Reykjavíkurnætur Margir fara í miðbæinn um helgar og á skemmistaðina þar. Bragurinn hefur þó breyst og færri eru að alveg fram í morgunsárið. Áður var algengt að miðborgin væri full af fólki á heimleið við dagrenningu.
Reykjavíkurnætur Margir fara í miðbæinn um helgar og á skemmistaðina þar. Bragurinn hefur þó breyst og færri eru að alveg fram í morgunsárið. Áður var algengt að miðborgin væri full af fólki á heimleið við dagrenningu. — Morgunblaðið/Ari Páll
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Mynstrið í skemmtanalífinu hefur breyst,“ segir Rafn Hilmar Olsbo Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann starfar á stöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík sem meðal annars sinnir löggæslunni í miðbænum, þar sem fjöldi skemmtistaða er.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Mynstrið í skemmtanalífinu hefur breyst,“ segir Rafn Hilmar Olsbo Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann starfar á stöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík sem meðal annars sinnir löggæslunni í miðbænum, þar sem fjöldi skemmtistaða er.

Allt fram á árið 2020 eða þar um bil tók fyrir mannamót í langan tíma vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og var algengt að fólk sem ætlaði á skemmtistaði mætti í miðbæinn um miðnæturbil og væri á svæðinu gjarnan fram til klukkan 5 og 6 á morgnana.

Verkefnum lögreglu hefur fækkað

Eftir að hömlum og samkomutakmörkunum var aflétt í byrjun þessa árs er gangurinn æ oftar sá að fólk mætir í bæinn snemma kvölds. Sumir jafnvel síðdegis þegar á ölstofum eru tilboð undir merkjum „happy hour“. Í framhaldinu fara margir til dæmis á dansstaðina en halda svo heim á leið milli klukkan þrjú og fjögur.

„Áður var mjög algengt að fjölmennt væri í miðbænum alveg fram til klukkan fimm og jafnvel til sjö á morgnana um helgar. Nú er sárafátt á svæðinu á þeim tíma og því fögnum við í lögreglunni. Verkefnum okkar í miðbænum á þessum tíma hefur fækkað, enda þó alltaf sé eitthvað um ölvun, pústra og minnháttar árásir. Heilt yfir er ástandið þó mun betra en áður var,“ segir Rafn Hilmar spurður um stöðu mála.

„Miðborgarlífið um helgar ræðst annars af mörgum þáttum. Veður hefur mikið að segja og fyrsta helgi í mánuði, þegar unga fólkið eru nýlega búið að fá laun útborguð, kemur alltaf sterk inn. Svo er alltaf rólegra yfir á prófatíma í framhaldsskólunum. Þetta segi ég án þess að byggja á rannsókn en þessi atriði eru þó engin vísindi fyrir lögreglumönnum sem hafa verið í miðborginni flestar helgar í mörg ár,“ segir Rafn.

Hann bætir við að þótt borgarbragurinn um helgar sé heldur rórri nú en fyrrum var sé ekkert gefið í löggæslunni. Fjölgað sé á miðborgarvöktum um helgar. Sérstaklega sé þá horft til þess að alltaf sé mannskapur á varðpóstum í Austurstræti og Kvos, enda séu margir skemmtistaðir þar og mannfjöldi oft mikill.

Kunnugir segja enga leið að nefna hve margir sæki næturlíf miðborgarinnar um helgar. Hundruð eða þúsund? Talan er óþekkt nema hvað jafnan eru fleiri í bænum á föstudags- en laugardagskvöldi. „Fólk mætir fyrr en áður. Í rekstri skemmtistaða er líka alveg stílað upp á slíkt, enda byrjar dagskrá kvöldsins nú gjarnan fyrr en áður,“ segir Jónas Óli Jónsson sem starfrækir næturklúbbinn Hax, sem er á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs. Sá rekstur hófst í ágúst síðastliðnum og hefur rúllað vel hingað til.

Sunnudagurinn nýtist betur

„Á pöbbum eru stundum tilboð fyrri hluta kvöldsins. Hjá okkur sem rekum dansstaðina er plötusnúðurinn svo stundum byrjaður upp úr klukkan 10 á kvöldin, mun fyrr en áður. Núna er líka mjög algengt að fólk sem fer út á laugardagskvöldi fari heim af djamminu kannski milli klukkan tvö og þrjú á nóttunni í stað þess að vera úti fram til klukkan fimm eða sex. Með þessu kemst fólk fyrr í hvíld og þá nýtist sunnudagurinn betur,“ segir Jónas Óli Jónasson um stöðu mála.