Vignir Ö. Hafþórsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir útlit fyrir að atvinnuleysi á Íslandi verði að meðaltali 2-3 prósent á næsta ári.

Vignir Ö. Hafþórsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir útlit fyrir að atvinnuleysi á Íslandi verði að meðaltali 2-3 prósent á næsta ári.

„Við væntum þess að það verði að meðaltali minna atvinnuleysi á næsta ári en í ár sem þýðir skort á vinnuafli á vissum landsvæðum myndi ég telja og neikvætt atvinnuleysi,“ segir Vignir um horfurnar.

Mælist allt niður í 0,7%

Atvinnuleysi mælist nú 2,8% á landinu og hefur ekki mælst jafn lítið síðan í desember 2018, líkt og Morgunblaðið hefur fjallað um síðustu daga. Þá mælist atvinnuleysið á Norðurlandi vestra 0,7%, 1,1% á Austurlandi, 1,2% á Vesturlandi og 1,3% á Vestfjörðum.

„Á þessum landsvæðum mælist atvinnuleysið svo lítið að það gefur til kynna að það vanti fólk á svæðið,“ segir Vignir.

Spurður hversu mörg störf muni skapast í hagkerfinu á næsta ári kveðst Vignir ekki hafa nákvæma áætlun um það. Hins vegar megi ætla að hátt hlutfall þessara starfa sé þegar í boði, enda sé umframeftirspurn eftir fólki í sumum greinum.

Stór verkefni að fara af stað

„Svo eru stór verkefni að fara af stað, á borð við innanvinnu í nýjum Landspítala. Atvinnuleysi hefur minnkað hratt í byggingariðnaði og ferðaþjónustu á landsbyggðinni og það kæmi mér ekki á óvart ef sama yrði upp á teningnum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Vignir.

Hann líkir stöðunni á vinnumarkaði við árin 2015 til 2018 sem voru mikil uppgangsár í ferðaþjónustunni. Árið 2017 hafi atvinnuleysi lægst farið í 1,8%. Hins vegar sé atvinnuleysið meira en 2006 og 2007 (sjá graf). baldura@mbl.is