Óskar Jónatansson fæddist á Smáhömrum við Steingrímsfjörð 16. mars 1924. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 30. september 2022.
Foreldrar hans voru Jónatan Halldór Benediktsson, kaupfélagsstjóri á Hólmavík, f. 26. júlí 1894, d. 5. mars 1983, og Þuríður Samúelsdóttir kona hans, f. 19. júní 1903, d. 2. ágúst 2008.
Systkini Óskars eru Svavar, f. 3. júní 1931, kvæntur Mörtu Gunnlaugu Magnúsdóttur, f. 27. júní 1936; Ríkarður, f. 25. desember 1932, d. 28. júlí 2002, kvæntur Þóru Magnúsdóttur, f. 19. ágúst 1932, d. 17. ágúst 2007; Lára, f. 12. janúar 1936.
Óskar lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1945. Hann starfaði sem bókari hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar frá 1945 til 1955 og sem bókari hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga frá 1955 og sem aðalbókari SÍS frá 1960 til 1990. Eftir starfslok hjá Sambandinu starfaði Óskar sem bókari í fyrirtækinu Lyru í hartnær 20 ár.
Óskar sat í stjórn Átthagafélags Strandamanna og Landssambandi íslenskra frímerkjasafnara og kom auk þess að útgáfu Strandapóstsins.
Útför hans fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 13. október 2022, og hefst hún kl. 13.
Hann nafni minn hefur nú kvatt okkur í hinsta sinn.
Ég var skírður í höfuðið á honum Óskari frænda, bróður pabba. Við höfum alltaf verið mjög nánir frændurnir, allt frá því að ég var lítið barn, og þær eru margar stundirnar sem rifjast upp þessa dagana.
Þegar ég var í pössun á Rauðó, ungur að árum, var Óss alltaf til staðar fyrir mig og var óþreytandi að lesa fyrir mig hin ýmsu ævintýri, jafnvel kvöld eftir kvöld. Stundum fékk ég að skoða frímerkjasafnið hans og hann gaf mér bók til þess að safna frímerkjum í, og safnið mitt samanstóð aðallega af flugvélafrímerkjum. Svo tókum við af og til eina skák saman eða spiluðum á spil.
Seinna þegar Óss tók loksins bílpróf, um sextugt, þá fórum við oft saman í bíltúra. Eitt sinn alla leið upp að Henglinum. Þar löbbuðum við upp á topp en þegar niður kom var dregið fram tjald og úr varð þessi fína útilega.
Síðustu árin sín dvaldi Óskar í góðu yfirlæti á hjúkrunarheimilinu Ísafold og áttum við þar oft og iðulega góð samtöl um daginn og veginn. Óskar fylgdist með fréttum og fylgdist af áhuga með öllum fréttum af vinnustaðnum mínum, Icelandair, og fylgdist gjarnan með gengi hlutabréfanna.
Þar sem Óskar starfaði sem aðalbókari og endurskoðaði marga ársreikninga má segja að hann hafi „valið“ brottfarardag við hæfi, síðasta dag septembermánaðar og þar með lokadag þriðja ársfjórðungs.
Ég á eftir að sakna hans nafna míns mikið. Hjartahlýrri, ráðabetri og ljúfari maður er vandfundinn.
Ég bið góðan Guð að taka vel á móti þér.
Hvíl í friði.
Óskar Tryggvi Svavarsson.
Óskar var ræktarsamur og frændrækinn. Hann hringdi til mín nýlega að huga að líðan okkar systkina eftir að móðir okkar dó fyrr á árinu. Þá var hann árvakur í besta lagi og vel með á nótunum.
Vinátta Óskars og föður okkar var löng og stóð í ein 85 ár, eða þar til faðir okkar systkina lést árið 2013. Faðir Óskars, Jónatan, og Elinborg, móðir föður míns, voru systkini og eftir að Björn afi minn lést frá fimm ungum börnum árið 1932 var amma mín undir verndarvæng Jónatans um nokkurt árabil. Þeir frændur voru því samtíða á barnsaldri á Smáhömrum við Steingrímsfjörð á þriðja áratug síðustu aldar og síðar á Hólmavík. Óskar hafði miklar taugar til Smáhamra og fór þangað oft, einnig á meðan ég var í sveit þar á bæ á öndverðum 7. áratug síðustu aldar.
Gott samband þeirra frænda fór ekki fram hjá okkur systkinum og það var spenna í lofti og eftirvænting þegar von var á Óskari í heimsókn. Þá var oftast spilaður lomber með Tryggva föðurbróður og Margréti konu hans, einatt með miklum hlátrasköllum. Þeir félagar höfðu frá æskuárum komið sér upp afar sérstöku og stundum flóknu tungutaki þar sem þeir notuðu allar þekktar orðmyndunarreglur íslenskunnar, án þess að þekkja þær, og ófu þar hinn furðulegasta vef. Nú eru þau öll horfin úr „veraldar umsvifaþröng“, eins og segir í sálminum, en sem betur fer náðist að skrá þessa orðanotkun þeirra um síðir með hjálp föður míns.
Kunnugt er mér um að Óskar var bókhneigður og hafði unun af lestri. Einhvern tíma fyrir löngu sagði hann mér að sér fyndust Íslendingasögur svo merkilegar að hann tímdi varla að lesa þær heldur vildi treina sér þær til betri tíma. Ég er ekki frá því að ég sé sama sinnis. Vonandi hefur hann þó fundið góðar stundir til lestrarins síðar meir. Þá gaf Óskar Sigríði systur minni eitt sinn hefti þar sem hann hafði vélritað nokkur kvæði eftir Davíð frá Fagraskógi.
