Guðmundur Magnússon fæddist í Leirvogstungu í Mosfellssveit 14. apríl 1934. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 27. september 2022.

Foreldrar hans voru Magnús Sveinsson bóndi í Leirvogstungu, f. 3. ágúst 1900, d. 20. september 1958, og Steinunn Guðmundsdóttir húsfreyja í Leirvogstungu, f. 28. mars 1909, d. 29. apríl 1977.

Hálfbróðir Guðmundar samfeðra var Haraldur Sveinn, f. 27. október 1928, d. 4. maí 2019, og saman áttu Magnús og Steinunn Hlyn Þór, f. 5. mars 1947, d. 28. des. 2017, auk Guðmundar.

Hinn 1. desember 1957 kvæntist Guðmundur Selmu Bjarnadóttur, f. 23. mars 1939. Börn þeirra eru: Steinunn Ósk, Magnús, Sesselja Sigrún og Bjarni Sv.

Guðmundur og Selma eiga 29 barna- og barnabörn.

Guðmundur ólst upp í Leirvogstungu í Mosfellssveit og bjó þar nánast alla tíð. Hann starfaði alla starfsævina sem vörubifreiðastjóri og bóndi í hjáverkum en Guðmundur tók við búi föður síns 1958. Guðmundur var mikilvirkur í sínu samfélagi og lét til sín taka í sveitarstjórnarmálum og íþróttastarfi í Mosfellssveit, hann sat í stjórn vörubifreiðastjórafélagsins Þróttar og svo tók Guðmundur við formennsku í veiðifélagi Leirvogsár og sat í stjórn þess í um hálfa öld.

Útför Guðmundar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 13. október 2022, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku pabbi okkar, Guðmundur Magnússon, er fallinn frá 88 ára að aldri. Það er með sorg í hjarta sem við hugsum nú til þess að hann mun ekki senda okkur fleiri tölvupósta eins og hann gerði fram á það síðasta og nú mun hann ekki hringja í okkur til að ræða um hin ýmsu mál. Hann mun heldur ekki lengur geta hugsað um elsku mömmu af umhyggju og ást eins og hann gerði fram á síðasta dag.

Pabbi var sterkur persónuleiki og eitt af hans helstu einkennum var réttlætiskennd, heiðarleiki og dugnaður og hann gerði kröfur til samferðamanna sinna um hið sama og að orð skyldu standa í samskiptum.

Alla starfsævi sína var hann vörubílstjóri og hann sinnti því starfi af elju og áhuga og alltaf voru bílarnir hans hreinir og fínir. Stundum var Volvo besti vörubíll í heimi og stundum var það Scania, allt eftir því hvaða bíl hann átti hverju sinni. Við bræðurnir eigum góðar minningar úr æsku þegar við fórum með pabba í vinnuna í vörubílnum og vorum við stundum með okkar eigið stýri. Pabbi eignaðist marga góða vini og félaga í vörubílaheiminum og sinnti einnig ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi, m.a. fyrir Vörubílstjórafélagið Þrótt.

Pabbi átti ekki mörg áhugamál utan vinnunnar en eitt af því sem hann sinnti af brennandi áhuga í frístundum um margra ára skeið var formennska í veiðifélagi Leirvogsár. Það hlutverk tók hann alvarlega og hann vann ötullega að því með góðum samstarfsfélögum að rækta upp laxastofninn í ánni. Það þolinmóða starf skilaði sér í því að Leirvogsá varð ein fengsælasta veiðiá landsins og fengum við bræður um margra ára skeið að njóta þess að veiða í Leirvogsá í hans boði. Í slíkum veiðiferðum fylgdist hann grannt með aflabrögðum okkar þó að hann veiddi aldrei sjálfur.

Pabbi hafði líka mikinn áhuga á knattspyrnu seinni árin og var hann dyggur stuðningsmaður Manchester United og talaði um Alex Ferguson fyrrverandi þjálfara liðsins af mikilli aðdáun. Hann fylgdist líka grannt með Knattspyrnufélagi ÍA á Akranesi en var ekki ánægður með gengi liðsins undanfarin ár. Ræddi hann stundum um að það þyrfti að kalla til Óla Þórðar eða aðrar eldri hetjur Skagamanna á knattspyrnuvellinum til að hrista upp í málunum.

