Sveinn Ingi Garðarsson fæddist í Reykjavík 8. mars 1963. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Ósló 6. mars 2022.

ForeldrarSveins eru Dagný Þ. Ellingsen, f. 7. janúar 1939, og Garðar V. Sigurgeirsson, f. 3. febrúar 1937. Bræður Sveins eru Óttar Rafn, f. 23. ágúst 1960, d. 17. ágúst 2010, og Benedikt Jón, f. 18. apríl 1971.

Sveinn ólst upp hjá foreldrum sínum, lengst af í Aratúni í Garðabæ. Hann stundaði nám við skóla bæjarins og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum þar árið 1983 og í viðskiptafræðum frá Ohio University árið 1989. Á námsárunum vann hann á sumrin ýmis störf, m.a. í hvalveiðistöðinni í Hvalfirði og á togara. Að loknu námi starfaði hann lengst af í ferðaþjónustunni; nokkur ár í Stokkhólmi og síðan í Ósló. Árið 2000 kvæntist hann Cathrine Kristiansen frá Ósló, en þau skildu.

Útför hans fór fram í Ósló 18. mars sl. og aska hans var flutt til Íslands.

Minningarathöfn um Svein verður haldin í Fossvogskapellunni í dag, 13. október 2022, klukkan 15.

Duftkeri hans verður síðar komið fyrir við hlið bróður hans, Óttars Rafns.

Það er svo ótal margt sem kemur upp í hugann þegar við hugsum til baka um kynni okkar við Svein Garðarsson. Þetta var þegar við vorum ung, forvitin og hvatvís. Þetta voru góðir tímar. Það var sem sagt aldrei lognmolla í kringum okkur vinina sem fylgdumst að á æskuslóðunum í Garðabæ. Kjallarinn í Aratúninu, partí eftir böll eða átta saman á leið í Hollý, á bremsulausri Volkswagen-bjöllu með bensíngjöfina tengda inn um gluggann í bandspotta.

Sveinn lifði lífinu hratt, stundum of hratt, og því fylgdi gjarnan smá vesen. Það var fátt sem stöðvaði för Svenna nema kæruleysið eins og að missa þrisvar af flugvél á einum sólarhring. Hann fór þangað sem hann ætlaði sér og oft með miklum stæl.

Svenni hafði einfaldan smekk á mat og vín, hann keypti það sem var dýrast á matseðlinum og vínið þurfti að vera rautt, gamalt og að minnsta kosti fjórtán prósent.

Hann var feikilega góður á bókina og skoraði ávallt hátt í prófum, yfirleitt án þess að mæta í tíma. Háskólinn hentaði honum sérstaklega vel þar sem mætingarskyldan var lítil. Það kom líka á daginn að það hentaði honum ekki að vinna hjá öðrum, nema þegar hann var á sjó, þar var erfitt að mæta ekki.

Inn á við bjó alltaf góður drengur og traustur vinur sem skilur eftir ótal margar minningar í hjörtum okkar. Við hefðum öll kosið að leiðir okkar hefðu legið oftar saman í gegnum tíðina. Fjarlægðin milli okkar var orðin of mikil.

Við söknum þín.

Ólafur (Óli), Ragnheiður (Ragga) og Ársæll (Sæli).

Fallinn er frá minn kæri vinur Svenni. Þrátt fyrir að vera fæddir á sama ári og ekki mörg húsin á milli okkar í Aratúninu kynntumst við ekki fyrr en við 12 ára aldurinn. Bráðgerum drengnum lá á að hefja skólagöngu og var því ári á undan í grunnskóla. Við vissum vel hvor af öðrum, bæði sem nágrannar og sem sendlar í miðborg Reykjavíkur. Það var þó ekki fyrr en við hittumst fyrir tilviljun í skíðaskála í Kerlingarfjöllum að við urðum vinir, og ævilöng vinátta tókst með okkur. Aldrei var komið að tómum kofunum hjá honum þegar rökrætt var um heimspeki, pólitík eða trúmál eða annað sem varðaði mannlega tilveru.

