Orkuklasar Glenda Napier flytur erindi á ráðstefnu Íslenska orkuklasans.
Orkuklasar Glenda Napier flytur erindi á ráðstefnu Íslenska orkuklasans.
Danir hafa markað þá stefnu í loftslagsmálum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent árið 2030 borið saman við árið 1990 og ná kolefnishlutleysi árið 2050.

Danir hafa markað þá stefnu í loftslagsmálum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent árið 2030 borið saman við árið 1990 og ná kolefnishlutleysi árið 2050.

Þetta kom fram í máli Glendu Napier, framkvæmdastjóra Orkuklasa Danmerkur, á ráðstefnu sem Orkuklasinn stóð fyrir nýlega undir yfirskriftinni Klasar sem drifkraftur nýsköpunar.

„Markmið okkar er að viðhalda og styrkja hlut Danmerkur sem fyrirmyndar í þróun grænnar nýsköpunar í alþjóðlegum lausnum í orkumálum,“ sagði Napier, samkvæmt útskrift af erindi hennar, sem Morgunblaðið hefur fengið. Sagði Napier að nýsköpun væri lykill að því að ná loftslagsmarkmiðunum og þau yrðu því ekki aðskilin Orkuklasa Danmerkur.

Napier sagði frá reynslu sinni við uppbyggingu danska orkuklasans og fór yfir hlutverk hans í aðgerðum Dana hvað viðkemur loftslagsaðgerðum og orkuskiptum. Að sögn Napier tóku Danir upp opinbera klasastefnu árið 2013 og sú stefna er ein af lykilstoðum nýsköpunarstefnu þeirra. Klösunum er skipt upp í héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa og sagði Napier nauðsynlegt að vera í návígi við uppsprettu verðmætanna til að skapa alþjóðlegar tengingar.

Napier sagði mikilvægt að klasar fyndu lausnir á ágreiningsefnum. Því þyrfti að liggja fyrir skýr stefna um það hvernig klasinn forgangsraðaði fjármunum til verkefna og hvernig áherslur og leiðir væru skilgreindar í nýsköpun með það fyrir augum að auka skilvirkni og samlegð í klasasamstarfi á landsvísu og forgangsraða fjármunum til klasa þar sem þekking og geta er sannarlega fyrir hendi.

Guðlaugur Þór Þórðarson,umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti einnig ávarp á ráðstefnunni og sagði m.a. að brýn þörf væri á nýjum lausnum vegna óvissu í orkumálum Evrópu og svo vegna loftslagsbreytinga. Benti hann á að uppbygging Íslendinga til að nýta jarðvarma hefði gert kleift að skipta út innfluttri óendurnýjanlegri orku yfir í innlenda og endurnýjanlega orku. Þetta skapaði þjóðinni ávinning sem næmi um 7% af árlegri landsframleiðslu þjóðarinnar. Framkvæmdirnar hefðu einnig bætt þjóðaröryggi sem kæmi vel fram í því að um um þessar mundir væri þjóðin að miklu leyti varin fyrir áhrifum stríðsátaka í Evrópu sem meðal annars hefði valdið verðhækkunum á olíu og verðbólgu. Þá væru innviðir í kringum endurnýjanlega orku mikilvægir til að gera okkur kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar um loftslagsmarkmið og orkuskipti.