Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Við þurfum að bæta í baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi og stýra mannaflanum og fjármagninu þangað sem brýnast er hverju sinni.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Við þurfum að bæta í baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi og stýra mannaflanum og fjármagninu þangað sem brýnast er hverju sinni. Skipulögð brotastarfsemi er þar ofarlega á blaði,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri.

Hún var spurð út í dökka mynd sem Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri dró upp í Morgunblaðinu í gær af álaginu á lögregluna á Suðurnesjum, annars vegar vegna hælisleitenda og hins vegar vegna fíkniefnasmygls.

„Fíkniefnainnflutningurinn er skipulögð brotastarfsemi sem við höfum reynt að vekja athygli á síðastliðin ár. Skipulögð brotastarfsemi er talin mikil ógn hér á landi,“ segir Sigríður. Hún segir að dómsmálaráðherra sé að vinna að því að veita auknu fé til málaflokksins og fyrri dómsmálaráðherra hafi einnig aukið framlög til lögreglunnar.

Sigríður segir að lögreglan hafi lýst yfir áhyggjum vegna skipulagðrar glæpastarfsemi í kringum hælisleitendur. „Flóttamenn eru viðkvæmur hópur gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi. Evrópulögreglan hefur lýst því að hópar sem eru fluttir á milli landa af alls konar smyglurum séu útsettir fyrir alls kyns ofbeldi og misnotkun. Þess vegna ber okkur að gæta vel að þessum hópi,“ segir Sigríður. Hún bendir á að ÖSE sé þessa dagana með vinnustofur hér á landi um stöðu mansalsmála í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. T.d. hefur fjölgað í hópi þeirra sem leita á netinu eftir kynferðislegri þjónustu hjá fólki frá Úkraínu.

Sigríður minnir á að viðbúnaðarstig á landamærunum hafi verið fært á hættustig 16. september sl. Hún segir húsnæðisþörfina hafa vegið þungt í þeirri ákvörðun og einnig séum við skuldbundin til að veita hælisleitendum þjónustu. 10