom út árið 2013.
„Þetta er náttúrlega verst fyrir fólkið í hreyfingunni, hinn almenna félaga. Hreyfingin virðist vera óstarfhæf. Þegar maður er bara að berjast við samherja sína fer alveg rosaleg orka í það og fólk hugsar kannski ekki um margt annað,“ segir hann.
„Er ekki hægt að orða þetta þannig að þetta sé bara fólki til hneisu, fólkinu sem á að standa fyrir samstöðu fólks og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum? Þegar mál hafa þróast svona er trúverðugleiki hreyfingarinnar í húfi.“
Spurður út í áhrif þessarar sundrungar á kjaraviðræður segir Sumarliði: „Kjaraviðræður snúast ekki bara um laun heldur snúast þær líka um alls konar sameiginleg mál. Þar hefur þurft að hafa sameiginlegan vettvang, eins og Alþýðusambandið er. Það er náttúrlega frekar ljóst að Alþýðusambandið stendur ekki sterkt og það er líka ljóst að það er erfitt að ræða sameiginleg mál við einstök félög. En maður veit ekki hvernig mál þróast.“
Vitaskuld geti komið upp bandalög og þá minnir hann á að VR og Efling standi fyrir býsna stóran hluta verkalýðsins. „Engu að síður hefur Alþýðusambandið gegnt mikilvægu hlutverki í þessu samhengi.“
Sumarliði telur ómögulegt að segja hvort ASÍ muni lifa af þessa sundrungu og hægt verði að koma sambandinu á réttan kjöl með nýju þingi. En líta megi á það að núverandi forseti sambandsins, Kristján Þórður Snæbjarnarson, sitji áfram í nokkurs konar málamiðlunarskyni.
„Hann virðist að einhverju leyti standa á milli þessara fylkinga. Það hefur verið barist áður innan verkalýðshreyfingarinnar og stundum hafa mál verið leyst þannig að það sé kallaður til aðili sem talinn er geta staðið milli fylkinga. En ég geri ráð fyrir að það þurfi að lækka hitann áður en fólk geti farið að ræða saman af einhverju viti. Svo er ómögulegt að segja hvort það er hægt.“