Faðir minn segir frá bernskubrekum þeirra nyrðra í bók sinni Minningar af Ströndum. Meðal annars sagði faðir minn þegar hann var spurður með hverjum hann ætlaði að vera þegar hann kæmi til Hólmavíkur: „Ég verð bara einn eða tveinn með Óskari.“ Þegar hann lá banaleguna skrifaði Óskar honum einstaklega hjartnæmt bréf og þakkaði honum vináttuna traustu sem stóð alla þeirra ævi. Þetta bréf kunni faðir minn vel að meta þótt þróttlaus væri og gæti ekki svarað því. Nú kveðjum við systkinin, ég, Björn Valur og Sigríður, öndvegismanninn Óskar og þökkum þá blessun að hafa fengið að kynnast honum.
Þorkell Örn Ólason.
Þegar ég hugsa til baka þá varst þú alltaf með, hvort sem það var að bræður þínir voru að byggja hús, fjölskyldan að taka upp kartöflur eða farið var í ferðir.
Minningarnar um þig á Rauðalæknum eru margar og góðar, það var alltaf notalegt að heimsækja ykkur Láru, afa og ömmu og spjalla saman yfir góðum kaffibolla og nýbökuðum kleinum.
Þegar við Líney byrjuðum saman fyrir liðlega 40 árum þá urðuð þið strax góðir vinir og það hélst alla tíð, þú tókst henni með opnum örmum og þínu hlýja brosi. Þú sýndir áhuga öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur og varst tilbúinn að hjálpa.
Ein af þessum góðu minningum er frá þeim tíma þegar við byggðum okkur hús í Krókamýrinni, þú komst og lagðir okkur lið og okkar vinir urðu að þínum.
Í seinni tíð eftir að þið Lára fluttuð á Strikið breyttist margt en alltaf var jafn notalegt að koma til ykkar. Undir það síðasta áttir þú góðan tíma á Ísafold þar sem þér leið vel og þú naust góðrar aðhlynningar frábærs fólks sem þér fannst vænt um. Börnin okkar og barnabörn nutu þess að koma til þín og þú varst alltaf jafn glaður að sjá þau og naust þess að hafa þau hjá þér. Aðeins er tæpur mánuður síðan þú fylgdist með af áhuga þegar smalað var á Smáhömrum og hafðir gaman af því að fá símtöl og fréttir úr sveitinni en Smáhamrar áttu alltaf sérstakan stað í þínu hjarta.
Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman og minningin um þig lifir.
Líney og Jónatan.
Ég man ekki eftir Óss öðruvísi en brosandi sínu einlæga og stóra brosi.
Ég líkt og svo mörg skyldmenni, gat ávallt treyst á hlýjar móttökur hjá langömmu Þuríði, Óss og systur hans Láru á Rauðalæknum. Minningarnar eru margar og ná allt aftur í barndóm.
Tröppurnar upp á þriðju hæðina voru leikvöllur og garðurinn sömuleiðis, en skemmtilegast var að kíkja inn til Óss. Herbergið hans fól í sér kyrrð en sömuleiðis frumleika, líkt og útvarpið sem var byggt inn í vegginn við rúmið, sérstaka málverkið eftir Kára Eiríksson og óvenjulega löguð borðtölva.
Mér fannst alltaf notalegt að vera í kringum Óss, og félagsskapur hans hafði róandi áhrif sama á hvaða aldri ég var. Ég átti heimangengt á Rauðalækinn þegar ég vann í byggingarvinnu í Borgartúni við síðustu aldamót og þykir vænt um minningar af notalegum kvöldverðum og morgunmat áður en ég fór í verkamannavinnu og Óss hélt til starfa sem bókari hjá Lyru, en áður hafði hann verið aðalbókari Sambands Íslenskra samvinnufélaga (SÍS).
Þó svo Óss hafi lengi verið stórtækur frímerkjasafnari með tengsl víða um heim, voru það bækur sem fylgdu honum alla tíð. Upp á háalofti voru staflar af lesnum bókum, þar á meðal reyfurum, og var hann lengi áskrifandi að ýmsum bókaflokkum. Bókasmekkur hans var fjölbreyttur allt fram á síðasta dag. Á seinni árum voru það hljóðbækur sem veittu honum aðgang að draumaheimi bókmenntanna með tilheyrandi ánægju, ég tala nú ekki um ef lesturinn var góður. Á tíræðisaldri upplifði hann tímaleysi í gegnum skáldskap og sagnfræði inn á milli þess sem hann dreymdi skemmtilega drauma um liðna tíma. Þó hann væri rúmfastur undir lokin, sagði hann mér að í draumum sínum hlypi hann um tún og endurlifði gleðitíma með vinum og frændum eins og Óla E, ávallt kallaður Óli C, á Smáhömrum á Ströndum, uppeldisheimili þeirra beggja. Nær dagleg samvera með afa Svavari, bróður Óss, og Láru systur þeirra, hafa vafalaust aukið á lífsfyllingu og endurminningar langrar ævi.
Að tala við Óss var alltaf samtal sem gat farið vítt og breitt sama hversu stutt það var. Ég mun sakna samtala sem og hlýrra faðmlaga frá Óss. Ég heyri enn óminn af stóru ljúfu röddinni sem ávallt yljaði mér um hjartaræturnar.
Ég, Svavar litli, kveð góðhjartaða stóra frænda minn hann Óss með þakklæti efst í huga.
Svavar Jónatansson (Svavar yngri).