Stóran hluta menntaskólaáranna varði Sveinn sem togarasjómaður og tók sín próf milli túra. Ævintýraljómi var á togaramennskunni þar sem oftast var landað í erlendum höfnum. Kjallaraíbúðin í Aratúninu breyttist í félagsmiðstöð milli túra og vel var tekið á tollinum. Að loknu stúdentsprófi var stefnan tekin á háskólanám í Bandaríkjunum. Með Óttari, eldri bróðir sínum, og fleiri vinum var haldið til Ohio þar sem fjöldinn allur af Íslendingum var við nám. Varð hann vinmargur á þeim tíma sem hentaði ágætlega samkvæmisþörfum piltsins. Eftir háskólapróf og stutt stopp á Íslandi flutti hann til Svíþjóðar þar sem hann vann hjá frænda sínum sem seldi Íslandsferðir. Gekk það vel og ákvað fjölskyldan að stofna sambærilegt fyrirtæki um sölu á Íslandsferðum frá Noregi, þar sem foreldrar hans bjuggu. Gekk fyrirtækið afar vel til margra ára. Má segja að vendipunktur hafi orðið á lífi hans er hann lét af störfum í fjölskyldufyrirtækinu.

Þúsundir Norðmanna komu til landsins á þeirra vegum og hann var tíður gestur í heimalandinu og gat haldið góðum tengslum við vini hér. Þjónustuaðilar báru hann gjarnan á höndum sér í þessum Íslandsferðum og fékk hann gjarnan að njóta velvilja þeirra til að viðhalda sambandi við gamla vini. Minnisstæðar eru margar minningar úr þessum heimsóknum enda lítið sparað til af veislukostum, er hentaði Sveini vel því hann sætti sig ávallt aðeins við það allra besta í mat og drykk.

Aldamótaárið 2000 gekk Svenni að eiga Cathrine Kristiansen. Að hætti Sveins var slegið til veglegs víkingabrúðkaups í Almannagjá með veislu í Valhöll. Mér var það heiður að vera hans svaramaður í brúðkaupinu. Í ræðu við það tilefni fannst mér viðeigandi að líkja honum við fæðingu og þróun Surtseyjar þar sem margt er sameiginlegt með þeim, eins og hvernig tímalína sköpunar og þróunar er áþekk. Eftir áralanga ágjöf hverfa þessi tvö eintök og verða að forgengilegum minningum okkar sem eftir lifum aðeins sekúndubrot á jarðsögulegum tíma.

Eftir atvinnumissi og skilnað tók við allskrautlegt tímabil hjá vininum. Um tíma bjó hann í Gambíu þar sem hann tók múhameðstrú og giftist þarlendri konu. Búseta þar hentaði á endanum illa heilsuleysinu og flutti hann aftur til Noregs.

Far vel, kæri vinur. Megir þú finna friðinn hvort sem hann er á himnaríki, í Valhöll eða hjá meyjunum sjötíu og tveim.

Gísli Gíslason.

Sveinn hefur kvatt okkur óvænt og langt um aldur fram, aðeins 59 ára að aldri. Það er þungbært fyrir okkur sem hann þekktum og enn erfiðara fyrir hans nánustu að missa nú annan son og bróður á sviplegan hátt.

Áður höfðu þau misst Óttar Rafn árið 2010 sem lést af slysförum nokkrum dögum fyrir 50 ára afmæli sitt og var jarðsettur á 50 ára afmælisdegi sínum.

Við kynntumst Sveini fyrst þegar að hann hóf nám í háskólanum í Athens, Ohio University. Hann reyndist góður námsmaður enda vel gefinn og lauk námi sínu með sóma.

Sveinn var góður félagi, örlátur við vini sína og greiðvikinn en nokkuð sérlundaður og átti það til að fyrtast við okkur félaga sína og á stundum einangra sig. En það stóð aldrei lengi og skildi aldrei eftir nokkur sár.

Brúðkaup Sveins og Cathrine var líklega eitt eftirminnilegasta brúðkaup þeirra sem voru þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa það. Það var haldið á Þingvöllum í blíðskaparveðri og að heiðnum sið.

Að hjónavígslunni lokinni dönsuðu gestir og skemmtu sér fram undir morgun á Hótel Valhöll á Þingvöllum. Hús sem nú er horfið á braut eins og brúðguminn.

Við vinir og fyrrverandi skólafélagar Sveins hörmum skyndilegt brotthvarf hans en þökkum honum fyrir þann tíma sem við áttum með honum.

Við bræður sendum fjölskyldu Sveins, foreldrum og bróður okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Sigurður Bragi Guðmundsson,

Gunnar Karl Guðmundsson,

Ásgeir Heimir Guðmundsson.