Margar minningar streyma fram á kveðjustund en það sem stendur upp úr er að alltaf stóð pabbi þétt við bakið á okkur í gegnum súrt og sætt þótt hann væri ekki alltaf sammála um allt sem við tókum okkur fyrir hendur. Það er með þakklæti sem við kveðjum pabba okkar eftir langa samfylgd og við munum ylja okkur við minningar um þennan kraftmikla og eljusama mann. Takk elsku pabbi og farnist þér vel á nýjum slóðum. Við systkinin hugsum um mömmu og vitum að þú fylgist vel með.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Bjarni Sv. Guðmundsson,

Magnús Guðmundsson.

Nú er Leirvogstungubóndinn allur. Guðmundur Magnússon var síðasti ættliðurinn sem bjó á Leirvogstungu. Hann tók við búi af föður sínum Magnúsi Sveinssyni 1957. Fjórði ættliðurinn sem bjó þar. Magnús var athafnasamur maður, oddviti um árabil og endurbyggði öll hús á jörðinni af miklum myndarskap. Guðmundur erfði þessa eiginleika föður síns. Hann byggði myndarlegt hús fyrir fjölskylduna og hélt uppi góðu búi um árabil ásamt því að stunda fulla vinnu utan heimilisins.

Um leið og Guðmundur hafði aldur til keypti hann vörubíl og byrjaði með bílinn í vegavinnu. Svo urðu bílarnir stærri og verkefnin meiri. G787 varð vel þekkt númer á suðvesturhorninu. Þeir feðgar hófu malarnám á Leirvogstungumelum og um árabil var Guðmundur í samstarfi við BM Vallá og oft var unnið dag og nótt.

Guðmundur giftist Selmu systur minni 1. desember 1957. Selma var hans stoð og stytta. Hún hugsaði um bú, börn og bókhaldið meðan hann var dögum saman í burtu í vegavinnu. Ég var á sínum tíma kaupamaður hjá þeim og lærði að hugsa um kindur, kýr og svín.

Hann sagði við mig í sumar í okkar daglegu símtölum: „Það er gott að það er mikið eftir í hausnum á mér. Ég ólst upp við skilvindur og strokka, söðla, aktygi og reipi til að binda heyið af engjunum, engir traktorar. Nú eru aðrir tímar.“

Mosfellsbærinn fer sístækkandi og fyrir rúmum 16 árum sá Guðmundur að tími var kominn til að hætta búskap.

Guðmundur hugsaði um framtíðina og var ljóst að sá tími myndi koma þegar þau Selma þyrftu á aðstoð að halda í daglegu lífi. Hann sótti því um íbúð á Hlaðhömrum, þar sem fór vel um þau. Í byrjun desember síðastliðins varð Selma fyrir því óláni að brotna illa á ökkla og hefur dvalið á sjúkrahúsum síðan og nú síðast á hjúkrunarheimilinu Hömrum. Þar er einstaklega vel hugsað um hana. Það var Guðmundi þungbært að geta ekki hugsað um hana lengur.

Árum saman voru þau reglulegir gestir hjá okkur í Skotlandi. Sérstaklega minnisstætt er þegar þau komu til að halda upp á gullbrúðkaupsafmæli sitt hjá okkur í skosku hálöndunum. Innkaupaferðir til Edinborgar fyrir jól voru reglulega á dagskrá og þau bjuggu alltaf á sama hóteli og áttu orðið góða kunningja þar og einnig á ítalska veitingastaðnum La Laterna.

Guðmundur var mikill stuðningsmaður Manchester United. Undanfarin ár hafa verið þrautaganga fyrir aðdáendur liðsins síðan sir Alex lagði skóna á hilluna. Í nokkur ár hef ég sent Guðmundi dagatöl frá Manchester United. Nú var svo komið að fyrir nokkrum vikum sagði hann mér að hætta að senda þetta dót. Manchester United væri búið að vera. Hann skipti svo um skoðum tveimur vikum seinna. Bjartsýnin réð ríkjum.

