Kristinn Þór Styrmisson fæddist 25. ágúst 2000. Hann lést 29. september 2022. Útför Kristins Þórs fór fram í gær, 12. október 2022.

Kristinn Þór Styrmisson var okkur í Viðreisn góður félagi. Hann hóf þátttöku í starfi Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, í aðdraganda þingkosninganna 2016. Þá var hann nýlega orðinn 16 ára gamall. Hreyfingin var þá ung og hann meðal yngstu þátttakenda í henni. Með Kristni í för var iðulega Mathias Bragi, vinur hans, og þar sem hvorugur þeirra hafði aldur til að keyra treystu þeir á aðstoð fjölskyldu til að skutla sér á fundi suður til Reykjavíkur og til baka. Kristinn var því ekki aðeins meðal yngstu félaga Viðreisnar, heldur einnig meðal þeirra sem sóttu starfið um lengstan veg.

Kristinn hafði drauma um að starfa í stjórnmálum og hafði marga þá kosti sem prýða þurfa góða stjórnmálamenn. Hann var mikið gæðablóð, næmur fyrir öðru fólki, vel lesinn og trúr sjálfum sér og sínum skoðunum. Hann var góður í samskiptum og hafði virkilegan áhuga á öðru fólki, að skilja það og skoðanir þess. Kristinn var þannig drengur að hann fyllti mann trausti í garð ungs fólks og hinnar nýju kynslóðar sem brátt mun taka við. Fyrstu skref hans voru í sveitarstjórnarmálum, þar sem hann átti sæti á framboðslista L-listans í Hrunamannahreppi í kosningunum í vor. Hann átti sæti í sveitarstjórnarráði Viðreisnar og tók þátt í starfi þess.

Ég fylltist djúpri sorg við fréttirnar af fráfalli hans og færi fjölskyldu hans okkar innilegu samúðarkveðjur. Kristinn var slíkur drengur að hann náði að snerta okkur öll sem honum kynntumst. Minning um góðan dreng mun lifa.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.