Hann var búinn að undirbúa allt sem gera þyrfti þegar hann yrði kallaður úr þessum heimi svo allt væri eins auðvelt fyrir fjölskylduna og hægt væri. Hann vissi að það gæti gerst mjög fljótlega eins og raun varð á.

Við kveðjum hann í dag með þökk og söknuði og felum hann góðum Guði.

Sveinbjörn S. Bjarnason.

Héraðshöfðingi fallinn frá. Guðmundur Magnússon í Leirvogstungu er nú látinn 88 ára að aldri. Mér finnst við hæfi að ég minnist þessa samferðamanns, frænda, vinar, nágranna og sérstaks velgjörðarmanns allt mitt líf. Guðmundur ólst upp í góðri umgjörð foreldra sinna í Leirvogstungu. Faðir Guðmundar var á uppvaxtarárum hans oddviti sveitar sinnar og því önnum kafinn í félagsmálum og hafði m.a. forgöngu og umsjón með byggingu félagsheimilisins Hlégarðs. Búskapurinn í Leirvogstungu hvíldi því mikið á Steinunni móður hans og Guðmundi, tók Guðmundur við búi við skyndilegt fráfall föður síns aðeins 59 ára gamals og sinnti því um sinn. En aðalstarf Guðmundar varð samt við akstur vörubifreiðar sinnar um ártuga skeið, ásamt öðrum félagsstörfum fyrir sveit sína eins og faðir hans og var hann í sveitarstjórn um tíma ásamt fleiri félagsstörfum, m.a. var hann formaður veiðifélags Leirvogsár og formaður vörubílastöðvarinnar Þróttar um árabil. Hann var kjörinn til þess að meta laxveiðiár um allt land og var þekking hans á því sviði virt að verðleikum enda mjög fróður um allt sem að því laut. Guðmundur var velgjörðarmaður minn frá fyrstu tíð, hafði hann forgöngu í því að undirritaður fékk inngöngu á vörubílastöðinni Þrótti sem á þessum tíma var lokaður starfsvettvangur og háður leyfum ráðuneytis. Þá seldi hann mér minn fyrsta vörubíl þegar hann endurnýjaði sinn og voru allir greiðsluhættir mér í vil, þannig að hægt væri fyrir ungan mann að standa við. Faðir Guðmundar hafði selt Reykjavíkurborg námuréttindi í Leirvogstungu og í því fólst réttur á fyrsta bíl í vinnu fyrir borgina í áraraðir, sinnti Guðmundur þeirri vinnu af kostgæfni, vegnaði því vel og var iðulega hæsti skattgreiðandi sinnar sveitar. Atvinna var af skornum skammti á þessum árum og því eftirminnilegt að þegar Guðmundur þurfti frá vinnu sinni að hverfa dag og dag fól hann frænda sínum að hlaupa í skarðið og man ég hvað þetta skipti miklu máli fyrir fjárhag minn. Guðmundur var áberandi í sveit sinni, umdeildur vegna skoðana sinna og afskipta af hinum ólíklegustu málum enda hreinskilinn, afburðaduglegur og mjög eftirtektarsamur. Gestrisni Guðmundar og Selmu konu hans var einstök og óteljandi voru komur mínar á heimili þeirra, bæði í Leirvogstungu og seinna á heimili þeirra að Hlaðhömrum. Aðeins viku fyrir andlát Guðmundar gengum við tveir til Selmu sem var vistuð á öðrum stað í húsinu sökum heilsubrests, þar opnaði hann allar dyr með tölvustýringu, ákveðinn og fljótur að læra á allar aðstæður. Þrátt fyrir heilsubrest var Selma falleg að vanda, fín og vel snyrt. Ég fann á Guðmundi í fyrsta skipti nokkurn bilbug í þessari heimsókn, bauð ég honum í bíltúr um sveitina en hann treysti sér ekki. Eitt símtal áttum við eftir þetta, hann hafði lofað að taka til fyrir mig minningargrein um jafnaldra sinn sem hann hafði ritað í Morgunblaðið og sannaðist þar að það sem Guðmundur lofaði stóð hann við, orð skulu standa. Minning hans er skýr í mínu minni og eftirsjá er að honum, ég mun ávallt geta hans sem velgjörðarmanns míns.

Jón Sverrir Jónsson, Varmadal.